Fiskeldi í sátt við samfélagið og náttúruna

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Fiskeldi er ný og blómstrandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Aðrir landshlutar hafa margra ára jákvæða reynslu af fiskeldi á landi sem hefur skapað mörg störf, bæði fyrir konur og karla, faglærða og ófaglærða. Á Vestfjörðum sunnan Dýrafjarðar er óheillaþróun síðustu ára að snúast við, fólki fjölgar og fær atvinnu við hæfi. Mitt í þessum jákvæðu fregnum berast mótmæli frá þeim sem telja fiskeldi í sjó ógna lífríkinu á óafturkræfan hátt og öðrum sem segja að fiskeldi í sjó takmarki notkunarmöguleika þeirra á hafinu. Það er nauðsynlegt að hlusta á þessar raddir og heyra þeirra rök og reyna að sætta sjónarmið, því hafið er okkar sameiginlega auðlind og hana ber að virða og nýta með sjálfbærum hætti.

 

Eflum fræðin

Árið 2004 var farið í víðtæka aðgerð þar sem drjúgum hluta strandlengjunnar var lokað fyrir sjókvíaeldi á laxfiskum. Þessi aðgerð var varúðarráðstöfun, ætluð til verndar dýrmætum villtum laxastofnum. Þannig var öllum stærstu farvegum villtra laxa hlíft, en í fjarlægðinni felst mikil vernd gegn mögulegri erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa. Þrátt fyrir þetta hafa andstæðingar sjókvíaeldis enn uppi mótmæli og af því tilefni hafa verið nefndar tæknilegar lausnir eins og eldi á landi og notkun geldhrogna. Neðansjávarkvíar hafa verið nefndar sem lausn á sjónmengun sem ferðaþjónustan óttast. Hvernig getum við – almenningur og stjórnmálamenn vitað hvað er mögulegt og hvað er ómögulegt? Eigum við að láta fyrirtækin svara því sjálf og láta gæðavottanir markaðarins sjá um að finna réttu leiðina? Eða eigum við að treysta fagmönnum á sviði náttúruvísinda og fiskeldis til að meta þetta? Vinstri græn telja seinni kostinn hyggilegri, en þá þarf að efla mennta- og rannsóknarstofnanir eins og Háskólasetur Vestfjarða, Háskólann á Hólum og Hafrannsóknastofnun. Í þessum stofnunum fer fram öflugt rannsóknastarf á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar og fiskeldis og liggur því beint við að styðja betur við þetta starf af hálfu ríkisins. Þessar stofnanir geta enn fremur gefið okkur vísbendingar um það hvernig sé best fyrir okkur að haga nýtingu og skipulagi strandsvæða, en það er mikilvægt fyrir sveitarfélögin að fá hlutverk og réttindi í skipulagi utan netalaga.

 

Umhverfi og dýravelferð

Í þessari matvælaframleiðslu, líkt og þeirri sem er stunduð með landdýrum, munu Vinstri græn ekki gleyma dýrunum. Þegar rætt er um notkun svokallaðra þrílitna laxahrogna er mikilvægt að dýravelferð sé höfð að leiðarljósi en reynslan af þeim sýnir að oft þarf að kljást við mikla vansköpun og afföll. Mikilvægt er að tryggja að samskonar gott og strangt eftirlit sé með velferð eldisfiska og landdýra. Ef slysasleppingar verða þurfa að vera ströng viðurlög sem virka. Til þess þarf að efla eftirlitsstofnanirnar. Tryggja þarf að viðbrögð jafnt við brotum á dýravelferðarlögum og umhverfislöggjöf séu hröð og fumlaus og því ættu viðbragðs- og eftirlitsaðilar að vera staðsettir á Vestfjörðum, þar sem mesta framleiðslan er – og mun verða.

Fiskeldi hefur alla burði til að verða ein af undirstöðuatvinnugreinum á Vestfjörðum. Við leggjum traust okkar á hina faglegu og vísindalegu nálgun sem felst í umhverfis- og burðarþolsmati og því ferli sem fiskeldisfyrirtæki fara í gegnum við leyfisveitingar. Eftirlits- og rannsóknarstofnanir þurfa að búa yfir nægri og öflugri þekkingu á málaflokknum. Fyrirtækin þurfa líka að hafa skýrar leikreglur og ramma og það verður að tryggja að hluti opinberra gjalda, hvort sem það eru skattar eða hugsanleg auðlindagjöld, verði eftir í byggðalögunum á þeirra starfssvæði.

 

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Höfundur skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi