Fjölskyldubærinn Akranes

Bára Daðadóttir

Á Akranesi er gott að búa. Þegar við hjónin áttum von á okkar öðru barni ákváðum við að flytja upp á Akranes og var megin ástæðan fyrir því að þar væri gott að ala upp börn og ég vissi af eigin reynslu að þar væri gott að alast upp. Við höfðum aftur á móti ekki tekið með í reikninginn að þar sem dóttir okkar var fædd í apríl gætum við lent í vandræðum með að komast aftur í nám og vinnu að loknu fæðingarorlofi. En við vorum heppin og vegna liðlegheita okkar yndislegu dagforeldra komum við dóttur okkar að á miðjum vetri. Þegar börn koma inn á miðjum vetri þurfa dagforeldrar að geyma plássin og fá ekki greitt fyrr en barnið er komið. Það hljómar undarlega að segja að við höfum verið heppin að fá pláss og hvað þá pláss á miðjum vetri en allir foreldrar sem hafa verið í þessari stöðu skilja hvað ég á við. Það að eitt helsta áhyggjuefni foreldra sem tengist barneignum að fá dagvistunarpláss að loknu fæðingarorlofi, en slíkt er alls ekki í lagi. Við í Samfylkingunni viljum tryggja að börn fái dagvistunarpláss að loknu fæðingarorlofi og við viljum hækka mótframlag til foreldra vegna vistunar hjá dagforeldrum frá 9 mánaða aldri. Við viljum einnig leggja áherslu á að dagvistunarúrræði sem taka við að loknu fæðingarorlofi verði fyrirsjáanlegri, bæði fyrir foreldra og þá sem starfa í dagvistunarmálum barna.

 

Leik- og grunnskólar

Á Akranesi höfum við framúrskarandi leik- og grunnskóla sem við getum verið stolt af. Það er því mikilvægt að horfa til framtíðar og búa til skýra aðgerðarstefnu sem snýr að því að standa vörð um þetta frábæra starf.

Við viljum bæta starfsumhverfi í leikskólum og minnka áreiti og álag bæði á börn og starfsfólk. Það getum við m.a. gert með því að auka rými barna og starfsfólks á leikskólum og með heildarúttekt á húsnæði og starfsaðstæðum í leikskólum. Íbúum á Akranesi fjölgar og Samfylkingin á Akranesi ætlar að tryggja leikskólavist frá 18 mánaða aldri. Því er mikilvægt að horfa til framtíðar og hefja strax hönnun og undirbúning á nýjum leikskóla með ungbarnadeild og tilheyrandi aðstöðu.

 

Tónlistarskólinn

Við í Samfylkingunni á Akranesi viljum hlúa enn betur að góðu samstarfi grunnskólanna og tónlistarskólans með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi tónlistaruppeldis. Eins viljum við að að börn geti stundað tónlistarnám óháð efnahag.

 

Frístundastarf

Vel skipulagt íþrótta- og tómstundastarf er mikilvæg samfélagsleg auðlind á Akranesi. Í frístundastarfi gefast spennandi tækifæri til að vinna með félagsfærni og sjálfsmynd barna, virkja skapandi hugsun þeirra, líkamlegt atgervi, seiglu og sjálfstæði. Eins er mikilvægt að minnast á að þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi hefur mikið forvarnagildi. Á Akranesi er gríðarlega gott og öflugt íþrótta- og tómstundastarf sem við megum vera stolt af. Þetta eins og annað er ekki sjálfgefið og því leggjum við áherslu á mikilvægi þess að vera í virkri samvinnu við alla sem að starfinu standa. Við viljum hækka tómstundaframlag til að tryggja að öll börn geti tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi við hæfi og að öll börn hafi aðgang að frístundastarfi, óháð efnahag og uppruna.

Mörg börn fara í frístundaheimilin þegar skóla lýkur á daginn og þar er unnið mjög gott starf. Við í Samfylkingunni á Akranesi viljum auka sjálfstæði frístundaheimila fyrir yngstu bekki grunnskólans og styðja við uppbyggingu á öflugu og faglegu frístundastarfi á þeim vettvangi. Við viljum tryggja frístundaheimilum góða aðstöðu og mæta gæðaviðmiðum um starfsemi þeirra.

Sem fyrrum starfsmaður félagsmiðstöðvar og auðvitað unglingur veit ég hve mikilvægt það er að styðja við það góða starf sem unnið er í Arnardal og Hvíta húsinu. Það að unglingar taki virkan þátt í skipulögðu félagsmiðstöðvarstarfi hefur mikið forvarnargildi en félagsmiðstöðvar eru byggðar upp á menntunar- og forvarnargildum.

Góður stuðningur við börn og unglinga mun skila sér margfalt út í samfélagið.

 

Bára Daðadóttir

Höfundur skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.