
Flýtum framkvæmdum
Steinar Berg Ísleifsson
Það hefur legið lengi fyrir að tengja Vesturland og Suðurland með bundnu slitlagi en ferlið hefur einkennst af ómarkvissu ákvarðatökuferli og töfum, töfum og töfum. Það er flestum ljóst sem setja sig inn í afleiðingar þessarar vegalagningar að hún þjónar miklu hlutverki í uppbyggingu og atvinnumöguleikum á Vesturlandi. Auk þess að vera jákvæð samgöngubót fyrir íbúa og fyrirtæki beggja vegna, opnar bundið slitlag milli Vesturlands og Suðurlands á frábæra möguleika nýrrar hugsunar í ferðaþjónustu.

Svarta strikið er fyrir þann stutta kafla sem ólokið er að setja á bundið slitlag, á Uxahryggjaleið.
Hægt verður að skipuleggja ferðir þar sem komist er yfir fleiri áfangastaði með miklu minni akstri en nú er í boði. Með þessari breytingu er jafnlangt á bundnu slitlagi frá Reykjavík og Borgarfirði (gatnamót 52/50) að Gullfossi og Geysi, og ferðin úr Borgarfirði er meira spennandi akstursleið. Þá situr eftir afar sjálfbær ferðamáti sem gefur fólki einstaka upplifun og fjölbreytta möguleika á þjónustuþáttum svo sem gisti- veitinga- og afþreyingarmöguleikum sem spyrðist saman frá uppsveitum Suðurlands alla leið út á Snæfellsnes. Hugmyndin er hins vegar ónýt í dag af því að versti kafli leiðarinnar hefur í mörg ár verið skilinn eftir sem þvottabrettis slóð sem lokar leiðinni átta mánuði á ári. Svarta strikið eyðileggur heildarhugmyndina. Uxahryggjaleið með bundnu slitlagi stuðlar að dreifingu ferðamanna og eykur umferðaröryggi. Þá er líklegt þegar nýr valkostur skapast að álag minnki á fyrirliggjandi vegakerfi. Í því ljósi hlýtur að vera skynsamlegt að slá öðrum Hvalfjarðar göngum á frest þar til reynsla er komin á nýtingu Uxahryggjaleiðar í nokkur ár.
Nú vill svo til að Vegagerðin hefur lagt fram fullunnin gögn til lúkningar á Uxahryggjarvegi og þar með tengingu Vestur- og Suðurlands. Málið er nú í umsagnarferli og opið fyrir athugasemdir til 27.3. næstkomandi. Þessu ber að fagna. Samt er einn sá hængur enn á þessu máli sem verið hefur fylgifiskur þess í áratugi. Töf, töf og töf. Það á ekki að hefjast handa fyrr en eftir tíu ár, 2034.
Eftir hrun lagði þáverandi ríkisstjórn í vegferð til að hlusta hvað íbúum einstakra svæða fyndist mikilvægast til atvinnuuppbyggingar og ætti að njóta forgangs. Á íbúafundi í Hjálmakletti í Borgarnesi kom fram skýr áhersla á að fullnaðargerð Uxahryggjavegar skyldi vera fyrsti forgangur. Síðan hefur þessi vegagerð verið inni á samgönguáætlun en verið frestað aftur og aftur.
Miklar breytingar hafa átt sér stað á aðstæðum og umhverfi eins og t.d. gríðarleg aukning ferðamanna auk þess að hvorki hópferðabílar né hópferðabílstjórar eru ekki lengur gerðir fyrir malarvegi. Jafnframt er gríðarleg aukning í notkun bílaleigubíla. Öll þróun undanfarinna ára hreinlega öskrar á að eyðingu svarta striksins sé flýtt en ekki seinkað. Meiri búbót er ekki hægt að færa íbúum Vesturlands sem hnípnir hafa þurft að horfa á frestun og skerðingar á vegaframkvæmdum undanfarin ár þar sem 90% af fjárveitingum til kjördæmisins hefur farið til Vestfjarða. Það er kominn tími til að reisa höfuðið og krefja þingmenn okkar um aðrar áherslur. Því úrslitin ráðast á Alþingi.
Þá vil ég og hvetja forráðamenn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Markaðsstofu Vesturlands til þess að beita sér fyrir því að lúkningu Uxahryggjavegar og tengingu Vestur- og Suðurlands verði flýtt um a.m.k. 8 ár, byrjað verði 2026. Sambandið hefur margoft samþykkt þessa vegagerð og hvatt til fullnustu hennar auk þess sem verkefnastjóri áfangasviðs SSV, Kristján Guðmundsson, skrifaði útskriftarritgerð og gerði úttekt á kostum vegalagningarinnar á þeim tíma sem íbúar samþykktu hana sem fyrsta forgang. Upplýsingar eru því fyrirliggjandi. Nú er um að gera að hugsa stórt, leggjast á eitt og hnika tímasetningu framkvæmdanna um leið og glaðst er yfir að Uxahryggjaleið er að taka á sig framkvæmdarmynd hjá Vegagerðinni.
Steinar Berg í Fossatúni