Fjöliðjan og ný samfélagsmiðstöð

Bæjarfulltrúar á Akranesi

Þann 14. desember 2021 samþykkti bæjarstjórn Akraness einróma áætlun um uppbyggingu samfélagsmiðstöðvar að Dalbraut 8. Þessi ákvörðun kom í kjölfarið á deilum og ósætti í bæjarstjórn um hvernig uppbyggingu Fjöliðjunnar skyldi háttað eftir brunann sem þar varð þann 7. maí 2019 og varð til þess að starfsemin þurfti að flytja tímabundið í annað húsnæði.

Þörf Fjöliðjunnar á lausn í húsnæðismálum var og er mikil og bæjarfulltrúar voru ekki á eitt sáttir um hvaða leið var rétt að fara. Leitað var leiðsagnar margra aðila um hvernig verkefnum og húsnæðismálum Fjöliðju framtíðar væri best fyrir komið. Sú vinna færði bæjarfulltrúa nær endanlegri ákvörðun um húsnæðismál og uppbyggingu Fjöliðjunnar.

Hlutirnir gerðust hins vegar hratt í desember og í meðförum bæjarstjórnar í lok vinnu við fjárhagsáætlun víkkaði hugmyndin um uppbygginguna og ákveðið var að hugsa stærra og til lengri tíma. Bæjarstjórn bar sú gæfa að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem allir bæjarfulltrúar eru ánægðir með og stoltir af.

Samfélagsmiðstöðin að Dalbraut 8 mun hýsa Fjöliðjuna, Frístundamiðstöðina Þorpið og þá starfsemi sem þar hefur verið, Arnardal og Hvíta húsið og Endurhæfingarhúsið Hver.

Þessar þrjár einingar munu hver hafa sinn sérhluta í húsinu en með því að hafa þær undir sama þaki er hægt að samnýta ótal rými yfir daginn og hægt að hafa þau veglegri en ella. Það er bara undir þeim starfshópum sem taka við hugmyndinni komið hvað er hægt að gera. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Samhliða samfélagsmiðstöð er hægt að byggja upp þjónustu og tækifæri til frístundastarfs fyrir hinn almenna borgara. Byggja upp miðstöð sem endurspeglar og fagnar margbreytileikanum í samfélaginu, starfar í anda samfélags án aðgreiningar í víðum skilningi og eykur möguleika íbúa á fjölbreytni í tengslamyndun og samfélagslegri þátttöku. Hugmyndin að samfélagsmiðstöð er ekki sett fram sem sparnaðar hugmynd eða til hagræðingar. Vissulega getur bærinn boðið tveimur starfsstöðvum sem ekki eru í ákjósanlegu húsnæði upp á úrvals aðstöðu mun fyrr en ella. Við vitum að líklega mun starfsemi Fjöliðjunnar kosta meira í nýju húsnæði en teljum þeim fjármunum vel varið.

Ný Fjöliðja býður upp á ótal tækifæri

Starfsemi Fjöliðjunnar er í dag á allt að fimm stöðum. Það er vegna þess að þegar Fjöliðjan missti húsnæði sitt þá var starfsemin þegar búin að sprengja húsnæðið utan af sér. Fjöliðjan mun eftir uppbyggingu verða staðsett á tveimur stöðum, í glæsilegri samfélagsmiðstöð að Dalbraut 8 og nýju húsi að Kalmansvöllum 5 ásamt áhaldahúsi Akraneskaupstaðar. Þangað munu endurvinnsla dósamóttöku og Búkolla flytjast og byggjast upp líflegur vinnustaður þar sem bæjarbúar eiga erindi með drykkjarumbúðir til endurvinnslu og hluti til endurnýtingar og endursölu. Möguleikarnir eru margir.

Mikil umræða er í samfélaginu um atvinnumál fatlaðra. Það er mikilvægt að fatlað fólk hafi fjölbreytt tækifæri til atvinnu, geti uppfyllt drauma sína og stundað innihaldsrík og gefandi störf. Vaxandi krafa er um að atvinnulífið taki betur á móti fötluðum. Þar getur Akraneskaupstaður einnig staðið sig betur og aukið þátttöku sína. Tækifærin þurfa að vera fjölbreytt og þjónustan þarf að fylgja þegar fatlað fólk tekur skrefin út í atvinnulífið, þróttur fólks er mismikill og ekki er hægt að gera ráð fyrir að allir séu allan daginn í vinnu. Því er nauðsynlegt að hafa hjarta í þjónustunni að Dalbraut 8 þar sem hægt er að stunda vinnu með vernd og fá stuðning.

Fjöliðjan er eitt af framsæknustu vinnuúrræðum sem til eru á landinu í dag og án efa eru margir sem gjarnan vildu hafa slíka starfsemi í sínu sveitarfélagi. Hér er boðið upp á fjölbreytta starfsemi með fjölbreyttum verkefnum fyrir fjölbreyttan hóp fólks, starfið er einstaklingsmiðað eins og kostur er. Atvinnufulltrúi er á staðnum sem vinnur gott og mikilvægt starf í því að finna atvinnutækifæri á almennum vinnumarkaði og gera vinnusamninga við fyrirtæki og stofnanir. Þessi þáttur starfsins, þ.e. atvinnuþátttaka fatlaðra einstaklinga í almennu atvinnulífi, mun vonandi fara vaxandi til framtíðar og óhjákvæmilega leiða til breytinga á hlutverki og starfsemi Fjöliðjunnar en það gerir hana ekki óþarfa. Við munum áfram hafa þörf fyrir þennan vinnu- og hæfingarstað til að tryggja sem besta þjónustu við fatlaða einstaklinga í samspili við þátttöku þeirra á almennum vinnumarkaði. Það er von okkar að þegar starfsemin verður komin í nýtt húsnæði að Dalbraut 8 og Kalmansvöllum 5 þá eigi Akurnesingar ekki bara frábæra Fjöliðju áfram heldur verði hún líka áfram drifkrafturinn í atvinnumálum fatlaðra á Akranesi.

 

Bára Daðadóttir, bæjarfulltrúi

Einar Brandsson, bæjarfulltrúi

Elsa Lára Arnardóttir, bæjarfulltrúi

Kristinn Hallur Sveinsson, bæjarfulltrúi

Ólafur Adolfsson, bæjarfullrúi

Ragnar B. Sæmundsson, bæjarfulltrúi

Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi

Sandra Margrét Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi

Valgarður Lyngdal Jónsson, bæjarfulltrúi