Fjárhagsáætlun – Fyrri umræða

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Á sveitarstjórnarfundi þann 8. nóvember sl. í Borgarbyggð var fjárhagsheimild fyrir 2019 og fjárhagsáætlun 2020-2022 lögð fram til fyrri umræðu. Þar kemur fram að að rekstrarafgangur vegna ársins 2019 verði 116 milljónir króna (m.kr) fyrir A og B hluta sveitasjóðs. Veltufé frá rekstri í sjóðsstreymisyfirlitinu er ráðgert tæpar 392 m. kr og handbært fé frá rekstri verði 366 m. kr. fyrir 2019.  Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað verulega á síðustu árum. Árið 2019 eru skuldir A hlutans um 170 m. kr ef áætlanir standast mun lækkun skulda halda áfram og verða þær að mestu niðurgreiddar fyrir A hlutann árið 2025 eða um 30 m. kr. Það sem skiptir miklu máli þegar horft er á árið 2019 er að rekstrarafkoman er jákvæð um 116 m. kr þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að fasteignaskattur lækki til muna eða úr 0,45% í 0,40%. Á næstu fjórum árum sem þessi fjárhagsáætlunin tekur til er áætlað að greiða niður skuldir sveitarfélagsins um 1.200 m. kr.

Framkvæmdaáætlunin var lögð fram undir þeim formerkjum að hún muni taka breytingum á milli umræða. Nú hefur samt sem áður myndast ákveðið svigrúm innan sveitarfélagsins til að fara í framkvæmdir og sinna viðhaldi eftir mörg mögur ár í þeim efnum. Með þessu er vonin sú að farið verði í málefnalegar umræður um forgangsröðun þeirra verkefna sem allir flokkar lofuðu í síðustu kosningum. Það er einnig mikilvægt að horft verði lengra fram í tímann með þær framkvæmdir sem vitað er að þarf að setja á dagskrá. Samhliða fjárhagsáætlunargerð er unnið að markmiðssetningu til framtíðar í fjármálum Borgarbyggðar í samstarfi við KPMG.  Sú áætlun er til þess fallin að varpa ljósi á hversu hratt og raunhæft  er að að fara í þær framkvæmdir sem lagðar eru fram í framkvæmdaáætlun auk þess að reka sveitarfélagið svo sómi sé að. Allar áætlanir munu alltaf taka mið af því hvernig efnahagsástandið er hverju sinni.

Til að fjármagna framkvæmdir er nauðsynlegt að ráðast í lántöku. Þá er bæði átt við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og einnig þær sem þegar eru komnar af stað. Gert er ráð fyrir 400 m. kr lántöku árið 2019 miðað við þá framkvæmdaáætlun sem nú liggur fyrir. Umræða hefur verið um hvort hægt verði að hraða framkvæmdum við Grunnskólann í Borgarnesi en komi til þess þarf að gera ráð fyrir meiri lántöku á næsta ári. Skuldastaða sveitarfélagsins er góð en skuldaviðmið þess er 72% og fer batnandi en miðað er við að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum þess. Með 400 m. kr lántöku mun skuldastaðan hækka tímabundið en er vel innan þess ramma sem sveitarfélaginu er fært. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um allar þær brýnu framkvæmdir sem þurfi að ráðast í. Í framkvæmdaáætluninni, sem lögð var fram á síðasta sveitarstjórnarfundi, má sjá helstu kröfur sem fram komu í kosningabaráttunni og hvað þær þýða fyrir fjárhag sveitafélagsins.

Þær framkvæmdir sem meirihlutinn leggur sérstaka áherslu á og verður ekki hnikað eru:

  • Viðbygging og endurbætur við Grunnskólann í Borgarnesi.
  • Koma leikskólanum Hnoðraból í nýtt húsnæði á Kleppjárnsreykjum og gera viðeigandi bætur á húnsæði GBF Kleppjárnreykjadeild svo vel fari um alla.
  • Leggja ljósleiðara um hinar dreifðu byggðir Borgarbyggðar.
  • Nýframkvæmdir í gatnagerð til að hægt verði að fjölga íbúum enn frekar víðsvegar um sveitarfélagið.

Ýmsar aðrar fyrirhugaðar breytingar er einnig teknar inn í þessa vinnu til að mynda þær skipulagsbreytingar sem ákveðið hefur verið að ráðast í og undirrituð fjallaði um í grein minni „Í fréttum er þetta helst – Borgarbyggð“ í síðasta blaði Skessuhorns.

Forsendur þessarar vinnu er að viðhalda árangri í rekstri stofnana sveitarfélagsins sem náðst hefur á undanförnum árum en gæta jafnframt að gæðum þeirra þjónustu sem veitt er.

 

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.

Höf. er formaður byggðarráðs Borgarbyggðar og oddviti VG.