Ferðaþjónusta á Akranesi

Steinþór Árnason

Eftir að hafa búið utan Akraness, við nám og störf bæði erlendis og víða hér heima, er gott að vera kominn aftur á Skagann. Það er hvergi betra að vera. Ég er hluti af 1980 árganginum og það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með því úr fjarska hvað margir úr honum hafa látið að sér kveða í athafna- og félagsmálum bæjarins. Þessi misserin legg ég mig sjálfur fram um að leggja mín lóð á vogarskálina til að gera bæinn okkar betri.

Menntun mín og starfsreynsla liggur í ferðaþjónustu og þá helst hótel- og veitingageiranum. Akranes hefur aldrei talist ferðaþjónustubær en ég man þó eftir því að þegar ég var polli að hjóla um götunar og það var „nóg af stöðum“ til að næra sig og hitta aðra og til að bjóða ferðamenn velkomna.

Það var Hótel Akranes, gistiheimili, H-Barinn, Café 22, Barbró, Rauða myllan, Langisandur og mig minnir fleiri góðir staðir en þessi eru ofarlega í minningu unglingsáranna. Iðandi mannlíf á hátíðisdögum og alltaf hægt að fá rúm að gista í, mat og menningu.

Þetta eru 22-30 ár síðan. Á þeim tíma hefur ferðamönnum á landsvísu fjölgað frá um 100.000 á ári, í um 2.100.000 og jarðgöng stytt ferðatímann frá Reykjavík um 25-40 mínútur.

Á sama tíma og verulega íbúafjölgun hefur orðið, framkvæmdir hafa verið umtalsverðar og fyrirtækjum hefur fjölgað og þau stækkað, hefur fátt gerst í hótel- og veitingageiranum.

Það eru núna starfrækt tvö veitingahús, tvær alþjóðlegar skyndibitakeðjur, tveir barir þó annar með blandaða starfsemi, tvö kaffihús þó annað með blandaða starfsemi, ekkert hótel, nokkur flott gistiheimili, flott tjaldsvæði og eitt stórglæsilegt fyrirtæki sem selur matarpakka út úr húsi eldaða eða óeldaða og stefna á opnun þriðja veitingastaðarins á Akranesi á næstu misserum.

Þetta eru allt topp fyrirtæki, en miðað við fjölgun uppá tvær milljónir ferðamanna á landsvísu og fjölgun íbúa upp á um þrjú þúsund einstaklinga á þeim tíma sem ég nefndi, verður að segjast að þessi þróun er ekki í takt við það sem eðlilegar væntingar um þróun gefa tilefni til að ætla.

Á örfáum árum hefur Ísland breyst í mikið ferðamannaland en Akranes hefur orðið útundan. Tækifærin hafa aldrei verið fleiri en nú og við verðum að nýta þau. Við þurfum að framkvæma en ekki bara láta okkur dreyma, forgangsraða og setja okkur skammtíma- og langtíma markmið.

Bæjarstjórnin og bæjarfélagið á Akranesi þarf að spýta í lófana og vinna markvíst að því að efla hótel- og veitingaflóruna hér á Skaganum. Það getur meðal annars gerst með  ráðningu atvinnu- og ferðamálafulltrúa. Einnig tel ég mjög brýnt að koma Akranesi í tengingu við hringveginn með vegi um Grunnafjörð og færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall. Skattheimta og álögur á ný fyrirtæki í þessum greinum ætti að vera hvetjandi fyrir nýfjárfestingar. Með þessum aðgerðum og fleiri er hægt að gera undraverða hluti í uppbyggingu þessarar mikilvægu starfsemi og gera Akranes um leið samkeppnishæfara.

Í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí skipa ég 3. sæti Miðflokksins á Akranesi, ég vil leggja mitt lóð á vogarskálina til að gera bæinn minn betri.

 

Steinþór Árnason.

Höf. skipar 3. sætið á lista Miðflokksins á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar