Fjármál og framkvæmdir

Guðsteinn Einarsson

Smá athugasemdir við rekstur Borgarbyggðar

Nú nýverið hafa birst greinar í Skessuhorni um rekstur Borgarbyggðar. Ljóst er af lestri þeirra að ekki eru allir sammála um rekstur og stjórnun sveitarfélagsins, eftir því hvorum megin borðs þeir sitja.

Í grein Magnúsar Smára Snorrasonar er farið fögrum orðum um fjármálin og áherslur í rekstri og framkvæmdum. Gera má nokkra athugasemdir við eitt og annað í málflutningi hans.

Það eru tvær breytur sem hafa áhrif á fasteignagjöld. Annarsvegar álagningarprósentan en hinsvegar fasteignamatið. Fasteignagjöld í Borgarbyggð munu hækka á næsta ári. Álagningarprósenta er óbreytt, en fasteignamat húss míns mun hækkar um 4,8% eða 1,2% umfram verðlagsbreytingu þannig að líklega mun fasteignaskattur minn hækka um 4,8% en ekki vera óbreyttur eins og ýjað er að.

Þá má hafa í huga að skv. útreikningum Byggðastofnunar þá voru fasteignatengdir skattar í Borgarbyggð þeir næsthæstu á landinu á nýliðnu ári eða 431.000 krónur á viðmiðunar húsið á meðan landsmeðaltal var 357.000 krónur eða 74.000 krónum lægra en í Borgarbyggð. Það er því augljóst að þarna er þörf á verulegri hagræðingu til hagsbóta fyrir íbúa sveitafélagsins.

Uppbygging á betra skólahúsnæði er í sjálfu sér gott mál, ef eðlilega hefði verið staðið að þeim framkvæmdum. Skv. upplýsingum frá Borgarbyggð þá er staða framkvæmda í desember 2020 ca. þessi:

Eins og ætla má af þessum tölum þá er kostnaður við þessar tvær framkvæmdir kominn 876 milljónir króna, eða 83% fram yfir áætlun. Til þess að gera framvæmdirnar fýsilegri, í augum kjósenda, eða bæjarfulltrúa, þá var ekki gert ráð fyrir í áætlunum atriðum eins og hönnun, framkvæmdum og hönnun lóða, né ófyrirséðum en líklegum aukakostnaði þegar verið er að byggja við og bæta gamalt. Þá var kostnaði við búnað sleppt og eða ekki tekin með við gerð kostnaðaráætlana við framkvæmdirnar. Það er og það var fyrirfram vitað að lítið var að marka þær áætlanir sem ákvörðun um stækkun Grunnskóla Borgarness og Leikskólans á Kleppjárnsreykjum byggðu á!

Rétt væri að láta fara fram sjálfstæða úttekt á þessari áætlanagerð og fyrirkomulagi ákvarðana sem teknar voru sem og að endurskoða framtíðar verklag við gerð framkvæmdaáætlana.

Þá væri rétt að leggja niður byggingarnefndir og láta kjörna fulltrúa og starfsmenn sveitarfélagsins sjá um yfirstjórn og eftirlit með framkvæmdum sem þessum, sem þá bera alfarið ábyrgð á niðurstöðunni.

Og þá um rekstur grunnskólanna í sveitafélaginu.  Á heimasíðu Sambands ísl. sveitafélaga er hægt að nálgast ítarlegar og vonandi réttar upplýsingar um rekstur allra grunnskóla landsins árið 2019 í einni excel töflu.  Þar eru skólar m.a. flokkaðir eftir stærð. Með því að greina þessar upplýsingar lítillega má fá nokkuð góða yfirsýn yfir rekstur grunnskólanna í Borgarbyggð í samanburði við skóla af svipaðri stærð.

Tölurnar segja okkur að Grunnskóli Borgarness er mun hagkvæmari en Grunnskóli Borgarfjarðar. Og þegar skólarnir í Borgarbyggð eru bornir saman við meðalskóla að sambærilegri stærð þá er starfsmannahald og almennur rekstrarkostnaður þeirra beggja talsvert hærri en meðal skóla í sama stærðarflokki. Ef rekstrarkostnaður beggja grunnskólanna í Borgarbyggð væri á landsmeðaltali myndu sparast um 85 milljónir á ári eða 340 milljónir á hverju kjörtímabili.  Ef grunnskólar Borgarbyggðar væru á pari við þá best reknu, í sama stærðarflokki, þá væri árlegur sparnaður liðlega 247 milljónir króna á ári eða 988 milljónir króna á kjörtímabili.  Þegar lesin er fundargerð fræðslunefndar Borgarbyggðar frá 20. ágúst 2020 þá kemur þar fram að árangur nemenda í grunnskólum sveitafélagsins er í fleiri fögum en færri undir landsmeðaltali. Hár rekstrarkostnaður grunnskólana skilar sér því ekki í betri árangri nemenda.

Það virðist vera full ástæða til þess að taka skólakerfið í Borgarbyggð til endurskoðunar, bæði fjárhagslega en ekki síður faglega.

Rekstur Borgarbyggðar, eins og flestra annarra sveitarfélaga, hefur verið jákvæður síðustu árin, ekki vegna hagkvæms rekstrar heldur vegna mikillar hækkunar á framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Árið 2010 var framlag Jöfnunarsjóðs til Borgarbyggðar 534 milljónir króna. Árið 2019 var framlagið komið í 1.128 milljónir króna og hafði meira en tvöfaldast.  Á sama tíma hafði verðlag hækkað um 34%.

Nú þegar harðnar á dalnum krefjast sveitarfélögin að ríkið komi til hjálpar. En það kemur að skuldadögum þar eins og hjá sveitarfélögunum, ríkið þarf að taka lán ef bæta á Jöfnunarsjóði tekjutapið og almenningur mun þurfa að greiða lánið fyrr eða síðar. Það er því mikið heppilegra fyrir almenning að strax verði hagrætt hjá misjafnlega vel reknum sveitarfélögum.  Það gildir líka um rekstur Borgarbyggðar!

Borgarnesi, 3. janúar 2021.

Guðsteinn Einarsson.

 

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar