Fjórtán rafvirkjar ljúka námi frá FVA

Trausti Gylfason

Í ágúst 2023 voru mættir rúmlega 70 nemendur við rafiðnaðardeildina í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Öll þrjú árin í rafvirkjun eru kennd við deildina og má segja að jafndreifing hafi verið á milli áranna.

Fimm rafiðnaðarkennarar kenndu sl. vetur en þeir eru í stafrófsröð: Davíð Reynir Steingrímsson, Guðmundur Þór Þorsteinsson, Sævar Berg Sigurðsson, Trausti Gylfason (deildarstjóri) og Viktor Ýmir Elísson. Allir hafa þeir kennsluréttindi eða eru að ljúka réttindanámi.

Úr kennslustund í FVA.

 

Kennt er eftir námskrá menntamálaráðuneytisins eins og lög gera ráð fyrir. Á haustönn voru kenndar 1., 3., 5. og 7. önn í rafvirkjun en það var í síðasta sinn sem rafvirkjun er kennd á sjö önnum við FVA. Námskrá hefur verið breytt, námsgreinar sameinaðar, bætt við í áfanga þannig að rafvirkjunarnámið komist fyrir á þremur árum, sex önnum. Segja má að þetta hafi verið tvíþætt verkefni, að stytta námið en einnig var vandkvæðum bundið að manna kennslu sjöundu önnina þar sem erfitt er að finna rafiðnaðarkenna til að stökkva inn í eina önn til að klára þetta. Á vorönn voru kenndar 2., 4. og 6. önn.

Reynt er að brjóta upp eins og kostur er hina hefðbundnu kennslu, t.d. með heimsóknum til nemenda úr atvinnulífinu og eins fara eldri nemendur í vettvangsferðir í fyrirtækin í nágrenninu. Rafmennt, sem er í eigu Rafiðnaðarsambandsins gefur alltaf nýnemum í grunndeildinni vinnubuxur sem nýtast vel í verklegum áföngum og eins í vinnunni þegar lengra er komið.

Heimsókn frá Mannvirkjastofnun er árleg en þá kemur aðili frá þeim og ræðir við nemendur fjórðu annar um reglugerðir tengdar rafiðnaði. Eins eru öryggismál rafiðnaðarmanna tengd við reglugerðirnar en Pétur Svanbergsson hefur komið og kennt nemendum ýmislegt er tengist fallvörnum á vinnustöðum.

Á haustönn var farið með 5. og 7. önn í vettvangsferð í álverið í Straumsvík og eins var ferðin nýtt til að líta einnig á tengivirki Landsnets að Geithálsi. Í báðum þessum fyrirtækjum var afskaplega vel tekið á móti nemendum og þeir fræddir um fyrirtækin. Tilgangur ferðar í þessi tvö fyrirtæki var að kynnast dreifingu háspennu frá virkjunum og eins stórnotenda í áliðnaðinum.

Á vorönn fóru nemendur í heimsókn til RARIK í Borgarnesi. Eins og áður þá var tekið vel á móti nemendum, þeim skipt upp í hópa en starfsmenn RARIK höfðu stillt upp búnaði fyrir bæði háspennu og lágspennu sem nemendur fengu að kynna sér og skilja virkni búnaðarins. Sérstök ánægja var meðal nemenda með þessa heimsókn og ekki sakar að nefna og þakka gestrisni RARIK.

Á vorönn fóru tveir kennarar rafiðnaðardeildarinnar í heimsókn til verknámsskólans BBS II í Gifhorn, EuropaShoule sem staðsettur er í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Tilgangur ferðarinnar var að koma á tengslum við góðan verknámsskóla erlendis fyrir áframhaldandi þróun rafiðnaðardeildar FVA, nemendum, kennurum og stofnuninni til góðs. Þróun er ein af lífsnauðsynlegum þáttum deildarinnar til að gera nemendur hæfari í síbreytilegu umhverfi atvinnulífsins. Yfirskrift ferðarinnar var endurnýjanleg orka. Má segja að þarna hafi verið opnaður kanall fyrir frekara samstarfs og nemendaskipti.

Útskriftarnemar í rafvirkjun þann 24. maí 2024 eru 14 talsins. Ungmenni sem leita sér náms hjá rafiðnaðardeild FVA verða mikilvægur hluti af framtíð íslensku  þjóðarinnar.

 

Gjört á Akranesi 23. maí 2024,

Trausti Gylfason

 

Í heimsókn hjá Landsneti.