Farvel Breiðin, farvel beituskúrar. Halló ferðamenn og færibönd!

Tinna Steindórsdóttir

Ég telst víst til ungra Skagamanna þótt ég hafi lifað tímana tvenna. Þegar ég var lítil voru ekki tölvur og ekki farsímar og ekkert Internet. Veröldin kollsteyptist hins vegar með tilkomu þessara tækninýjunga um það leiti sem ég var á miðju gelgjuskeiðinu.

Ég naut þeirra forréttinda að vera krakki áður en þetta allt saman gerðist og eyddi töluverðum hluta af æsku minni niðri á Breið. Ég kunni klettana utan að og stökk þarna um eins og fjallageit á ógnarhraða, er enn með fullt af örum á leggjunum eftir að hafa flogið á hausinn og  endasenst þarna um nokkrum sinnum, en örin vekja bara upp bros og ævintýralegar minningar. Og kannski smá fortíðarþrá líka.

Ég vissi hvaða sílapollar voru gjöfulastir og hvar stærstu sílin földu sig í þeim. Ég þekkti allar fuglategundirnar sem dvöldu á Breiðinni minni. Ég vissi um uppáhalds hreiðurstaðina þeirra og kíkti stundum aðeins á ungana þeirra. Ég gat fylgst með því í óratíma þegar mávarnir steyptu sér í grynningarnar að sækja sér ígulker og létu þau svo detta niður á klettana og brotna til þess að ná í gómsætt gumsið sem leyndist inni í þeim. Stundum þurftu þeir að láta kerið detta tvisvar sinnum áður en það brotnaði. Þeir fundu samt alltaf sitt ígulker aftur um leið. Stundum laumuðust aðrir að fiskinum og þá upphófst rifrildi sem var magnað fyrir litla stelpu að fylgjast með. Ég hélt alltaf með réttmætum eiganda.

Einn af mínum uppáhaldsstöðum var aflokuð leynifjara með gulllituðum sandi og stærstu og litríkustu hörpuskeljum sem ég hafði séð. Ég var sannfærð um að enginn annar vissi af þessum stað. Aðeins ofar en leynifjaran var líka skemmtilegt sker og djúpt lón fyrir neðan og þegar ég var upp á mitt uppátækjasamasta þá stökk ég af skerinu og lét mig húrra þarna ofan í lónið og hræddi allar kollurnar og blikana í burtu og buslaði svo skellihlæjandi í land. Einhvern tímann sá ég mink þarna í klettunum. Einhvern tímann fann ég hauskúpu af minki í sandinum. Þeir voru ófáir fjársjóðirnir og furðugripirnir sem ég fann í rannsóknarleiðangrum mínum um fjörurnar á Breiðinni.

Í trönunum var enn annan ævintýraheim að finna. Stundum var maður staddur í frumskógum Afríku og við krakkarnir sveifluðum okkur þarna eins og górillur og flúðum undan tígrisdýrum eða földum okkur fyrir mannræningjum í löggó-bófó leikjum. Við földum þarna líka ýmsa dýrgripi og merktum fjarsjóðsreitinn með fuglabeinum og kuðungum. Vinkonur mínar voru þarna með bú í einum trönulundinum og þar voru ýmsir pottréttir með fjöruþema mallaðir og moldarkaffi bruggað og drullukökur skreyttar með baldursbrám og bláliljum.

Einhvern tímann fengum við lánaða videovél og tókum upp hryllingsmynd í gamla vitanum. Við stelpurnar í skólakórnum sátum líka oft þarna í grænu tröppunum og sungum kórlögin okkar sem bergmáluðu þarna milli veggjanna. Við vinkuðum alltaf gömlu sjómönnunum sem rúntuðu þarna reglulega út að klettunum að gá til veðurs og athuga með báta á landleiðinni.

Frá því að ég lítill stubbur sem rétt stóð upp úr stígvélunum fór ég reglulega í fjöruferðir með pabba þarna. Það var hann sem kenndi mér hvað allir fuglarnir hétu og hin ýmsu fjörukvikindi. Við tíndum skeljar og kuðunga og fórum í skeljakóng. Ég er líka hálf alin upp í einum af beituskúrunum þarna. Sjómannsdóttir. Rætur mínar og pabba eru þarna í fjörunni og sjónum. Eins og svo margra annarra Skagamanna.

