Fjölbreyttir búsetukostir í Borgarbyggð

Silja Eyrún Steingrímsdóttir

Hvar viltu búa?

Náttúrufegurðin sem Borgarbyggð hefur upp á að bjóða er einstök. Fallegt samspil kletta, fjalla, sjávar og lands fer ekki framhjá neinum sem hingað kemur og hér eru  margvíslegir búsetukostir í boði. Sumir velja að búa í bæ eins og Borgarnesi með alla helstu þjónustu við höndina en einnig í nánum tengslum og nágrenni við náttúruna og sælureiti eins og til dæmis Skallagrímsgarð, Englendingavík og Einkunnir.

Aðrir kjósa sér búsetu í margrómaðri sveitarómantíkinni umvafnir kyrrð og magnaðri náttúru. Enn aðrir velja sér sitt lítið af hvoru og velja sér þá búsetu í minni þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins eins og á Hvanneyri, á Kleppjárnsreykjum, í Reykholti og á Bifröst. Allir þessir valkostir eru í boði hér í Borgarbyggð og hver getur valið það sem viðkomandi hentar.

 

Fjölbreyttar lóðir í boði

Í Bjargslandi, fyrir ofan Kaupfélag Borgfirðinga og Húsasmiðjuna og í framhaldi af Birki- og Fjólukletti er búið að skipuleggja lóðir fyrir um 100 íbúðir sem ætlaðar eru fyrir sambland af fjölbýlishúsum, parhúsum og einbýlishúsum. Þetta spennandi skipulag er nú í auglýsingaferli og stutt er í að á þessu svæði verði hægt að auglýsa lausar lóðir. Þetta svæði er mjög skemmtilegt og einkennandi fyrir Borgarnes þar sem eru klettar og fallegt útsýni.

Á Hvanneyri í Flatarhverfinu er búið að skipuleggja stórt svæði með stórum og litlum lóðum fyrir einbýlishús, parhús og raðhús. Nú þegar eru ákveðnar götur komnar svo það ætti að vera hægt að byrja strax að byggja á svæðinu.

Þegar skipulagsferli í Bjargslandi lýkur þá á Borgarbyggð skipulögð svæði fyrir hátt í 200 íbúðir í ýmsum útfærslum og því grundvöllur fyrir allnokkra íbúafjölgun.

 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í lóðamálum

Til að auðvelda tilvonandi húsbyggjendum vinnuna þarf að kortleggja betur þær lóðir sem eru í boði í Borgarbyggð nú og á næstu misserum. Vekja þarf athygli á lóðunum og gera þeim skýr skil á heimasíðu sveitarfélagsins, með aðgengilegum upplýsingum um stærð og kostnað vegna gatnagerðargjalda. Einnig þarf framsetning á lóðargjöldum og staðsetningu lóðanna að vera skýr. Leiðbeiningar varðandi umsóknarferlið sjálft og afgreiðslufresti skulu vera upplýsandi og aðgengilegar. Við Sjálfstæðismenn viljum sjá að fleira fólk velji sér Borgarbyggð sem framtíðarbúsetukost. Til þess að sú draumsýn verði að veruleika viljum við gera breytingu á reglum varðandi gatnagerðargjöld, í það minnsta tímabundið, til að hvetja til nýframkvæmda á íbúðarhúsnæði og flýta fyrir að framkvæmdir hefjist. Tilgangur breytinganna er því að  auðvelda hvort tveggja nýjum og  núverandi íbúum að byggja sér heimili. Allt hér ofantalið er liður í þeirri markaðssetningu sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ráðast í Borgarbyggð – í þeim tilgangi að laða til okkar fólk og fyrirtæki.

Möguleikar Borgarbyggðar á að  stækka, eflast og dafna enn frekar eru ótvíræðir, hvort sem fólk velur sér að festa rætur í sveit eða bæ – þeirra er valið.

Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarbyggð – gerum lífið betra!

 

Silja Eyrún Steingrímsdóttir.

Höf. skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð í komandi sveitastjórnarkosningum