Forréttindi og flóðhestar

Geir Konráð Theódórsson

Það er mjög heitt hérna í Níger, en núna þegar ég bý hérna og sit sveittur við að skrifa þennan pistil þá kemur hitinn mér ekki lengur á óvart. Hinsvegar í sumar, þegar ég sat svalur í blessaða Borgarnesi og var að lesa mér til um Níger, þá kom það mér á óvart að ég væri að flytja til lands sem í alvörunni er kallað Steikarpanna heimsins. Kannski er lýsingin dregin af því að landið lítur ögn út á landakorti eins og steikarpanna í Sahara eyðimörkinni, en auðvitað kemur nafnið aðallega til vegna þess að hér er oft óbærilega heitt.

Ég hef, ólíkt flestum sem hér búa, aðgang að miklum lúxus sem hjálpar mér að kæla mig niður og það er að heimilið mitt er með sundlaug og loftkælingu. Þetta eru auðvitað ótrúleg forréttindi sem ég ætti alltaf að hafa í huga og vera þakklátur fyrir, en því miður er ég gleyminn og fer stundum í mínum breyskleika að kvarta. Til dæmis koma tímabil eins og í dag þegar rafmagnið virkar ekki og ég sit hér svo ógurlega sveittur og stari með biðjandi augum á rafmagnslausu loftkælinguna. Þegar svona gerist get ég, fullur forréttinda, venjulega farið út í garð þar sem litla svala sundlaugin kemur mér til bjargar. En í dag er heimilishjálpin með slæmar fréttir, eftir storminn í nótt er sundlaugin full af einhverju grunsamlegu gruggi og mér er sagt að best sé að bíða með sundið þar til að búið sé að hreinsa þetta.

Já, hér býr hvíti karlmaðurinn frá Íslandi í húsi með heimilishjálp og öryggisverði og spyr hvenær einhver komi til að hreinsa sundlaugina hans, sundlaugina við húsið í eyðirmerkurborginni. Ég ranka við mér og mig hryllir við þessari nýlenduherratilfinningu! Kærastan var búin að segja við mig áður en ég kom hingað að við værum með fólk í vinnu á heimilinu, og að það sé víst eðlilegt og nauðsynlegt fyrir útlendinga sem flytja hingað til að starfa fyrir Sameinuðu þjóðirnar, en mér þykir þetta samt svo skrítið.

Öryggisverðirnir eru líklegast nauðsynlegir í landi þar sem hryðjuverkasamtök eru að færa sig upp á skaftið, en að hafa heimilishjálp taldi ég nú fullmikið af hinu góða og alveg óþarft. Ég sagði með stolti við kærustuna að ég væri vel uppalinn íslenskur karlmaður og væri vanur að elda, þrífa, þvo föt og gæti vel séð um öll heimilisverkin. Hún brosti og sagði þetta góða kosti og ég ætti endilega að hjálpa til, en að maðurinn sem væri heimilishjálpin okkar gerði svo miklu meira en bara hefðbundin heimilisverk.

Væri ég til dæmis tilbúinn að standa klukkutímum saman á markaðnum og prútta á hinu ýmsu tungumálum til að kaupa í matinn? Gæti ég áttað mig á innlendu skriffinnskunni sem felst í einföldustu verkum eins og að borga rafmagnsreikninginn eða ögn flóknari verkum eins og að finna meindýraeyði ef gat kemur í húsvegginn? Kærastan sagði að líklegast gæti ég ekki einu sinni skipt um ljósaperu hérna því sumar perur fást bara á Stóra markaðinum. Ég muldraði eitthvað um að ég væri nú fullorðinn maður og gæti vel farið á markaðinn og keypt ljósaperu. Það var áður en ég vissi að Stóri markaðurinn eða Grand marché er víst aðeins annað en bara Kringlan heima á Íslandi. Þetta eru yfir 4000 búðir og básar í völundarhúsi af veggjum og tjöldum þar sem þúsundir af fólki koma saman í steikjandi hita til að prútta um allt milli himins og jarðar. Allt í góðu, að vera húshjálp er vel launuð vinna í samanburði við svo margt hérna og ekki vil ég taka atvinnuna frá þessum frábæra manni, og ég skil betur núna af hverju það er gott að vera með heimilishjálp sem veit hvernig lífið hér í Níger virkar.

Það er samt svo heitt! Mig dagdreymir um hve gott það var að vera heima á Íslandi og fara í ískalt sjósund með skemmtilegu fólki. Hinsvegar er hér enginn sjór bara Sahara eyðimörkin og áin Níger sem landið er nefnt eftir. Bíddu nú við, ég bý nú ekki langt frá ánni, kannski get ég farið og tekið smá sundsprett í ánni og kælt mig niður. Verður þetta kannski eins og sjósundið heima, heilsusamleg og hressandi leið til að njóta lífsins með góðu fólki? Nei því miður, í sjósundinu heima þarf ég kannski að huga að flóði og fjöru en ef ég fer varlega þá er sundið þar í góðu í lagi. Hinsvegar er heimilishjálpin snöggur að benda mér á að hérna þurfi ég huga að flóðhestum og fjölbreyttum sníkjudýrum, og sama hvað ég fari varlega þá muni sundið hér aldrei vera í góðu lagi. Ég kinka skömmustulega kolli, betri er sviti en sund í þessu tilfelli, en ég vil samt fá að sjá þessa Nígerá almennilega þótt hún sé full af morðóðum flóðhestum.

Það kom loks að því að ég sá ánna almennilega. Til að fagna því að kærastan er núna að mestu búin að jafna sig á þremur malaríum, nóróveiru og alvarlegri lungnabólgu þá fórum við á algjört draumastefnumót. Við lögðum af stað og keyrðum krókaleið framhjá forsetahöllinni, gegnum fátækrahverfi og framhjá ökrunum þar til við fundum stað til að leggja bílnum við árbakkann. Vinalegur ungur maður bauð okkur far á litla bátnum sínum og áður en ég vissi af vorum við komin út að eyju í miðri ánni þar sem búið var að byggja lítinn veitingastað. Með kalda drykki í hönd skáluðum við fyrir batnandi heilsu og nutum þess að horfa saman á sólsetrið.

Stundin þarna var svo góð að þegar ég horfði yfir ánna þá var mér loksins alveg sama um hitann hérna í Níger, það er kannski ekki æskilegt að synda í þessari á en mikið ógurlega er hún falleg. Lífið er gott og það eru mikil forréttindi að fá vera hérna, en mestu forréttindin af öllu er að hafa heilsuna í lagi.

Geir Konráð Theódórsson.

Fleiri aðsendar greinar