Fjölbreyttur hópur til forystu í Grundarfirði

Unnur Þóra Sigurðardóttir

Í komandi sveitarstjórnarkosningum skipa ég 3. sæti D-listans í Grundarfirði. Fyrir fjórum árum skipaði ég 7. sæti listans og í framhaldi af því fékk ég tækifæri til að starfa í skipulags- og umhverfisnefnd. Það hefur verið mjög lærdómsríkt, gefandi og gaman. Nefndin fjallar um fjölbreytt mál sem öll snúa að uppbyggingu, framkvæmdum og þróun. Í gegnum nefndarstörfin hef ég lært mikið um bæinn og samfélagið okkar.

Ég er þetta týpíska malbiksbarn, ólst upp í Reykjavík, ferðaðist ekki mikið og hvað þá út fyrir þjóðveg 1. Mér finnst æðislegt að búa í Grundarfirði, hér er gott fólk, frábært að ala upp börn og gott mannlíf. Ég er stoltur Grundfirðingur. Hef mikinn metnað fyrir bæinn okkar, þoli ekki þegar mér finnst á okkur vera brotið. Ég er ákveðin, dugleg að fylgja málum eftir og þakklát fyrir tækifæri til þess að vinna að bættum hag þeirra sem hér búa.

Næstu ár eru mikilvæg fyrir Grundarfjörð – það er kominn tími á uppbyggingu. Við þurfum fleira fólk. Grundarfjörður er aðlaðandi búsetukostur og við þurfum að vera duglegri að tala um allt það góða sem hér er. Nýir íbúar og ný fyrirtæki skapa meiri tekjur. Því má ekki gleyma.

Hvað uppbyggingu varðar er af nógu að taka og vil ég þá helst nefna þrjú atriði:

  • Gönguleiðir og gangstéttir til og frá skólunum okkar verða að vera til staðar, þær þurfa að vera í lagi ásamt því að vera öruggar.
  • Skólalóðir þurfa að vera aðlaðandi og sniðnar að þörfum þeirra sem þær nota. Þær þarf að skipuleggja svo hægt sé að forgangsraða og framkvæma í viðráðanlegum áföngum.
  • Húsnæðismálin þarf að taka föstum tökum. Tryggja þarf nægar lóðir og jafnvel leita eftir samvinnu um uppbyggingu á hentugu húsnæði, til kaups eða leigu.

Það er mikilvægt að hugsa um hvernig við gerum hlutina, ekki síður en hvað við gerum. Við á D-listanum ætlum að gera heildstæðar framkvæmdaráætlanir og koma þannig í veg fyrir tvíverknað. Í þeim verkefnum sem háð eru kostnaðarþátttöku ríkis er mikilvægt að halda vel utan um hagsmuni Grundarfjarðar. Það gildir líka um svo margt sem snýr að þjónustu ríkis við okkur á landsbyggðinni.

Ég vil bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin á kosningaskrifstofuna okkar sem er opin öll kvöld vikunnar frá 20 – 22. Kosningakaffi er á kjördag frá 10 – 22 og svo kosningavaka á Bjargarsteini fram eftir kvöldi.

D-listinn er framboð Sjálfstæðismanna og óháðra í Grundarfirði. Með því að kjósa okkur næstkomandi laugardag velur þú fjölbreyttan hóp fólks til forystu í Grundarfirði, drífandi einstaklinga sem allir hafa það sameiginlega markmið að gera gott betra í Grundarfirði – fyrir okkur öll!

 

Unnur Þóra Sigurðardóttir

Höf. skipar 3. sæti á D lista Sjálfstæðisflokks í Grundarfirði

Fleiri aðsendar greinar