Fögnum saman 100 ára fullveldi

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir

Í ár fögnum við því að liðin eru 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Segja má að það hafi verið merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni, sem þá hafði staðið í nær eina öld.

Í október 2016 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um hvernig skyldi staðið að hátíðarhöldum í tilefni aldarafmælis fullveldis og í henni kemur fram hlutverk afmælisnefndar og afmörkun verkefna hennar. Inntak þingsályktunarinnar byggir á sömu forsendum og sjálfstæðisbaráttan gerði, þ.e. íslenskri menningu og tungu þjóðarinnar.

Verkefni afmælisnefndar

Í þingsályktuninni er afmælisnefnd falið að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna, og komu þær út sl. sumar. Einnig var afmælisnefnd falið að gefa út tvö rit um aðdraganda sambandslaganna, efni þeirra og framkvæmd, svo og rit um inntak fullveldisréttar í samstarfi við Sögufélagið.

Bækurnar eru: Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918 sem Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur ritaði og greinasafnið Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918–2018 í ritstjórn Guðmundar Jónssonar.

Eitt stærsta einstaka verkefni afmælisnefndar samkvæmt áðurnefndri þingsályktun var að efna til sýningar í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á helstu handritum stofnunarinnar. Sýningin Lífsblómið – fullveldi Íslands í 100 ár var opnuð 18. júlí sl. í Listasafni Íslands. Hún er samstarfsverkefni Árnastofnunar, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands. Sýningin fjallar um fullveldi Íslands, forsendur þess og meginþætti í sjálfstæðisbaráttu og sjálfsmynd Íslendinga frá árinu 1918 til dagsins í dag. Þar eru sýnd í fyrsta skipti á Íslandi tvö af helstu miðaldahandritum Íslendinga sem fengin eru að láni frá Danmörku: Reykjabók Njálu og Ormsbók Snorra-Eddu. Sýningin  stendur til 16. desember nk.

Afmælisnefnd var einnig falið að hvetja skóla til þess að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918. Á vefsíðu afmælisnefndar er að finna fræðsluefni um þetta merka tímabil í sögu þjóðarinnar sem getur nýst öllum skólastigum og auk þess ýmsar greinar og fróðleik fyrir almenning.

Dagskrá afmælisársins

Auk þeirra verkefna sem tilgreind eru í þingsályktun heldur afmælisnefnd utan um heildardagskrá afmælisársins. Strax í upphafi tók nefndin þá ákvörðun að leita til stofnana, félaga og einstaklinga við mótun dagskrár afmælisársins og stór hluti fjármagns afmælisnefndar var nýttur til að styðja við verkefni um land allt. Lögð var áhersla á vönduð og fjölbreytt verkefni sem hafa skírskotun til tilefnisins, hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Hvatt var m.a. til verkefna sem fela í sér nýsköpun, samstarf og almenna þátttöku og lögð áhersla á að ná til barna og ungs fólks. Óhætt er að segja að landsmenn hafi brugðist vel við og barst afmælisnefnd fjöldi tillagna. Um 100 tillögur hlutu styrk, en alls eru á dagskrá afmælisársins um 390 viðburðir sem tengjast flestum sviðum samfélagsins um land allt.

Afmælisnefnd hvatti einnig ýmis samtök, fyrirtæki og stofnanir til þátttöku í afmælisárinu og hafa ýmsir aðilar gert afmælisárinu skil, hver á sinn hátt.

Jákvæðar undirtektir fólksins í landinu, sem og þátttaka ýmissa stofnana, félagasamtaka og fyrirtækja í atvinnulífinu, eru forsenda þess að markmiði afmælisnefndar um að fagna öll saman 100 ára fullveldi Íslands sé náð.

Fullveldisdagurinn 1. desember

Ríkisstjórn Íslands stendur fyrir fullveldishátíð 1. desember í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Hátíðarhöldin eru mótuð í samvinnu við ungt fólk og taka mið af hugðarefnum þess og hugmyndum um framtíð fullveldisins. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur hátíðina kl. 13 við Stjórnarráðshúsið að viðstöddum forseta Íslands, Danadrottningu og forsætisráðherra Dana. Flutt verða stutt ávörp og tónlistaratriði, auk þess sem Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni.

Að setningu lokinni munu helstu menningarstofnanir þjóðarinnar bjóða upp á fjölbreytta dagskrá. Um er að ræða sýningar, samræður, spuna, söng og sögur af öllu tagi, sögur sem ungt fólk tekur þátt í að velja, semja og útsetja. Horft verður fram á veginn til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu.

Að kvöldi fullveldisdagsins verður hátíðarsýningin Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun í Eldborg í Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands mun, ásamt fjölbreyttum hópi listamanna, spinna sinfónískan sagnavef ásamt kórunum Schola cantorum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Sigurlagið í kórlagasamkeppni afmælisnefndar, „Landið mitt” eftir Jóhann G. Jóhannsson, verður frumflutt og einnig nýtt verk eftir Báru Gísladóttur. Þá verður flutt ný útgáfa af Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur við texta Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Listrænn stjórnandi er Arnbjörg María Danielsen.

Auk hátíðardagskrár ríkisstjórnarinnar verða fjölbreyttir viðburðir um land allt.

Fullveldisafmælinu fagnað á Vesturlandi

Fjölmargir viðburðir hafa farið fram á Vesturlandi það sem af er afmælisárinu og hafa þeir verið vel sóttir. Á Vesturlandi verður fullveldisdeginum 1. desember fagnað á fjölbreyttan hátt. Í Grunnskólanum í Stykkishólmi verður sýning á verkefnum nemenda þar sem borin eru saman árin 1918 og 2018 og í Grunnskóla Grundarfjarðar verður opið hús og sýning á verkum nemenda.  Nemendafélag Háskólans á Bifröst og Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands sameinast undir yfirskriftinni Við erum lykillinn að… Þar verða nemendur Landbúnaðarháskólans með atriði sem tengja landbúnað, framtíð hans og mikilvægi, við fullveldið. Nemendur á Bifröst munu nálgast fullveldið á annan hátt, því að þau munu fjalla um það í samhengi stjórnmála og lýðræðis og mikilvægi þess að viðhalda því. Atriðin verða í formi ræðuhalda, sýninga á afrakstri vinnu innan skólanna og myndasýninga. Viðburðurinn verður í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Í Byggðasafninu í Görðum á Akranesi verður hátíðarsýning á heimildamynd um útileiki barna 1918-2018 sem Byggðasafnið hefur unnið að í samvinnu við kvikmyndagerðarmanninn Heiðar Mar. Í Reykholti í Borgarfirði verða hátíðartónleikar þar sem fram koma Trio Danois, sem eru Jónína Erna Arnardóttir, Morten Fagerli og Pernille Kaarslev ásamt Bergþóri Pálssyni söngvara.

Einkunnarár afmælisársins eru: Fögnum saman 100 ára fullveldi!

Það er von afmælisnefndar að sem flestir njóti afmælisársins og eftir sitji góðar minningar og aukin vitund um þetta mikilvæga tímabil í sögu þjóðarinnar, sögu sem markast af sjálfstæðisbaráttu og framförum.

Afmælisnefnd færir öllum þeim sem lagt hafa sitt af mörkum til að gera afmælisárið eftirminnilegt bestu þakkir fyrir þeirra framlag og ánægjulegt samstarf.

Fjölbreytt dagskrá fullveldisdagsins er aðgengileg á vefsíðunni www.fullveldi1918.is og á Facebook-síðunni Fullveldi Íslands.

 

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.

Höf. er framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis fullveldis Íslands.

Fleiri aðsendar greinar