
Fjárfestum í farsælli framtíð
Líf Lárusdóttir
Akraneskaupstaður var fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að innleiða Invest in Play í öllum leikskólum. Sú ákvörðun byggði á rannsóknum, faglegri þekkingu og þeirri einföldu en mikilvægu sýn að snemmtæk fjárfesting í foreldrafærni er ein arðbærasta fjárfesting sem sveitarfélög geta ráðist í.
Tengjumst í leik (Invest in Play) er námskeið fyrir foreldra og forráðamenn barna þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti og samveru foreldra og barna í gegnum leik. Með því myndast góð tengsl milli foreldra og barna og samband þeirra styrkist. Efni og innihald námskeiðsins er byggt á gagnreyndum aðferðum og rannsóknum á alþjóðlegum vettvangi.
Á námskeiðinu er foreldrum kenndar áhrifaríkar aðferðir sem auka sjálfsöryggi í uppeldishlutverkinu, ásamt því að stuðla að bættri núvitund og draga úr streitu, auka sjálfstjórn og skilning á eigin þörfum sem og þörfum barna sinna.
Foreldrar eru mikilvægustu aðilarnir í lífi hvers barns og eru jafnframt oft fyrst til að verða vör við að barn glími við áskoranir – hvort sem þær tengjast hegðun, líðan eða félagslegum samskiptum. Þrátt fyrir það er engin formleg krafa gerð um undirbúning eða þjálfun í foreldrahlutverkinu, þótt það sé eitt stærsta og mikilvægasta verkefni lífsins.
Snemmtæk íhlutun er ekki kostnaður – hún er í raun sparnaður
Í farsældarlöggjöfinni er lögð rík áhersla á snemmtæka íhlutun; að bregðast við áður en vandi verður djúpstæður, kostnaðarsamur og erfiður viðureignar. Þar liggur kjarni málsins.
Rannsóknir sýna að hegðunarerfiðleikar ungra barna geta verið forspá fyrir alvarlegan vanda síðar á lífsleiðinni – allt frá námsörðugleikum til félagslegra vandamála, neyslu og jafnvel afbrotahegðunar. Áhættuþættir á fyrstu fimm æviárum barns geta haft afgerandi áhrif til framtíðar.
Í áhugaverðu erindi Hjördísar Evu Þórðardóttur, sérfræðings í farsæld og réttindum barna á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga síðastliðið haust, fjallaði hún um áætlaða raunávöxtun samfélagslegra fjárfestinga. Hún nefndi sem dæmi Keflavíkurflugvöll með um 5% raunávöxtun og Kárahnjúkavirkjun með um 7%. Til samanburðar er áætlað að Invest in Play skili um 12% raunávöxtun. Einn lykilþáttur er snemmtækur stuðningur við foreldra barna á aldrinum 0–5 ára – þar sem gæði fræðslu, aðgengi og rétt tímasetning er lykill að árangri og arðsemi slíkrar fjárfestingar. Verkefni eins og Tengjumst í leik byggir á sterkum fræðilegum grunni og gagnreyndum aðferðum og styður við foreldra í sínu hlutverki, m.a. með því að byggja upp sjálfstraust og sjálfstjórn foreldra sem er ein helsta stoðin í því að foreldrar geti sjálf veitt snemmtækan stuðning við t.d. málþroska barna sinna og félagsfærni. Þessir þættir vega hátt þegar kemur t.d. að farsælli skólagöngu barna og til þess að mæta öðrum útkomubreytum sem draga úr velsæld.
Reynslan úr okkar sveitarfélagi
Verkefnið hér hófst haustið 2024 eftir að fulltrúar leikskólanna sátu leiðbeinendanámskeið og fengu handleiðslu frá höfundum Invest in Play. Námskeiðin hafa hingað til verið 14 talsins, og tvö til viðbótar eru nú hafin. Foreldrar á tæplega 100 heimilum á Akranesi, eða um 150 barna, hafa þegar sótt námskeiðin. Verkefnið er jafnframt hluti af aðgerðaráætlun Akraneskaupstaðar vegna innleiðingar Barnasáttmálans. Þótt stutt sé síðan við hófum innleiðingu erum við þegar farin að sjá sterkar vísbendingar um að verkefnið sé að skila tilætluðum áhrifum, m.a. inn í önnur þjónustukerfi eins og velferðarþjónustu.
Það er okkar öfluga starfsfólk og stjórnendur leikskólanna sem bera hitann og þungann af verkefninu og hafa sinnt því af einstakri fagmennsku og einlægum áhuga. Innleiðingin okkar hefur vakið athygli bæði á landsvísu og utan landsteinanna en án starfsfólksins og leikskólastjórnenda værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í dag og af þeim er ég virkilega stolt.
Kjörnir fulltrúar um land allt á sveitarstjórnarstiginu standa frammi fyrir sömu áskorunum: auknum þörfum og takmörkuðum fjármunum. Þrátt fyrir þær vísbendingar sem við sjáum nú þegar hér á Akranesi þá er það nú samt þannig að snemmtæk íhlutun skilar sér sjaldnast innan eins kjörtímabils. Með aðgerðum dagsins uppskerum við mögulega ekki ávinning fyrr en í fjarlægri framtíð. Þá reynir sem oft áður á hugrekki okkar, að fjárfesta snemma og markvisst til að styðja við farsæld barna, efla samstarf heimilis og skóla, draga úr þörf fyrir dýrari úrræði síðar meir og byggja upp sterkari samfélög. Spurningin er því að mínu mati ekki hvort við höfum efni á að fjárfesta í snemmtækri íhlutun – heldur hvort við höfum efni á að gera það ekki.
Líf Lárusdóttir
Höf. er formaður bæjarráðs Akraneskaupstaðar og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi