Forsetaframbjóðandi á ferð um Vesturland

Halla Tómasdóttir

Það var sólríkur og fallegur dagur þegar við heimsóttum syðsta hluta Vesturlands.  Fjallahringurinn í kringum Akranes skartaði sínu fegursta og það var augljóst að útsýnið jók enn frekar á lífsgæði heimilisfólksins á Höfða sem við heimsóttum í morgunsárið. Sigurlín, húsmóðir og Kjartan framkvæmdastjóri tóku hlýlega á móti okkur. Við fengum að kynnast starfseminni sem hefur verið í mikilli uppbyggingu og áttum líflegar umræður við heimilisfólk í lok leikfimitímans. Þar hitti ég Marías Hjálmar Björnsson, sveitunga móður minnar og frænda frá Djúpuvík. Heimilisfólkið var áhugasamt um kosningarnar og gaman að heyra að mörgum þykir kominn tími á konu í forsetaembættið. Við áttum stutt stopp á Olísstöðinni við Suðurgötu og hittum þar fyrir nokkra herramenn sem sögðust reglulega koma þar saman. Á meðan við sátum þarna að spjalli bárust þau tíðindi að Ólafur Ragnar hefði dregið framboð sitt til baka sem gerði stundina eftirminnilegri og herramennirnir urðu hálfu áhugasamari en áður.

Fjölbrautaskóli Vesturlands og Grunnskólinn í Borgarnesi voru heimsóttir og þar ræddum við meðal annars mikilvægi fjölbreyttrar menntunar og hversu mikilvægt væri að styrkja iðnmenntun. Sem dóttir pípara tel ég mig hafa góðan skilning á þeim verðmætum sem felast í verknámi og hversu mikilvægt það er fyrir uppbyggingu samfélags og atvinnulífs.

Við fundum sterklega fyrir því hvernig framsýni og dugnaður einkenna mannlífið á Akranesi og í Borgarnesi. Trésmiðjan Akur á Akranesi og Límtré-Vírnet í Borgarnesi eru góð dæmi um það og hvarvetna mátti sjá ummerki framfara og uppbyggingar. Við áttum fjörugar samræður við starfsfólk Bæjarskrifstofunnar og Landmælinga. Ég var m.a. spurð hvers vegna ég væri kölluð fjárfestir. Það má segja að réttara væri að kalla mig fyrrverandi fjárfesti því vissulega unnum við að því hjá Auði Capital að ráðstafa sparnaði einstaklinga og fyrirtæki, en ég hef þó miklu lengur starfað sem kennari og sem starfsmannastjóri.

Það er ánægjulegt að segja frá því að í heimsókninni náðum við að ljúka undirskriftasöfnun úr Vestfirðingafjórðungi sem markaði lok undirskriftasöfnunar fyrir framboðið. Ég kann þeim sem lögðu okkur lið hinar bestu þakkir.

Það hafa verið algjör forréttindi að fá að ferðast um landið, hitta fólk og heimsækja vinnustaði síðustu daga og vikur, því um allt land er gott fólk að gera samfélagi sínu gagn og eftir samtölin sem ég hef átt get ég ekki annað en horft bjartsýn fram veginn. Ég hef á þessum ferðum skynjað að fólki finnst skipta máli að forseti hafi til að bera dugnað, kjark og heilindi. Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands til að gera gagn og láta gott af mér leiða og vil vera duglegur fyrirliði heiðarleika, réttlætis, virðingar og jafnréttis.

 

Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi.

Fleiri aðsendar greinar