Fellsendarétt
Finnbogi Harðarson
Af jákvæðum fréttum héðan úr Suðurdölum er ein sem lítið hefur farið fyrir en þarft er að minnast á og þakka sveitarstjórn Dalabyggðar og starfmönnum hennar sem komu að málinu. Undanfarin tvö ár hefur sveitarfélagið unnið að viðgerðum og endurbótum að uppsteyptum almenningi Fellsendaréttar.
En af hverju þarf að minnast á þetta? Hluti af mínu starfi undanfarin ár hefur verið að spjalla við ferðamenn, mest erlenda og svara þeirra spurningum. Oft er spurt um hvernig bændur nái fé sínu úr fjöllunum, þær séu bara út um allt. Því hef ég svarað að við séum svo heppin að hafa aldagamalt skipulag sem heitir Fjallskil, þar sem sauðfjárbændur hafi hjálpast að við að smala fjöllin, eitt svæði einn daginn og svo næsta svæði. Svo þarf að skýra út fyrir þeim réttarhaldið, fé allra sé rekið sameiginlega inn í almenning og þar fyrst geti menn náð sínum kindum sér í sinn dilk.
Þessar samræður mínar við gesti mína hafa hjálpað mér að meta mikilvægi fjallskila skipulagsins fyrir sauðfjárbændur og að það virki vel fyrir alla sauðfjárbændur. Og í framhaldi af því met ég það mikils að með því að tryggt er nú að almenningur Fellsendaréttar standi uppi samfélagi sínu til sóma næstu áratugina.
Fellsendarétt stendur nánast í vegkanti þjóðvegar 60 og er hluti af andliti samfélagsins er fólk sem kemur að sunnan inn í Dalina. Víða um land má sjá mjög fallegar fjárréttir sem eru sínu samfélagi til mikils sóma og er það vel að sveitarstjórn Dalabyggðar hefur það sjónarmið líka að leiðarljósi.
Ljóst er að alltaf er hægt að laga eitt og annað en tel að það sé mun minna verk eftir að tryggt sé að almenningurinn verði til sóma. Ég sem sauðfjárbóndi hér í Miðdölum vil ítreka þakklæti til þeirra sem ákváðu að endurbyggja almenninginn í Fellsendarétt.
Finnbogi Harðarson
Höf. er sauðfjárbóndi á Sauðafelli í Dölum.