Beituskúr hjá pabba var alltaf og hefur alltaf verið eins og hálfgerð félagsmiðstöð. Ég sat þarna á stól og sveiflaði fótunum, japlaði á Síríuslengju og drakk ískalda kók úr kælinum í Axelsbúð, og hlustaði á alla kallana spjalla saman um heima og geima og segja skemmtilegar sögur af sjálfum sér og öðrum. Þeir komu þarna og fengu kaffisopa úr brúsanum hjá pabba og reyktu pípurnar sínar og styttu pabba stundir á meðan hann beitti hvert bjóðið á fætur öðru. Í beituskúr hlustuðum við pabbi líka oft á tímamótaverk úr tónlistarheiminum og dönsuðum jafnvel á meðan við smúluðum yfir skúrinn eftir vinnudaginn.

Ég kíki enn reglulega í heimsókn í beituskúr. Einn staður á beituborðinu er frátekinn fyrir hin ýmsu furðukvikindi sem hafa flækst með þegar pabbi dregur fisk úr sjó og þessa gripi fá litlir fingur að handleika og skoða af hjartans lyst. Fyrir aftan skúrinn hendir pabbi beituafgöngum fyrir mávana og mýslurnar. Fyrir framan skúrinn eru stórar kúskeljar með fersku vatni fyrir maríuerlurnar sem verpa alltaf í kartöflugeymslunni hans pabba. Það fá allir bita og sopa sem kíkja við í beituskúr. Beituskúr er vinnustaður, kaffihús, safn, hálfgerður griðastaður, allt vafið saman í eitt og þangað finnst öllum notalegt að koma. Líka músum og maríuerlum.

Í seinni tíð hafa börnin mín notið góðs af því að leika og basla í beituskúr með afa. Við höfum farið í ófáar ævintýraferðir niður við vitana og veitt síli og marflær og tínt kuðunga og skemmt okkur konunglega. Leikskólahópar krakkanna koma við hjá afa í fjöruferðum og kíkja á alla furðugripina og fá að heyra skemmtilegar sögur hjá þessum skemmtilega afa með mikla skeggið og blómótta rambóbandið á höfðinu. Hvílík forréttindi að eiga svona ævintýraafa á svona ævintýrastað.

Það hefur margt breyst á Breiðinni síðan ég var lítil. En þannig týnist tíminn ekki satt? Maður á ekki að ríghalda í fortíðina eins og mávur í skelfiskinn sinn. Trönurnar hurfu. En þær voru kannski orðnar of gamlar og hættulegar. Ég veit það ekki. Ég var bara leið þegar þær hurfu. Það er búið að gera stærðarinnar gat á leynifjöruna. Og setja kamra þar. Jú það er kannski bara eðlileg þróun og asnalegt að finnast það hálfgerð synd. Ferðamenn eru góðir fyrir efnahaginn og gott fyrir bæinn okkar að fá þá í heimsókn. Þeir lífga upp á mannlífið. Það er búið að steypa planið við vitann og loka því og gera það snyrtilegt og ferðamannavænt. Gömlu sjómennirnir komast ekki lengur að gá til veðurs eða sjá hvaða bátar eru á leið í land. En ferðamennirnir labba allavega á fínum palli. Það er auðvitað mjög mikilvæg og eðlileg þróun. Vitafélagið hefur unnið þarna flott og virðingarvert starf. Nýi vitinn stendur opinn og býður alla velkomna. Nýi vitinn starir þarna yfir og boðar nýja tíma og ygglir sig þegar hann sér allan sóðaskapinn í kringum sig. Ryðgaðir tankar og yfirgefin hús hér og þar, gamlir hjallar og bátar sem hafa ekki séð öldu í háa herrans tíð. Það gengur ekki að hafa svona sóðalegt hérna á Breiðinni lengur, hugsar nýi vitinn með nýju tímana sína. Þetta er ferðamannastaður, ekki vinnusvæði.

Ferðamenn koma nú samt alltaf reglulega við í beituskúr hjá pabba þrátt fyrir allt. Spyrja hvar er hægt að gista, borða, spræna og svona hvað er skemmtilegt að skoða. Þeir fá allir að taka mynd af „innfæddum“ við sína „innfæddu“ sjómannsiðju og fá jafnvel kaffisopa í kaupbæti. Þeim finnst líka gaman að fá að taka mynd af gömlu lappajálkunum hans pabba. Í beituskúr hafa jafnvel komið frægir myndatökumenn að taka upp heimildamyndir um íslenskan sjávarútveg og fengið að fara á sjó með pabba. Einhverjir ferðamenn hafa fengið að spræna á bak við skúr. Það var áður en kamrarnir komu. Hjón frá Missouri sváfu einhvern tímann í bílnum sínum þarna á planinu. Það var áður en gistihúsin voru farin að taka almennilega við sér.

