Forgangsverkefni

Guðveig Eyglóardóttir

Í störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður hefur það kristallast hve háð sveitarfélögin á landinu eru ríkinu með ákvarðanir og samþykktir er snúa að þeim brýnu verkefnum sem nauðsynlegt er að ráðast í til að viðhalda nýsköpun og atvinnuþróun á landsvísu.

Mikilvægt er að ráðist verði í það að forgangsraða verkefnum sem snúa að því að bæta innviði kjördæmisins svo skilyrði til búsetu og atvinnuuppbyggingar verði ásættanleg. Tryggja þarf rekstrarumhverfi hefðbundinna greina til framtíðar. Huga verður að þeim atvinnugreinum sem eru í örum vexti. Fjárfest hefur verið í um land allt í ferðaþjónustu. Greinin hefur með sínum fjölbreyttu störfum skapað tækifæri til að tryggja byggð og heilsársbúsetu, bætt lífsgæði og búsetuskilyrði ásamt því að vera virkur þátttakandi í því að byggja undir afþreyingu og framleiðslu sem byggir á varðveislu og viðhaldi menningararfs landssvæða.

Nauðsynlegt er að gera gangskör í að tryggja viðunandi samgöngur, fjarskipti og lagningu 3ja fasa rafmagns. Í allri umræðu um orkuskipti, frekari nýtingu rafbíla, aukið hlutfall endurnýjanlega orkugjafa til verndunar loftlags og umhverfis til framtíðar þarf að huga að aðgengi og tækifæri einstaklinga og fyrirtækja til að fara í breytingar á orkugjöfum. Hvatinn til þátttöku helgast af þeim aðstæðum sem við búum við. Það er því með öllu ótímabært að knýja á frekari skattheimtu vegna notkunar olíu fyrr en rafmagnsmál landsbyggðarinnar verði færð til nútímans.

Sú staðreynd hefur blasað við í tugi ára að einfasa rafmagn er aðeins í boði á sumum svæðum. Þau bú sem aðeins hafa einfasa rafmagn skipta enn hundruðum. Síðust ár hefur réttilega verið lögð áhersla á lagningu ljósleiðara. Því hefur öll umræðunnar um þriggja fasa rafmagn fengið minni áheyrn. Skortur á 3ja fasa rafmagni stendur nýsköpun og atvinnuþróun fyrir þrifum í því að styrkja byggð í landinu.

Dýrara er að dreifa orku í dreifbýli. Virðisaukaskattur er lagður ofaná orkuverð og flutning. Það er því augljóst að þeir sem greiða hæsta verðið leggja fleiri krónur í ríkissjóð.

Það er sanngirniskrafa að forgangsverk í byggðastefnu samtímans verði skilvirkari uppbygging ljósleiðara, 3ja fasa rafmagns og vegsamgangna á landsbyggðinni. Það mun styðja við vöxt og viðgang atvinnu og búsetu á landsbyggðinni.

Undirrituð er hótelstjóri og BA í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og óskar eftir að taka 3. – 5. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 28. október 2017. Fyrst og fremst hef ég áhuga á að nýta krafta mína til að vinna að framgangi stefnumála með Framsóknarflokknum í þágu kjördæmisins og landsins alls.

 

Guðveig Eyglóardóttir.

Höf. er oddviti Framsóknarmanna í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar