Fjölskyldubönd

Valgarð S Halldórsson

Eina fjölskyldu þekki ég sem sjaldan er nefnd nema einu nafni og samnefnarinn nær yfir allan heila hópinn. Þau eru fimm systkinin, sem eru eftir og eins og vant er um systkini hafa þau vaxið og dafnað hvert á sinn háttinn og samnefnarinn hefur orðið sterkari eftir því sem árunum fjölgar. Styrkurinn felst í því að þau þekkja styrkleika og veikleika hvers og eins ótrúlega vel og með árunum hafa þau aukið samganginn sín á milli og auðgað hvert annað með nándinni. Út á við þekkja orðið fáir muninn þegar einn fer og annar kemur. Hvert og eitt þessara systkina býr við sín sérkenni, ekkert þeirra er eins – en saman mynda þau órjúfanlega heild.

Ég á þá ósk til þessarar fjölskyldu að hún standi áfram sterk og fái notið þess sem áorkað hefur verið. Mér er kunnugt um hug einstaka manna til að reyna að skilja þessi systkini í sundur en ég hef líka orðið þess áskynja að hugmyndir eru uppi, meðal systkinanna, að þau flytji öll í sama húsnæðið.

Hvatning mín og von mín er; að þau flytji saman og verði þekkt undir sínu rétta nafni. Systkinin heita, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur og hafa um langan tíma átt samheitið SNÆFELLSNES.

Íbúar á Snæfellsnesi!  Tökum höndum saman og þrýstum á sveitarstjórnarmennina hjá okkur um að taka upp samtal sín á milli. Innsiglum fjölskylduböndin og flytjum saman!

 

Valgarð S. Halldórsson

Gröf, Eyja- og Miklaholtshreppi, 342 Stykkishólmur

GSM: 897-8550

E-mail: vsh@fjarhald.is