Ferguson á Íslandi í 70 ár

Ragnhildur Helga Jónsdóttir

Fátt er það sem valdið hefur jafn mikilli byltingu í landbúnaði hérlendis, eins og þegar dráttarvélar komu til landsins á viðráðanlegu verði. Hver og einn bóndi gat þá keypt vél sem hægt var að nýta til sem flestra verka á búinu, hvort sem það var heyskapur eða jarðrækt. Til að byrja með voru þetta einfaldar vélar sem nýttust ef til vill ekki sem skyldi vegna þeirrar tækni sem þær voru búnar. Það var því mikil bylting þegar í maímánuði 1949 var haldin kynning á nýjum dráttarvélum sem verið var að flytja til landsins. Þar var um að ræða Ferguson, með allri þeirri tækni sem þær dráttarvélar bjuggu yfir. Einkum má nefna þrítengisbeislið sem olli byltingu í möguleikum á að nýta dráttarvélarnar til jarðvinnslu. Í hugum margra er Ferguson „Traktorinn!“ og lýsir það þeim sess sem hann hafði og hefur enn hjá mörgum sem unnu á honum eða nutu góðs af verkum hans.

Á Hvanneyrarhátíð, sem haldin verður laugardaginn 6. júlí næstkomandi, verður þess minnst að 70 ár eru síðan fyrstu Ferguson dráttarvélarnar komu til landsins. Fergusonfélagið mun standa fyrir sýningu þar sem leitast verður við að sýna sem flestar gerðir af Ferguson og Massey Ferguson dráttarvélum, sem komið hafa til landsins, auk ýmissa véla sem tengdar voru við þær.

Fergusonfélagið í samstarfi við Landbúnaðarsafn Íslands leitar til íbúa í Borgarfirði og nágrenni hvort ekki séu til Fergusonvélar á svæðinu sem eigendur vildu sýna á þessum degi. Sérstaklega skemmtilegt væri að fá sem flestar Fergusonvélar sem komu hingað 1949.
Það væri vel þegið ef Borgfirðingar vildu taka þátt í að gera þennan dag sem veglegastan og sýna dýrgripi sína sem annars eru geymdir inni í vélageymslum. Eins væri gaman að sjá á Hvanneyrarhlaðinu vélar af öðrum gerðum, einkum þeim sem eru fágætar.

Þeir sem væru til í að taka þátt eru beðnir um að hafa samband við Ragnar Jónasson, síðustjóra Fergusonfélagsins með netfangið fergusonfelag@gmail.com eða Jóhannes Ellertsson í Borgarnesi með netfangið joi@lbhi.is.

Vonandi sjáum við sem allra flesta úr héraði á Hvanneyrarhátíðinni, hvort sem er með sínar vélar eða til að njóta alls þess sem í boði verður á hátíðinni.

Ragnhildur Helga Jónsdóttir

Höf. er safnstjóri Landbúnaðarsafns Íslands.

Fleiri aðsendar greinar