Forðumst myglu og raka

Stefán Skafti Steinólfsson

Byggjum Svansvottaðar byggingar fyrir komandi kynslóðir og okkur.

Við Akurnesingar þurfum að stuðla að því að allar byggingar á vegum bæjarins verði byggðar með Svansvottun. Nú ríður mygla og raki húsum svo vægt sé til orða tekið. Og á eftir að koma miklu betur í ljós hvað byggingarhraði og val á efnum hefur mikil áhrif á líf bæjarbúa í nútíð og framtíð. Ég vil sérstaklega benda á þetta í sambandi við væntanlega leikskólabyggingu og nýbyggingu við Jaðarsbakka.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og mjög er litið til þess á heimsvísu. Lífsferilsnálgun er notuð í viðmiðaþróun Svansins og eru Svansvottaðar byggingar metnar út frá þeim þáttum sem eru viðamestir:

  • Strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru
  • Tryggja góða innivist með góðri loftræstingu og hljóðvist
  • Byggingin sé með hagkvæma orkunotkun með áherslu á orkusparnað
  • Tryggja gæðastjórnun í byggingarferlinu
  • Gerð rekstrar- og viðhaldsáætlunar fyrir líftíma byggingarinnar.

Nú kunna einhverjir að segja að þetta sé miklu dýrara í byggingu. Það kann að vera í upphafi, en sé litið til allrar framtíðar er þetta margfalt ódýrari kostur og ekki síst í heilsu allra sem dvelja og starfa í húsnæðinu. Horfa þarf að lágmarki til 100 ára.

 

Stefán Skafti Steinólfsson

Höf. er íbúi á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar