Förum með Vestfjarðaveg um Reykhóla

Gunnbjörn Óli Jóhannsson

Loksins, loksins! Vöknuðu íbúar Reykhólahrepps af Þyrnirósarsvefni og fóru með undirskriftalista til sveitarstjórnar Reykhólahrepps um að fá veginn yfir firðina í gegnum Reykhóla. Ekki Þ-H eða D-leið. Samkvæmt frétt RUV var ekki kátína með skjalið og talið full seint í rassinn gripið að koma með þetta núna. En er það nokkuð of seint? Ekkert hefur verið ákveðið enn.

Ég tel að miðað við þessa tvo kosti sem eru upp á borði er sama hvor leiðinn yrði valin, í báðum tilfellum mun framkvæmdin frestast. Í Þ-H leiðinni mun fólkið sem hefur kært vegna þess að það vill ekki að vegurinn fari yfir þeirra land og ekki síst yfir Teigsskógshríslurnar, halda áfram að kæra enda búið að gera það allan ferilinn. D-leið með göngum er ekki á dagskrá næstu árin og glórulaust að fara áfram yfir Ódrjúgshálsinn með gríðarlegum sneiðingi í Djúpafirði. Þá er kominn valkostur I sem ég tel vera þann besta kost, sama og D-leiðin og hringtengir Reykhóla. Kosturinn er að þá er farin sama veglína og Þ-H að undanskildu því að sneitt er framhjá Teigsskógi og Þorskfjörðurinn þveraður utar við Laugaland. Farið með þjóðveginn framhjá Hofsstöðum og inn á veginn við Bjarkalund og einnig farið með innansveitarveg framhjá Laugalandi og inn Reykjanesið. Reykhólar komnir í vegasamband að vestan. Tel ég þessa leið vegtæknilega bestu leiðina, öll á láglendi, fljótekin og mjög létt til snjómoksturs. Það skiptir miklu máli fyrir íbúa svæðisins fyrir aðföng og einnig skólaakstur til Reykhóla, og síðast og ekki síst sérstaklega fyrir íbúa og fyrirtækin á sunnanverðum Vestfjörðum.

Við sem höfum keyrt og þjónustað vegina vitum hvað það er gríðarlega miklilvægt að ná vegum niður á láglendi. Við erum að tala um veg fyrir næstu 50-100 ár. Það er ekki hægt að láta utanaðkomandi fólk sem er bara á ferðinni á sumrin á þessum slóðum ráða ferð. Þetta er lífæð Gufsara og íbúa Vesturbyggðar, Tálknfirðinga og annarra á sunnanverðum Vestfjörðum. Útivistarfólk getur vonandi áfram um ókomin ár keyrt upp á Hjallaháls, Ódrjúgsháls og keyrt að eða gengið upp á Vaðalfjöll til að dást af einni af fegurstu sveit landsins.

Mér skilst að það séu komin um 50 ár frá því hugmynd kom frá Magnúsi Ólafssyni í Vesturbotni, að þvera Þorskafjörð frá Stað yfir í Skálanes. Hann var langt á undan sinni samtíð. Málið búið að þokast á snigilshraða finnst mér síðan, með ótal fundum, tillögum allt frá virkjunum til hálendisvega og allt þar á milli.

Er ekki kominn tími að girða sig í brók og taka slaginn, koma vegum niður af hálsunum, koma Reykhólum í vegsamband og binda enda á gíslingu fólks og fyrirtækja á sunnanverðum  Vestfjörðum. Landi og þjóð til heilla.

 

Skrifað í febrúar 2018,

Gunnbjörn Óli Jóhannsson.

Fleiri aðsendar greinar