Fjölgun valkosta í húsnæðismálum á Akranesi

Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir

Valkostum í húsnæðismálum Skagamanna fjölgar með tilkomu nýbygginga á vegum íbúðafélagsins Bjargs. Í þeim 33 íbúðum sem Bjarg er að hefja byggingu á eru átta íbúðir sem Akraneskaupstaður hefur til ráðstöfunar til að leysa úr húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998.  Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði af ýmsum orsökum skv. 1. mgr. 45 gr. laga um félagslega þjónustu 40/1991. Hægt er að sækja um íbúðirnar í þjónustuveri Akraneskaupstaðar og nánari upplýsingar má fá hjá starfsfólki velferðarsviðs. Þessa dagana er Akraneskaupstaður einnig í viðræðum við Húsbyggingasjóð Þroskahjálpar um samstarf um uppbyggingu á leiguhúsnæði fyrir fólk með fötlun á Akranesi. Mikilvægt er að á Akranesi sé fjölbreytt húsnæði í boði sem mætir ólíkum þörfum fólks og mismunandi greiðslugetu þess. Við erum öll ólík og hvernig sem stakkur hvers er sniðinn þá er heimilið kjölfestan í lífi hvers manns. Vegferð okkar í húsnæðismálum er því rétt að hefjast því betur má ef duga skal.

 

Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir.

Höf. er formaður velferðar- og mannréttindaráðs.