Fjölnota íþróttahús á besta stað?

Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms

Nýverið hafa birst greinar í Skessuhorni og færslur á samfélagsmiðlum þar sem gerðar eru ýmsar athugasemdir við fyrirhugaða byggingu fjölnota íþróttahúss á íþróttasvæðinu í Borgarnesi og sjá sumir hverjir fátt jákvætt við þá framkvæmd.

Vissulega er fjölnota íþróttahús stór bygging enda á það að rúma hálfan fótboltavöll, hlaupabraut og aðra aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir.  Þrátt fyrir stærð þá eru hús sem þessi alla jafnan byggð á íþróttasvæðum sveitarfélaga enda er það stór kostur að hafa íþróttahús, sundlaug, íþróttavöll og fjölnota hús á sama svæðinu.  Þá er það líka kostur að íþróttamannvirkin séu í nágrenni við grunnskóla þannig að stutt sé að fara á milli staða og auðvelt að ganga á milli. Þessi nálægð skapar líka tækifæri til þess að samnýta búningsklefa, ýmiskonar aðstöðu, búnað og jafnvel starfsfólk.  Þá er ljóst að húsið mun auka líkur á því að hægt verði að halda ýmsa íþróttaviðburði í Borgarnesi eins og unglingalandsmót UMFÍ og fjölnota hús verður líka kærkomin viðbót fyrir nemendur Menntaskóla Borgarfjarðar sem hafa búið við þrönga kost þegar kemur að íþróttaiðkun.

Frá því að sveitarstjórn Borgarbyggðar skipaði vinnuhóp árið 2019 um uppbyggingu íþróttamannvirkja þá hefur Knattspyrnudeild Skallagríms alla tíð talað fyrir byggingu fjölnota íþróttahúss á íþróttasvæðinu í Borgarnesi.  Það er mat okkar að sú lausn komi lang best til móts við þarfir þeirra sem stunda fótbolta og skapi tækifæri til þess að fjölga verulega börnum og ungmennum sem æfa íþróttir í Borgarbyggð.  Við erum því algerlega ósammála þeim aðilum sem á samfélagsmiðlum og í Skessuhorni hafa haldið því fram að fjölnota íþróttahús eigi að reisa í jaðri bæjarins eða á iðnaðarsvæði við Vallarás.

Við drögum ekki í efa að fjölnota íþróttahús hefur áhrif á ásýnd íþróttasvæðisins.  Það hins vegar eykur möguleika á stunda heilsueflingu á svæðinu en dregur ekki úr henni og við getum heldur ekki séð að það dragi úr tækifærum til útivistar og sú umferð sem leyfð verður að húsinu verður óveruleg.  Enda segir í greinargerð skipulagstillögunnar; „Megin göngustígar  skulu nýtast sem þjónustustígar bæði til viðhalds og fyrir viðbragðsaðila. Auk þess verður leyfilegt að nýta aðalgöngustíg að knatthúsinu til að flytja hreyfihamlaða að knatthúsinu og tryggja með því aðgengi fyrir alla.“

Fjölnota íþróttahús eitt og sér kallar ekki á breytingar á bílastæðum við íþróttasvæðið.  Hafa verður í huga að í deiliskipulagstillögunni fyrir íþróttasvæðið í Borgarnesi er líka verið að sýna stækkun á lóð íþróttahússins.  Þar sést glöggt að stækkun lóðarinnar nær yfir núverandi bílastæði austan við íþróttahúsið.  Það kallar á stækkun bílastæða og verður til þess að körfuboltavelli er fundinn ný staðsetning og núverandi velli breytt í bílastæði.

Um það verður ekki deilt að bygging hússins mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir þau tæplega 200 börn og ungmenni sem æfa fótbolta og frjálsar íþróttir í Borgarbyggð, auk þess að skapa ný tækifæri til heilsueflingar fyrir unga sem eldri. Í huga okkar hjá Knattspyrnudeild Skallagríms þá er enginn vafi á því að fyrirhugað hús er á réttum stað.

 

Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms