Fasteignagjöld í Borgarbyggð

Guðsteinn Einarsson

Það er svolítið forvitnilegt að skoða hvað ræður bættri fjárhagslegri afkomu Borgarbyggðar.

Hvar liggur batinn?  Ef reikningar sveitarfélagsins og álagningarseðlar fasteignagjalda eru skoðaðri þá má sjá að það er almennt góðæri, sem leiðir af sér hærri útsvarstekjur en áætlað var, hækkun fasteignaskatta, og greiðslur úr jöfnunarsjóði, langt umfram áætlanir.

Fasteignagjöld voru hækkuð á árinu 2015 úr 0,36% í 0,47% af fasteignamati húss eða um 36% og þá var lóðaleiga hækkuð úr 1,15% í 1,5% af fasteignamati lóða eða um 76%.  Þó svo að prósentan hafi aftur verið lækkuð í 0,45% þá eru fasteignagjöld í Borgarbyggð mjög há, og á þá eftir að taka með allskonar fasteignatengd gjöld OR og dótturfélaga OR.

Þessar hækkanir hafa skilað sveitarfélaginu um 100 milljónum króna á ári eða nálægt 400 milljónum króna á kjörtímabilinu sem koma því úr vösum fyrirtækja og fjölskyldna eins og sjá má af þessu dæmi af gjöldum undirritaðs.

Hin þátturinn sem virðist ráða miklu um bætta afkomu er að greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru, líklega vegna góðæris í landinu, 585 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir eins og sjá má af meðfylgjandi töflu, sem sýnir líka þróun tekna af fasteignagjöldum og útsvari.

Eins og sjá má af þessu þá hafa tekjur sveitarfélagsins hækkað langt umfram verðlag, útsvar vegna góðæris, fasteignaskattar vegna skattahækkana sveitarstjórnar og Jöfnunarsjóður líklega líka vegna góðæris en þeirri hækkun umfram áætlanir sveitarstjórnar má líkja við happdrættisvinning sem líklega er óviss tekjuliður.

Hvað varðar útgjöld þá er nokkuð ljóst að þau hafa a.m.k. haldið vel í við verðlag.  Allavega er ljóst að ekki hefur verið um neitt aðhald eða hagræðingu að ræða hjá sveitarfélaginu.

Eins og sjá má á neðangreindum töflum þá hækkar launakostnaður um nánast sömu prósentur og launavísitala Hagstofunar og er 482 milljónum króna hærri en áætlað var það sem af er kjörtímabilinu. Almennur kostnaður hækkar um 10% frá 2014 til 2017 sem er tvöföld meðalhækkun vísitölu neysluverðs skv. tölum Hagstofunar, eða bara 106 milljónum króna hærri en áætlað var á kjörtímabilinu.

Skólamál, fræðslumál eru einn stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins. Samkvæmt skýrslunni „Rekstrarupplýsingar grunnskóla 2016“  um rekstrarkostnað skólanna í Borgarbyggð 2016 þá er bæði launakostnaður, stjórnunarkostnaður og annar kostnaður þeirra langt umfram landsmeðaltal. Full ástæða er til þess að fram fari ítarleg úttekt bæði á rekstrarkostnaði skóla og þá líklega ekki síður að meta árangur af starfi þeirra.

Til samanburðar má sjá vísitölur launa og neyslu eins og þær birtast á vef Hagstofu Íslands.

Ef eitthvað er að marka tölurnar í pistli þessum, sem fengnar eru úr ársreikningum Borgarbyggðar fyrir A-hluta, þá hefur góðærið í landinu bjargað afkomu sveitafélagsins, en ekki aðgerðir í rekstri þess.

En staðan er miklu betri en hún var þegar ákveðið var að hækka álögur á fyrirtæki og fjölskyldur í sveitarfélaginu til þess að bjarga afkomu sveitarfélagsins.  Það er því eðlilegt að lækka fasteignagjöldin strax til fyrra horfs og skila hækkunum til baka því þeirra tekna er ekki lengur þörf í rekstri þess.

 

Borgarnesi, 7. apríl 2018.

Guðsteinn Einarsson.