Fjárfestingarslys og glötuð tækifæri
Sturlaugur Sturlaugsson
Með fullri virðingu fyrir ráðamönnum Akraneskaupstaðar þá hef ég miklar áhyggjur af fyrirætlunum þeirra varðandi byggingu hótels nánast á miðju íþróttasvæði ÍA eiginlega á miðjum knattspyrnuvellinum. Einnig byggingu sundlaugar við bílastæði íþróttahússins algjörlega úr takti við Langasand og Guðlaugu og alla þá upplifun sem hægt er nýta sér á strandsvæðinu.
Það er ánægjulegt að það skuli vera áhugasamir fjárfestar sem vilja byggja hótel á Jaðarsbakkasvæðinu en það er galið að byggja hótelið á nánast miðjum aðalvellinum okkar. Og ætla að reyna með veikum mætti og óþarfa gæðakostnaði að snúa vellinum með tilheyrandi flækjum svo hægt sé að koma hótelinu fyrir. Það er líka að hægt að finna hótelinu góðan stað víðar á Skaganum.
Uppbyggingin á Jaðarsbakkasvæðinu á að snúast um þjónustu við íþróttahreyfinguna í heild sinni, bæjarbúa og gesti Skagamanna, ekki bara um hótel og snúa Akranesvelli.
Ef það er ætlunin að bjóða uppá hótel á Jaðarsbökkum þá vil ég gjarnan benda á aðra lausn.
Ég hef haft mikla ánægju af því í gegnum áratugina að vinna með íþróttahreyfingunni og m.a. átt samskipti við Akraneskaupstað tengt íþróttahreyfingunni sem yfirleitt hafa verið góð en oft fátækleg hvað stuðning við rekstur og fjármögnun íþróttafélaga ÍA varðar.
Forsendur fyrir tillögunni:
Lágmarka fjárfestinguna svo fjárhagslegt svigrúm sé til að auka gæðin í starfi íþróttanna og æskulýðsstarfsemi á Akranesi.
Möguleg þróun íþrótta- og æskulýðsuppbyggingar á svæðinu á heimsvísu.
Upplifun og þjónusta við Skagamenn og gesti þeirra við Langasand verði sem best.
Möguleg tekjumyndun á svæðinu.
Hugmyndin:
Færa Jaðarsbakkalaug niður á Langasand t.d. sunnan við Akraneshöllina og/eða austan við Akraneshöllina með öllum þeim einstöku tækifærum sem því fylgja tengt aðgengi, þjónustu, upplifun, tengingu við Guðlaugu, Langasand o.s.fv. Það eru endalausar frumlegar sundlaugarlausnir til fyrir sambærilega staðsetningu eins og við Langasand.
Bjóða hótelstaðsetningu í staðinn þar sem gamla íþróttahúsið er og Jaðarsbakkalaug. Það má alveg bjóða hótelinu að kaupa Jaðarsbakkakarið eða útisvæðið fyrir sína hótelgesti. Svo er alveg hægt að hugsa sér tengingu á milli nýja íþróttahússins og útisvæðisins við Jaðarsbakkalaug (núverandi) ef menn vilja halda í eitthvað af þeirri fjárfestingu tengt Akraneskaupstað.
Nýta núverandi grasbakka fyrir áhorfendastúku og byggja yfir þá og finna frumlegar sætislausnir í bökkunum. Af hverju þurfa stúkur að vera úr steypu? Af hverju ekki að reyna að nýta það sem er til? Grasbakkinn okkar er ein fjölskylduvænsta áhorfendastúka landsins. Gamla stúkan á Jaðarsbökkunum við Langasand yrði rifin og svæðið tengt þjónustu við Langasand og tengdist einstöku sundlaugarsvæði og upplifun við Langasand. Auðvelt er að tvinna saman grasbakka stúkuna núverandi, hótelið, þjónustu ýmiskonar og aðgengi almennings m.a. inná völlinn.
Ekkert hótel á Íslandi og þó víðar væri leitað hefði betri aðstæður til að blómstra en við þessar aðstæður. Það er stutt niður á Langasand í frekari þjónustu við hótelgesti. Gleði og keppnisandi íþróttanna, hollustan, fegurðin og jákvæð upplifun flæðir um allt Jaðarsbakka svæðið. Ef núverandi fjárfestir vill ekki kaupa þennan möguleika þá ætti að bjóða öðrum uppá það.
Fullkomnar aðstæður fyrir almenning sem og íþróttahópa á heimsvísu til að „þjálfa“ sig andlega og líkamlega þess vegna út ævina.
Ég ímynda mér að þessi framkvæmd yrði ódýrari og farsælli en núverandi hugmyndir og þar með veita svigrúm til að styðja við félagsstarf íþrótta- og æskulýðs bæjarins.
Ég nýti mér Langasandssvæðið á hverjum morgni við sólarupprás til að efla mig andlega og líkamlega. Samhliða hef ég látið mig dreyma um glæsilega og farsæla uppbyggingu Jaðarsbakkasvæðisins öllum til hagsbóta.
Ég er ekki sá eini sem hef áhyggjur af áformum Akranesbæjar um uppbyggingu á Jaðarsbökkum.
Akranesi 1. september 2024.
Sturlaugur Sturlaugsson
Höf. er forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu og íbúi á Akranesi.