Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa
Guðveig Anna Eyglóardóttir
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að aðstaða fyrir alla aldurhópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er. Því teljum við tímabært að hafist verði handa við það að hanna og skipuleggja stækkun og endurbætur á íþróttahúsinu okkar í Borgarnesi.
Á næstu áratugum mun öldruðum fjölga umfram aðra aldurshópa. Við þessu verðum við að vera undirbúin. Aldraðir verða að hafa kost á því að hátta lífi sínu eftir heilsu og getu á þeim stað sem þeir kjósa. Fólk þarf að geta búið sem lengst á sínum heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldir er við góða heilsu og virkir lykilþátttakendur í samfélaginu. Það hefur blasað við lengi að staða öldrunar- og hjúkrunarheimila í landinu er ekki ásættanleg. Viðvarandi og vaxandi skortur er um land allt á rýmum. Eitt af brýnustu verkefnum okkar sveitarstjórnarfulltrúa er að tryggja í samstarfi við ríkið framtíðar uppbyggingu og rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila í landinu. Framsóknarflokkurinn hefur þegar lýst yfir áhyggjum af sérstækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og vonir bundnar við áform félags- og jafnréttismálaráðherra um áætlanir til að bregðast við því með uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýn.
Nauðsynlegt er að áherslan varðandi málefni aldraðra snúi ekki aðeins að því að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, þessum hópi verður að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífgæði. Í janúar s.l. tók til starfa stýrihópur á vegum sveitarfélagsins sem hafði það að markmiði að endurskoða stefnumótun í þjónustu við þennan hóp. Fulltrúar frá eldriborgararáði og báðum félögum eldriborgara í Borgarbyggð hafa starfað í þessum hóp. Niðurstaða þessarar vinnu er mikilvægt gagn fyrir okkur sem störfum í sveitarstjórn að vinna með og hafa að leiðarljósi.
Góð aðstaða til heilsueflingar félags- og tómstunda fyrir alla aldurshópa mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins.
Guðveig Anna Eyglóardóttir
Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar