Forgangsraðað í þágu velferðar

Elsa Lára og fleiri

Meirihluti bæjarstjórnar Akraness, Samfylkingin og Framsókn og frjálsir lögðu fram eftirfarandi bókun við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar áranna 2022 – 2024. Bókun meirihlutans er eftirfarandi:

„Fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar er sterk en vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldurs kórónuveiru þarf að gæta aðhalds í rekstri. Áhrif heimsfaraldurs eru þannig til komin að tekjur Akraneskaupstaðar standa í stað vegna þess að atvinnuleysi hefur aukist og framlag frá Jöfnunarsjóði er minna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Gjöld hafa hækkað umfram tekjur, m.a. vegna kjarasamninga og aukningar í þjónustu á velferðar- og mannréttindasviði.

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 182 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð samtals um 141 milljón króna.

Á undanförnum árum hefur náðst góður árangur í rekstri bæjarins sem gaf bæjarfulltrúum möguleika á að fara í aðgerðir til viðspyrnu til að svara kalli atvinnulífs og íbúa með því að vernda heimili, fyrirtæki og félagasamtök fyrir mestu skakkaföllum. Samstaða var um það meðal allra bæjarfulltrúa um að fara í þessar aðgerðir þó það myndi þýða lakari rekstrarafkomu um tíma.

Áhrif heimsfaraldurs kórónaveru hefur ekki eingöngu haft efnahagsleg áhrif heldur einnig samfélagsleg. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram er viðbragð við mjög sérstöku ástandi þar sem fulltrúar meirihlutans setja sér skýr markmið um að standa vörð um grunnþjónustu í okkar góða samfélagi og mæta því álagi sem hefur orðið vegna aukinnar þjónustu í barnavernd og í félagsþjónustu á árinu.

Ábyrg fjármálastjórn gefur okkur svigrúm til að halda áfram þeirri stórsókn sem verið hefur í uppbyggingu innviða hér á Akranesi með það að markmiði að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Á þessu ári var Fimleikahúsið við Vesturgötu tekið í notkun, framkvæmdir hófust á skólalóð Brekkubæjarskóla, vinnuhópur settur af stað um hönnun á nýjum leikskóla, starfshópur settur af stað um lokahönnun íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum, lokahönd lögð á íbúðakjarna við Beykiskóga og íbúar hafa flutt inn, fyrstu lóðir á Sementsreitnum auglýstar til úthlutunar, framkvæmdir fóru af stað í Flóahverfi og breytingar á aðalskipulagi vegna þriðja áfanga Skógahverfis afgreiddar úr bæjarstjórn. Auk þessa var samþykkt að veita stofnframlög til uppbyggingar á íbúðum til að auka enn frekar húsnæðisöryggi íbúa.

Vegna styrkrar fjármálastjórnar á þessu kjörtímabili og á undanförnum kjörtímabilum, þá eru meiri- og minnihluti bæjarstjórnar sammála um að halda áfram þeirri stórfelldu uppbyggingu sem hefur verið í fjárfestingum og framkvæmdum á undanförnum árum. Þannig sýnir bæjarstjórnin öll að hún stendur áfram með fyrirtækjum og heimilum í samfélaginu þó að það þýði lakari afkomu um tíma og kalli á lántöku.

Í fjárhagsáætlun ársins 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 birtist áfram skýr framtíðarsýn bæjarstjórnar. Uppbygging Þjónustumiðstöðvar við Dalbraut mun klárast, framkvæmdir við nýjan leikskóla munu hefjast, lokahönnun á Jaðarsbökkum mun klárast og framkvæmdir fara í gang. Framkvæmdir við uppbyggingu Fjöliðjunnar munu fara af stað, uppbygging mun halda áfram á Dalbrautarreit sem mun auka enn frekar húsnæðisöryggi íbúa. Gatnagerð í Skógarhverfi þriðja áfanga mun fara af stað, framkvæmdir halda áfram við skólalóð Brekkubæjarskóla og hefjast við skólalóð Grundaskóla.

Bæjarfulltrúar meirihlutans þakka bæjarfulltrúum minnihlutans fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum fyrir fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar ársins 2021 og þriggja ára áætlunar 2022 – 2024.

Jafnframt þakka þau bæjarstjóra, endurskoðanda og embættismönnum bæjarins fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag fyrir fyrstu umræðu.“

 

Elsa Lára Arnardóttir

Valgarður Lyngdal Jónsson

Ragnar Baldvin Sæmundsson

Bára Daðadóttir

Kristinn Hallur Sveinsson

Höf. skipa meirihluta í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar.

Fleiri aðsendar greinar