Formaður allra sjálfstæðismanna

Jónas Kári og Rakel Rósa skrifa

Það skiptir miklu máli að næsti formaður Sjálfstæðisflokksins verði formaður allra sjálfstæðismanna, hvar sem þeir kjósa að búa og starfa. Hér á landi er lenska að draga stjórnmálafólk í dilka eftir því hvort það kemur frá höfuðborg eða landsbyggð og sumir stjórnmálamenn leggja jafnvel nokkuð upp úr slíkri aðgreiningu.

Þótt áherslur og aðstæður kjósenda séu ólíkar eftir búsetu skiptir miklu máli að stjórnmálamenn, hvaðan sem þeir koma, leggi sig fram við að skilja ólík sjónarmið og áskoranir sem fólk og fyrirtæki um land allt standa frammi fyrir, og mæti þeim á þeirra eigin heimavelli.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er einn fárra stjórnmálamanna sem hefur raunverulega lagt sig fram við að skilja þau viðfangsefni og áskoranir sem fjölskyldufólk og atvinnurekendur á landsbyggðinni glíma við dag hvern.

Í ráðherratíð sinni innleiddi hún ráðuneyti án staðsetningar og um leið gekk hún sjálf fram með góðu fordæmi, starfrækti skrifstofu víða um landið og kynnti sér af alúð málefni atvinnulífs, nýsköpunar og iðnaðar í ólíkum landshlutum. Jafnframt opnaði þessi stefna fjölmörg tækifæri fyrir fólk til að búa og starfa um landið allt.

Skilur mikilvægi öflugs atvinnulífs

Áslaug Arna skilur að tækifæri Íslands liggja í mannauðnum um land allt. Á Vestfjörðum hefur til dæmis byggst upp eitt öflugasta og verðmætasta nýsköpunarfyrirtæki landsins, Kerecis, og á Norðvesturlandi blómstrar matvælaframleiðsla og tengdar greinar. Áslaug hefur látið sig málefni þessara fyrirtækja varða og sýnt mikla viðleitni til að bæta starfsumhverfi þeirra.

Í hinum dreifðu byggðum eru nefnilega öflugt atvinnulíf og fjölskyldustefna sitthvor hliðin á sama peningnum. Sterkt og öflugt atvinnulíf jafngildir þannig tækifærum fyrir ungar fjölskyldur til að setjast að sem og tryggir gott umhverfi – þar sem skólar, heilbrigðisþjónusta og samgönguinnviðir eru traustir.

Að færa flokkinn nær

Áslaug Arna hefur sýnt að hún skilur samhengi þessara þátta. Sem formaður mun hún ekki aðeins styrkja stöðu flokksins sem málsvara öflugs atvinnulífs og nýsköpunar heldur líka færa flokkinn nær fjölskyldum um land allt, sem reiða sig á öflugt atvinnulíf í heimabyggð. Við reyndar trúum því að hún skilji þarfir atvinnulífsins og ungs fólks betur heldur en margur annar og hefur sýnt það ótal oft í verki.

Við höfum fylgst með störfum Áslaugar Örnu undanfarin ár og séð að hún lætur verkin tala. Hún berst fyrir breytingum. Hún gefst ekki upp. Hún er samkvæm sinni eigin sannfæringu og lætur ekki léttilega draga úr sér.

Við erum því sannfærð um að hún verður sá formaður sem sameinar þann kraft sem býr í fólki vítt og dreift um landið, breikkar flokkinn aftur – óháð stétt, kyni eða aldri. Síðast en ekki síst hefur hún sýnt í verki, að hún verði ekki formaður sjálfstæðismanna í einu kjördæmi heldur formaður allra sjálfstæðismanna,  hvar sem er á landinu.

Þess vegna styðjum við Áslaugu Örnu til formanns Sjálfstæðisflokksins.

 

Jónas Kári Eiríksson & Rakel Rósa Þorsteinsdóttir

Höf. er fjölskyldufólk af Vesturlandi