Fjöliðjan í 40 ár
Haraldur Benediktsson
Nú eru liðin um 40 ár frá því að opnaður var vinnustaður á Akranesi, sem hafði að markmiði að skapa atvinnu fyrir þau sem hafa skerta starfsgetu. Í dag er vinnustaðurinn undir merki Fjöliðjunnar og fæst starfsfólk hennar við fjölbreytt og mikilvæg verkefni. Ég held að mörgum komi á óvart hve fjölbreytileiki verkefna er mikill.
Þjónusta og framleiðsla Fjöliðjunnar er löngu orðin samofin atvinnulífi á Akranesi og mikilvæg fyrir samfélagið. Mörg fyrirtæki treysta á þjónustu Fjöliðjunnar og stöðugt er leitað leiða til að auka fjölbreytni.
Það var um 1982 sem markvisst var byrjað að vinna að því að opna vinnustað sem gæti skapað atvinnutækifæri sem væru jöfnun höndum verðmætaskapandi og gæti boðið þann sveigjanleika sem gæti hentað sem flestum. Það var svo um 1984 sem starfsemin hófst og hefur allar götur síðan verið óslitið starfandi.
Það er áhugavert núna, réttum 40 árum síðar, að skoða þann undirbúning sem var unninn í aðdraganda þess að starfsemin hófst. Mikið starf atvinnunefndar Akraneskaupstaðar undirbjó starfsemina og lengi var leitað að heppilegri framleiðsluvöru. Um nokkurn tíma var endurvinnsla úr pappa og framleiðsla á vörum úr pappakurli, talin vera sú framleiðsla sem gæti hentað. En af þeirri framleiðslu varð þó ekki.
Í raun er áhugavert að skoða þessi fyrstu skref núna, þar sem þekking og viðurkenning á verðmætasköpun í hringrásar hugsun var þungamiðja. Allar götur síðan hafa einmitt verkefni og starfsemi á sviði endurvinnslu verið fyrirferðar mikið í starfsemi Fjöliðjunnar. Löngu áður en almennt var litið á endurvinnslu sem þungamiðju í að draga úr sóun og auka verðmæti þess sem áður var úrgangur.
Við getum í dag séð hvernig Búkolla hefur skapað sér sess í að koma hlutum í áframhaldandi notkun. Akurnesingar og fólk víða að kemur um langan veg til að versla og njóta þjónustu Búkollu. Búkolla er frábært dæmi um hvernig hringrásar hugsun verðmæta er raungerð.
Framleiðsla á ljósaseríum var samt fyrsta stóra verkefnið og smám saman hafa fleiri vörur og þjónusta orðið að verkefni Fjöliðjunnar. Í vaxandi mæli leituðu fyrirtæki til Fjöliðjunnar til að sinna margskonar verkefnum í pökkun og frágangi vöru. Starfsmenn Fjöliðjunnar eru því mikilvægur hlekkur í verðmætasköpun. Starfsmenn og stjórnendur Fjöliðjunnar hafa verið vakandi fyrir verkefnum og náð að skapa kjölfestu í atvinnulífi, sem mikilvægur þáttur í að skapa aðstæður fyrir atvinnuþátttöku þeirra sem þar starfa.
Fjöliðjan er samfélag og Fjöliðjan er ekki síður staður sem eflir fólk til þátttöku í samfélagi okkar allra. Starfsemin hefur á 40 árum eflst og tekið breytingum. Rétt eins og atvinnulífið gerir. Fjöliðjan mun áfram gegna mikilægu hlutverki um leið og fjölbreyttari leiðir til hæfingar og þjálfunar munu verða mikilvæg verkefni á hverjum tíma.
Það er sannarlega ástæða til að óska starfsfólki Fjöliðjunnar til hamingju með 40 ára starfsemi um leið og við þökkum þeirra þjónustu og mikilvægt framlag til að gera mannlífið á Akranesi betra.
Í tilefni tímamótanna, 40 ára starfsafmælis Fjöliðjunnar, verður opið hús að Smiðjuvöllum 28, föstudaginn 4. október nk. kl. 13 til 15 og eru allir velkomnir.
Haraldur Benediktsson
Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar