Flækjustig kosninga

Sigrún Hjartardóttir

Í ljósi sveitarstjórnakosninga hér á landi í vor, og hvernig mörgum okkar þykir flækjustigið orðið vegna fjölda framboða og frambjóðenda, hver er hvað og fyrir hvað þeir standa, þá langar mig að deila með ykkur yfirliti sem ég sá nýlega vegna ríkiskosninga í Utter Pradesh, stærsta ríkis af fimm innan Indlands. Tölurnar sem ég vísa til eru úr The Economist.

Í Utter Pradesh eru 150 milljónir skráðra kjósenda. Fjöldi kjörstaða eru 174.354.  Þúsundir frambjóðenda og yfir hundrað stjórnmálaflokkar eru í framboði. Fyrir utan ráðandi flokk BJP, stærsta flokks Indlands, eru til dæmis kommúnistar með framboð, en ekki bara einn kommúnistaflokkur er í boði heldur eru þeir þrír; Marxistar, Marxist-Lenínistar og svo „almennir“ kommúnistar. Í Utter Pradesh eru sjö kosningaumferðir sem taka um það bil mánaðartíma. Það góða er að þetta eru lýðræðislegar kosningar, en lýðræðið í þessu tilfelli speglar ekki endilega heilbrigði. Mjög mikið er um ójafnræði á milli stétta og trúarbragða. Um 19% af kjósendum í Utter Pradesh eru Múslimar en fáir þora að tala þeirra máli, yfirgangur Hindúa er slíkur, en BJP flokkurinn hefur verið sekur um mikla Múslima-fordóma og mikla Hindú-þjóðernishyggju.

Svo kemur að því að velja fólk og flokka í stjórn. Þá er athyglisvert hvað kemur í ljós þegar bakgrunnur stjórnmálamanna er kannaður. Ef dæma má af þeim stjórnmálamönnum sem nú þegar eru í stjórn Indlands þá hafa 43% þeirra sem nú sitja verið fundnir sekir um glæpi, þar af 29% um alvarlega glæpi svo sem nauðgun. Og eru þeir duglegir að mæta á þingið og fórna þeir sér fyrir skjólstæðinga sína? Ríkisráð Uttar Pradesh var vant að koma saman allavega í þrjá mánuði á ári fyrir 40-50 árum síðan. Á síðasta ári voru það sautján dagar og í þessa sautján daga var illa mætt af kjörnum þingmönnum.

Þannig að ef við setjum hlutina í þetta samhengi við veruleikann sem við búum við hér á landi, þá eru okkar kosningar ekki svo ýkja flóknar. Við reynum að útiloka karlrembur og eiginhagsmunaseggi. En ég held að þvert yfir vilji þeir sem bjóða sig fram vinna af heilindum og gera samfélagið okkar betra fyrir alla.

 

Sigrún Hjartardóttir, Hátúni í Borgarfirði