Fjöliðja til framtíðar

Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn Akraness

Í síðustu viku birtist grein í Skessuhorni eftir bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Í henni draga bæjarfulltrúarnir upp mjög neikvæða mynd af væntanlegri uppbyggingu Fjöliðjunnar á Akranesi, mynd þar sem hljóð og mynd fara einfaldlega ekki saman.

Eins og fram kemur í greininni var það mikið áfall þegar Fjöliðjan brann en með mikilli vinnu tókst að tryggja að lágmarks röskun yrði á starfseminni. Fjöliðjan tók, nokkrum vikum eftir brunann, til starfa í öðru húsnæði sem hugsað var til bráðabirgða. Það húsnæði hentar nokkuð vel undir vinnuhluta starfseminnar, en síður undir þann hluta sem snýr að hæfingu. Þar vantar mikið upp á.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda réttilega á að starfshópurinn hafi verið skipaður eftir að ákvörðun lá fyrir í bæjarstjórn um að byggt skyldi upp að nýju við Dalbraut 10, þ.e. á fyrri stað. Hlutverk starfshópsins var skýrt, hópurinn skyldi skila af sér mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu á núverandi stað. Þeirra hlutverk var ekki að hlutast til um skipulagsmál líkt og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðast halda, sbr. meðfylgjandi beinu tilvitnanir í greinina:

„Segja má að mikill hvalreki hafi rekið á fjörur starfshópsins í vinnuferlinu þegar samningar náðust á milli Akraneskaupstaðar og N1 um framtíðarlóð undir starfsemi fyrirtækisins.“

„Þegar starfshópurinn skilaði sviðsmyndum sínum á dögunum urðu það okkur Sjálfstæðisfólki talsverð vonbrigði hversu lítt hópurinn virðist hafa farið yfir þessar breyttu forsendur á svæðinu. Ef það hefur ekki verið hlutverk þessa starfshóps þá klárlega verkefni kjörinna fulltrúa.“

Eins og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins er vel kunnugt höfðu samningaviðræður við Festi hf (N1) staðið yfir frá því í ágúst 2019 þó ekki hafi verið skrifað undir samninga fyrir en ári síðar eða í ágúst 2020.

Á fundi bæjarráðs þann 8. april 2020 voru málefni Fjöliðjunnar rædd. Sjá bókun:

„Bæjarráð felur bæjarstjóra að skipa vinnuhóp embættismanna um verkefnið. Tillögur vinnuhópsins verði lagðar fyrir skipulags- og umhverfisráð, velferðar- og mannréttindaráð og bæjarráð. Markmiðið er að vinnuhópurinn skili af sér mögulegum sviðsmyndum um uppbyggingu starfsemi Fjöliðjunnar á núverandi stað við Dalbraut 10. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn skili af sér tillögum eigi síðar en 15. júní næstkomandi.“

Þarna höfðu viðræður við Festi hf. staðið yfir í átta mánuði og því hefði verið eðlilegt að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði hefði á þessum fundi opinberað þá skoðun minnihlutans að taka ætti allan reitinn fyrir en ekki bara lóðina að Dalbraut 10. Með þessa vitneskju verður það að teljast furðuleg framsetning að tala um „hvalreka“ fyrir starfshópinn. Hans hlutverk var öllum ljóst frá upphafi. Beiðni frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks um að allur N1 reiturinn yrði tekin með í vinnu starfshópsins, kom ekki fram fyrr en á lokametrum vinnunnar sem sætir furðu í ljósi þess að fulltrúar flokksins sitja í öllum ráðum sem komu að samskiptum og vinnu við starfshópinn frá upphafi.

Því skal þó haldið til haga að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir því að núverandi húsnæði yrði rifið. Það breytir þó engu varðandi lóðina sjálfa, staðsetningu hennar eða stærð.

Þá er fleira sem vekur furðu í grein Sjálfstæðismanna:

„Skyndilega skapaðist rými til þess að hýsa ýmsa tengda starfsemi Fjöliðjunnar eins og dósamóttöku og Búkollu nytjamarkaðs“.

Erfitt er að lesa út úr þessum skrifum Sjálfstæðismanna, hvort þarna sé verið að leggja til að byggt verði sérstaklega yfir dósamóttökuna eða hvort umræddir bæjarfulltrúar hafi hreinlega ekki farið yfir teikningarnar. Séu teikningarnar skoðaðar má einmitt sjá að gert er ráð fyrir stærri og betri dósamóttöku auk þess sem sá búnaður sem við íbúar, notendur þjónustunnar þekkjum í dag mun heyra sögunni til. Hvað Búkollu varðar, þá hefur hugmyndin um að gert verði ráð fyrir starfseminni í húsnæðinu að Dalbraut verið rædd. Hinsvegar, eins og fram kemur í skýrslu starfshópsins, eftir samtöl við starfsmenn, aðstandendur sem og leiðbeinendur, var ákveðið að falla frá þeim hugmyndum að blanda þessum starfstöðvum meira saman en gert er í dag. Það útilokar þó ekki þann möguleika að í framtíðinni muni starfsemi Búkollu byggjast upp á þessum reit.

