Flétta?

Guðsteinn Einarsson

Þann 23. september síðastliðinn gaf Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála út þann úrskurð að umdeildt deiliskipulag lóðanna Borgarbraut 55-59 í Borgarnesi væri ekki í samræmi við aðalskipulag Borgarbyggðar og felldi það úr gildi.

Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með viðbrögðum Umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar og sviðstjóra umhverfis- og skipulagssvið sem og byggðaráðs. Ítrekað er í fundargerðum vitnað til þess að Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagið.  Nokkuð augljóst er að með þessari skírskotun eru þessir ofangreindir aðilar að fyrra sig ábyrgð á stöðunni, hlaupa frá eigin ábyrgð á skipulagsmálum bæjarfélagsins og koma henni yfir á aðra.

Síðan á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 3. október er gamla deiliskipulagið fyrir Borgarbraut 57-59 dregið fram og veitt byggingarleyfi fyrir „nýju“ hóteli skv. teikningum sem dagsettar eru samdægurs.  Þannig er hægt að halda áfram framkvæmdum, ekkert stopp.  Þetta er nokkuð vel að verki staðið því yfirleitt er nokkuð meira mál að breyta verkfræðihönnun og öðrum slíkum tækniatriðum en svo að það sé gert á dagsparti.

Á fundi Umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefndar þann 5. október sl. er síðan framhald fléttunnar, höfð eru endaskifti á hlutunum og nú á að breyta aðalskipulaginu þannig að það samræmist nýógiltu deiliskipulagi.  Líklega á að gera þetta án viðeigandi umfjöllunar og kynningar, skilgreina þessar breytingar á aðalskipulaginu sem minniháttar og sleppa þannig við leiðinda umræðu og kynningu á málinu.

Rétt er að hafa í huga að aðalskipulag sveitarfélaga á að vera langtímasýn á landnotkun en deiliskipulag á síðan að taka mið af því. Það að breyta aðalskipulagi þannig að það samræmist deiliskipulagi er vægast sagt vafasöm aðgerð.

Gæti framhaldið átt að vera að endurnýta deiliskipulagið sem búið var að ógilda og byrja allt upp á nýtt?

 

Borgarnesi, 11. október 2016

Guðsteinn Einarsson.

Fleiri aðsendar greinar