Við krakkarnir mínir fórum í fjöruferð í sumar. Veiddum nokkur síli. Ferðamenn í stríðum straumum mynduðu okkur í bak og fyrir á meðan án þess að spyrja leyfis. Ég sem hélt þeir væru þarna til þess að skoða vitann og fína pallinn, ekki okkur „innfæddu“. Við settumst niður í sandinn og fengum okkur kleinu og kókómjólk. Fleiri tóku myndir. Dróni sveimaði yfir okkur í þónokkra stund. Ég flúði að endingu burt með krakkana mína og sílin í fötu og við þurftum að gæta okkar vel og vandlega að komast þarna um fyrir ferðamannarútum og bílaleigubílum. Ég býst við að það sé ekki ætlast til þess að gestirnir sem koma að skoða vitann og sitja á fína pallinum komi þangað gangandi.

Um daginn sá ég að það var búið að slá háa grasið á bakvið beituskúrana. Hvað skyldi hafa orðið um alla hrossagaukana, þúfutittlingana og lóurnar sem verptu þarna? Vonandi voru ungarnir allir skriðnir úr eggjunum og gátu hlaupið í burtu. Það er náttúrlega ekki hægt að láta þetta gras bara vaxa þarna villt og galið. Hvað myndu ferðamennirnir segja! Þeir eru náttúrulega þarna til þess að skoða snyrtilegt, vel slegið, sterílt ferðamannasvæði með ferðakömrum og taka ljósmyndir af ljósmyndum í vitanum og leita svo út um allt að lundabúð. Þeir lögðu ekki leið sína frá Reykjavík, lundabúðunum og sterílu ferðamannasvæðunum þar í leit að alvöru íslenskum fiskibæ, til þess að sjá daglegt amstur bæjarbúa, beituskúra, náttúru og fuglalíf og börn að veiða síli.

Ég er alin upp á móti frystihúsinu. Í bræðslulykt og síldarþoku. Ég hljóp reglulega út og reitti niður þvottinn af snúrunum fyrir mömmu áður en allt færi að anga af blessaðri peningalyktinni. En allir höfðu vinnu og bærinn okkar var blómlegur. Þar með þurfti ekki að ræða það meira. Ég hef aldrei nennt að setja mig inn í „stóra fýlumálið“ en er samt glöð að fyrirtækin eru að finna leiðir til þess að takmarka þess háttar mengun. En ég vil samt að fólkið okkar haldi áfram að hafa vinnu. Ég vil að öllum líði vel á Akranesi og að bærinn okkar haldi áfram að vera blómlegt fiskiþorp. Þegar ég hugsa um Akranes þá sé ég fyrir mér Akrafjallið, rauðu frystihúsin, höfnina, kirkjuna, Einarsbúð og skógræktina. Og allt fólkið, alla Skagamennina. Það er Akranes fyrir mér. Nú eru öll rauðu frystihúsin orðin hvít. Kannski mála þeir Hallgrímskirkju gula næst.

Nú á líka að ryðja burt beituskúrunum og öllum ljótu húsunum á Breiðinni. Þar mega bara vera hvít og steríl hús, allar grasflatir þrælslegnar og kassóttar, engin fiskifýla, ekkert slor. Þetta er allt svo agalega sóðalegt og ekki hægt að bjóða ferðamönnunum upp á þetta eins og þetta er núna. Þeir vilja líka miklu frekar koma þarna og lesa á ferðamannaskiltum á þremur tungumálum um lífið og iðnaðinn sem átti sér einu sinni stað á Breiðinni frekar enn að sjá það bara með eigin augum.

Þarna er núorðið líka bara pláss fyrir eitt fyrirtæki og færiböndin þeirra. Samt hélt ég að þetta héldist allt í hendur, Akranes, frystihúsin, trillukarlarnir og fjörurnar. Að við værum öll saman í liði. En nú virðast bæjarbúar og þeirra menning og lífsviðurværi vera algjört aukaatriði. Beituskúrar, gamlir sjómenn að gá til veðurs og börn að veiða síli eru enn meira aukaatriði.

En ég ætti kannski bara að fagna öllum þessum breytingunum. Þetta er allt saman bara hluti af eðlilegri framþróun og ferðamennska og færibönd er það besta fyrir bæjarfélagið.

Maður á víst ekki að halda í fortíðina. Það er alls ekki hollt, sjáiði til.

 

Tinna Steindórsdóttir

Höf. er framhaldsskólakennari og sjómannsdóttir.

Fleiri aðsendar greinar