Fertugur höfðingi

Kristjana Helga Ólafsdóttir

Fyrsti áfangi Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis var tekinn í notkun þann 2. febrúar 1978 og fagnaði því heimilið 40 ára starfsafmæli þann 2. febrúar sl.  Mikið var um dýrðir á afmælisdaginn, meðal annars opið hús þar sem fjöldi fólks lagði leið sína á Höfða til að skoða heimilið og þiggja kaffiveitingar. Um kvöldið var svo haldinn hátíðarkvöldverður fyrir íbúa, núverandi starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn og stjórnendur sem látið hafa af störfum sökum aldurs, stjórn Höfða, bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar. Var sú skemmtun til fyrirmyndar og skemmtu gestir sér afar vel og var mikil ánægja hvernig til tókst.

Höfði hefur ávallt verið stolt okkar Skagamanna. Heimili 73 manna og vinnustaður 120 starfsmanna í um 75 stöðugildum. Starfsfólk Höfða hefur sinnt starfi sínu af alúð og umhyggju í þessi 40 ár og vil ég nota tækifærið til að þakka þeim sérstaklega fyrir framlag þeirra til heimilisins.  Mörg fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar í samfélagi okkar sýna starfinu á Höfða mikla velvild. Má í því sambandi nefna að heimilinu hafa borist margar höfðinglegar gjafir í gegnum tíðina sem allar eru ómetanlegar. Bæði hefur það verið í formi búnaðar og peningagjafa.  Meðal þess búnaðar sem gefinn hefur verið til Höfða eru hjartalínuritstæki, loftdýnur, hjól, ferðasúrefnissíu og margt margt fleira.  Þessi mikla velvild hefur stuðlað að þvi að Höfði er eitt best útbúna hjúkrunar- og dvalarheimili landsins og það ber að þakka.

Í tilefni tímamótanna ákváðu bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að leggja til fjármagn til nauðsynlegra endurbóta á annarri hæð í suðurálmu, einum elsta hluta hjúkrunarheimilisins, sem er farin að láta verulega á sjá.  Endurbætur voru gerðar á jarðhæð suðurálmu samhliða því að byggt var við Höfða á árunum 2011 og 2012.  Fyrirhugað er að sækja um styrk til endurbótanna í framkvæmdasjóð aldraðra.  Sjóðnum hefur hins vegar ekki verið skipuð stjórn að loknum síðustu alþingiskosningum. Af þeim sökum er formlegur undirbúningur framkvæmda ekki hafinn en samkvæmt upplýsingum úr velferðarráðuneytinu er unnið ötullega að skipun stjórnar.

Ég bind því vonir við að hægt verði að hefja mikilvægar endurbætur sem fyrst svo bæta megi enn frekar aðstöðu íbúa og starfsfólks.

 

Kristjana Helga Ólafsdóttir

Höfundur er formaður stjórnar Höfða og skipar sjötta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnarkosninga 2018.