
Fjölskylduvænt samfélag í Borgarbyggð
Brynja Þorsteinsdóttir
Borgarbyggð er fjölskylduvænt samfélag sem við í Vinstri grænum viljum efla enn frekar. Til að geta talist fjölskylduvænt samfélag er ýmislegt sem þarf að vera til staðar, meðal annars greiður aðgangur að leik- og grunnskólum sem og fjölbreyttri tómstundaiðkun.
Við eigum fjölbreyttar skólastofnanir á öllum skólastigum sem við teljum mikilvægt að standa við bakið á og styrkja. Við viljum að ákvarðanir sem þær varða þær séu teknar að vel ígrunduðu máli og í samráði við fagaðila og þjónustunotendur.
Þá er mikilvægt að viðhaldi og endurbótum á húsnæði sé sinnt. Skipað hefur verið í bygginganefnd um áframhaldandi uppbyggingu skólahúsnæðis Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og mikilvægt er að vel sé haldið á spöðunum svo unnt sé að hefja þar framkvæmdir sem fyrst, enda er skólinn í óviðunandi húsnæði eins og staðan er.
Einnig hefur verið skipað í bygginganefnd um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarnesi sem einnig er brýnt að hefja sem fyrst svo það eru stór verkefni framundan sem þegar hefur verið lagður grunnur að.
Þessi tvö stóru verkefni eru þó ekki einu verkefnin sem framundan eru, því einnig þarf að hefja undirbúningsvinnu vegna stækkunar leikskóla í Borgarnesi. Fyrir ári síðan var opnuð ný deild við leikskólann Ugluklett vegna skorts á leikskólaplássi. Það voru settar upp færanlegar kennslustofur sem bráðabirgðalausn á þessum vanda. Við þurfum að gæta þess að sú lausn verði ekki til langs tíma, enda er aðstaðan alls ekki viðunandi sem langtímalausn. Einnig eru líkur á því að biðlistar verði aftur veruleiki á leikskóla í Borgarnesi strax næsta vetur svo það er ekki eftir neinu að bíða með að hefja þetta ferli.
Vinstri græn leggja áherslu á að þessum grunnstoðum samfélagsins sé sinnt. Þannig tryggjum við fjölskylduvænt samfélag og að öll sitji við sama borð.
Brynja Þorsteinsdóttir
Höfundur er í 2. sæti á lista Vinstri grænna í Borgarbyggð.