Fjöldamorð Ísraela á Gasa!

Guðsteinn Einarsson

Varla verður lengur um það deilt að Ísraelsmenn, undir forystu Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vinna að því að útrýma Palestínumönnum á Gasa. Tugþúsundir Palestínumanna, þeirra á meðal börn og konur, hafa verið drepin. Sjúkrahús, skólar og íbúðarhúsnæði sprengt og ekkert hirt um það hvor þar séu fyrir almennir borgarar. Og nú er verið að svelta þá sem eftir eru, með því að koma í veg fyrir flutninga og dreifingu matvæla inná svæðið. Mannvonskan og mannhatur Ísraelsmanna á sér lítil eða engin takmörk.

Flestir vestrænir þjóðarleiðtogar horfa aðgerðalausir á, tala en gera ekkert, helst að þeir segi eins og kanslari Þyskalands að Ísraelsmenn eigi rétt á að „verja“ sig. Og ekki má gleyma því að Bandaríkjamenn undir dyggri forystu Trumps styðja við fjöldamorðin og þjóðernishreinsarnar með því að leggja til nauðsynlegar sprengjur og önnur vopn.

Íslenskir ráðmenn eru þar dæmigerðir. Þorgerður Katrín utanríksráðherra talar og fordæmir en gerir ekkert sem tekið er eftir. Íslenska ríkið semur við Rapyd um færsluhirðingu, fyrirtækis í eigu Ísraelsmanns sem sagður er styðja útrýmingu Palestínumanna. Með þessum samningum þá styðja Íslendingar líklega þennan hernað á Gasa fjárhagslega, þó með óbeinum hætti sé.

Er ekki komin tími til þess að utanríksráðherra og forsætisráðherra rífi sig upp af afturendanum og geri eitthvað sem tekið yrði eftir, setja viðskiptabann á Ísraels, slíti stjórnmálasamband við Ísrael og lesi yfir sendiherra Bandaríkjanna vegna þeirra þáttar í þessum þjóðernishreinsunum og fjöldamorðum á Palestínumönnum?

Aðgerðaleysið er Íslendingum og öðrum Evrópubúum til skammar!

 

Borgarnesi, 26. júní 2025

Guðsteinn Einarsson