Fjárfestingarbankar – viðskiptabankar?

Guðsteinn Einarsson

Nú þegar Bankasýslan, nefnd hvers forysta er nátengd Sjálfstæðisflokknum, hefur ákveðið að selja Íslandsbanka, þá væri gott fyrir almenning að tækifærið væri notað til að skifta bönkunum upp. Aðskilja fjárfestingarbanka starfsemina frá viðskiptabankastarfseminni, áður en sala fer fram. Þannig myndu hluthafar einir bera ábyrgð á fjárfestingarþættinum og taka skellinn þegar illa gengur.

Hrunið sýndi okkur að það var fjárfestingarstarfsemin sem setti bankana og reyndar líka sparisjóðina á hausinn.

Nú þegar sjá má að braskið er farið að endurtaka sig. Íslandsbanki og Arion banki styðja nú skuldsetta yfirtöku á Skeljungi en aðalgerendur í brallinu eru gamlir kunningjar úr hruninu.  Aðferðin er gamalkunn, kaupa félagið á verði langt undir verðmati, taka lán hjá Arion og Íslandsbanka, selja hluta starfseminar og greiða lánið, kanski bara að hluta. Og þegar þetta tókst ekki í fyrstu atrennu þá kom Stefnir sjóðsfélag Arionbanka til hjálpar og seldi sína hluti í Skeljungi til yfirtökufélagsins á verði sem líklega er vel undir raunvirði hlutabréfanna.

Það er mikil óvissa um verðmæti hluta í Íslandsbanka því verðmæti útlána á tímum Covid er óvissu háð. Því er líklega slæmt að selja nú um stundir, en hagstætt að kaupa, því óvissa lækkar verðið. Allavega ætti að tappa af eigin fé bankans fyrir sölu til þess að takmarka tjón núverandi eigenda.

Það er líklegt að áhugi forystu Sjálfstæðisflokksins á að selja sé sú að tímasetningin henti kaupendum vel, hægt verði að fá Íslandsbanka á hagstæðu verði.

En líklega munu ráðherrar og þingmenn VG og Framsóknar meta ráðherrastólana í nokkra mánuði til viðbótar meira en hagsmuni almennings í landinu.

 

Borgarnesi, 11. janúar 2021

Guðsteinn Einarsson.