Akraneskaupstaður tók yfir húsnæði Fjöliðjunnar af Framkvæmdasjóði fatlaðra árið 2011 eftir að þjónusta við fatlaða einstaklinga var flutt frá ríkinu til sveitarfélaga. Áður en að þessu kom, eða árið 2007, hafði farið fram greiningarvinna sem unnin var af nefnd sem skipuð var af starfsmönnum framkvæmdasjóðsins á framtíðarþörfum Fjöliðjunar. Í framhaldi af þeirri vinnu var farið í endurbætur á núverandi húsnæði og hönnun á viðbyggingu. Verkið var í framhaldinu boðið út en því miður bárust engin tilboð. Efnahagshrunið á haustmánuðum 2008 gerði það svo að verkum að ekkert varð úr verkefninu. Þegar starfshópur um uppbyggingu Fjöliðjunnar hóf störf fyrr á þessu ári, var farið í það að rýna fyrri hönnun. Þrátt fyrir að nokkuð sé liðið frá því að hún kom fram, kom í ljós að hún samræmist nær öllum þeim markmiðum sem stefnt er að.  Eftir viðræður við félagsmálaráðherra fékk hópurinn afhent öll hönnunar- og útboðsgögn frá þeirri vinnu sem fram fór árið 2007. Lauslega má áætla að þarna hafi sparast um sextíu milljónir króna. Að sjálfsögðu er það svo að margt hefur breyst í kröfum til aðbúnaðar og aðstöðu frá 2007 en ytri ramminn er sá sami. Vinna við hönnun á innra skipulagi til samræmis við kröfur nútímans er að fara af stað.

Í grein sinni tala fulltrúar Sjálfstæðisflokks um brunarústir.

Húsnæðið fór vissulega illa í bruna eins og þekkt er. Samkvæmt tjónamati urðu mestar skemmdir á þaki en jafnframt töluverðar sótskemmdir. Húsið er úr forsteyptum einingum og urðu þær ekki fyrir skemmdum. Skömmu fyrir brunann var gerð ástandsskoðun á húsnæði Fjöliðjunnar vegna hugsanlegra rakaskemmda. Niðurstaða þeirrar skoðunar var á þá leið að ráðast þyrfti í aðgerðir, en helstu merki um rakaskemmdir fundust í þaki. Það er ljóst að endurbætur húsnæðisins munu m.a. fela í sér nýtt þak, hreinsun og uppbyggingu með það að markmiði að koma í veg fyrir tjón af völdum raka, hvort heldur sem er á húsnæði eða fólki.

Í grein sinni minnast fulltrúar Sjálfstæðisflokks aðeins á umsögn notendaráðs um málefni fatlaðra á Akranesi, en umsögn þeirra var á þá leið að skoða ætti betur þá möguleika sem fælust í breytingu á byggingarreit. Það gæti þýtt töf í allt að 8-12 mánuði að bíða þess að skipulagsferli á reitnum ljúki. Það er skoðun meirihlutans að við þá töf verið ekki unað. Notendur þjónustunnar og starfsfólk Fjöliðjunnar eiga að geta treyst því að við bæjarfulltrúar höfum þarfir Fjöliðjunnar að leiðarljósi við skipulagsvinnu á reitnum. Í fyrrnefndri grein bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks er ekki einu orði nefnd umsögn leiðbeinenda, aðstandenda eða starfsmanna Fjöliðjunnar.

Í lokaskýrslu starfshóps um uppbyggingu Fjöliðjunnar kemur fram að tryggja þurfi andrými í kringum starfsemina. Meirihlutinn getur tekið undir það og er kaupstaðurinn einmitt í þeirri vænlegu stöðu, eins og hér að framan greinir, að geta aðlagað skipulag á nálægum byggingarreitum að starfsemi Fjöliðjunnar og þeirri vinnu sem þar fer fram.

Meirihlutinn hefur kappkostað að nálgast þetta verkefni af metnaði og fagmennsku og treysta þeim sérfræðingum sem valdir voru til þess að skipa starfshópinn. Hópurinn samanstendur af starfsmönnum kaupstaðarins sem búa allir yfir mikilli þekkingu á málefninu. Umræðan um Fjöliðju framtíðarinnar má ekki eingöngu snúast um húsnæðið og hvort það verði byggt svona eða hinsegin, við höfum sérfræðinga til þess að leiðbeina okkur í rétta átt hvað það varðar. Umræðan ætti miklu frekar að snúast um það hvað við sem samfélag erum tilbúin að gera fyrir þá einstaklinga sem þjónustuna nota og þar starfa. Hlutverk okkar bæjarfulltrúa er ekki að horfa eingöngu til starfseminnar innan veggja Fjöliðjunnar og tækifæranna þar, þó svo að það sé vissulega stór þáttur. Við eigum einnig að horfa til þess og stuðla að því að fleiri og fjölbreyttari tækifæri verið sköpuð á vinnumarkaði fyrir þennan hóp samfélagsins.

Fjöliðja framtíðarinnar á það inni hjá okkur.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Ragnar Sæmundsson

Valgarður Lyngdal Jónsson

Bára Daðadóttir

Kristinn Hallur Sveinsson

Höfundar skipa meirihlutann í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar.

 

Fleiri aðsendar greinar