Farsæl efri ár í Hvalfjarðarsveit

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Í Hvalfjarðarsveit er lögð áhersla á að styðja eldri borgara með fjölbreyttri þjónustu sem gerir þeim kleift að njóta farsælla og virkra efri ára. Sveitarfélagið veitir margvíslega stuðnings- og stoðþjónustu t.d. með aðhlynningu, heimsendum mat og akstursþjónustu, sem miðar að því að auðvelda fólki að búa lengur heima, efla sjálfstæði og viðhalda lífsgæðum.

Félags- og tómstundastarf fyrir 60 ára og eldri er fjölbreytt í Hvalfjarðarsveit en markmið starfsins er að auka lífsgæði, draga úr félagslegri einangrun og viðhalda færni þar sem þátttaka eykur lífsgæði. Félags- og tómstundastarfið stuðlar einnig að betri andlegri og líkamlegri heilsu. Á vegum Hvalfjarðarsveitar er opið hús tvisvar sinnum í mánuði, frá september fram í maí, í félagsheimilinu Miðgarði. Þar fer fram margbreytilegt starf og ávallt er boðið upp á kaffi og kruðerí. Árlegir viðburðir í félagsstarfinu eru jafnframt þorrablót og vorferð sem hefur verið vel sótt.

Íþróttamiðstöðin Heiðarborg nýtist vel fyrir íþrótta-, tómstunda- og félagsstarf, hún er opin frá september til og með maí, þar er innisundlaug, heitur pottur, þreksalur og íþróttasalur. Hvalfjarðarsveit býður upp á vatnsleikfimi fyrir 60 ára og eldri, tvisvar sinnum í viku yfir vetrartímann. Ný og glæsileg líkamsræktartæki voru nýverið tekin til notkunar í þreksalnum og mun Emilía Halldórsdóttir, íþróttafræðingur, leiðbeina og fræða um notkun nýju tækjanna í þreksalnum fyrir 60 ára og eldri í Hvalfjarðarsveit, frá kl. 11:10 til 11:50 alla þriðjudaga til jóla. Að lokinni vatnsleikfimi og líkamsrækt geta þátttakendur fengið hádegismat í Heiðarskóla gegn vægu gjaldi. Enginn aðgangseyrir eða komugjald er innheimt í Heiðarborg.

Framundan eru mikil framkvæmdaár í sögu Hvalfjarðarsveitar, þar má helst nefna nýtt íþróttahús við Heiðarborg en hugsjónin er að með nýju íþróttahúsi verði Heiðarborg samfélagsmiðstöð sem hýsi skóla-, íþrótta-, frístunda-, félags- og samkomustarf fyrir alla aldurshópa. Samfélagsmiðstöðin Heiðarborg mun þannig verða lykilstaður þar sem fjölbreytt starf blómstrar til framtíðar, öllum íbúum Hvalfjarðarsveitar til heilla.

Í Hvalfjarðarsveit hefur verið starfandi Öldungaráð frá 2023. Fundir ráðsins hafa verið öflugir og allir fulltrúar þess hafa átt hlut í að skapa kraftmikla umræðu og samtal. Öldungaráð er formlegur samráðsvettvangur er fjallar um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Öldungaráð er fjölskyldu- og frístundanefnd og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni aldraðra íbúa sveitarfélagsins.

Þann 6. nóvember síðastliðinn fór fram vel heppnaður viðburður í Miðgarði í tilefni verkefnisins ,,Gott að eldast“ sem er þróunarverkefni þar sem unnið er að því að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Grunnhugsunin er sú að eldra fólk sé ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði. Á viðburðinum var verkefnið kynnt ásamt því að hjónin Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur, og Svavar Knútur, söngskáld, stóðu fyrir erindinu ,,Það er pláss“ í nafni vitundarvakningar Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um að vinna gegn félagslegri einangrun. Félag eldri borgara í Hvalfjarðarsveit (FEBHV) átti veg og vanda að góðum kaffiveitingum á opna húsinu. Ánægjulegt var að sjá hve margir sóttu fundinn og sköpuðust góðar umræður í kjölfarið.

Í Hvalfjarðarsveit eru margir hópar, félög og samtök sem efla og glæða samfélagið með starfi sínu og lýsir sveitarstjórn yfir ánægju sinni með störf allra þessara félaga sem leggja sitt af mörkum við að auðga líf og starf í sveitarfélaginu. Félagsheimilið Miðgarður hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem vettvangur fyrir félagsstarf í sveitarfélaginu í gegnum árin. Gleðilegt er að fyrirséð sé enn meiri nýting á félagsheimilinu á næstu misserum, þar sem Félag eldri borgara í Hvalfjarðarsveit (FEBHV) hyggst bætast í þann góða hóp sem nú þegar nýtir Miðgarð fyrir sína starfsemi.

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hvetur íbúa og aðra áhugasama til að kynna sér upplýsingabækling upplrit-vefur-9jul-2024.pdf þar sem finna má helstu upplýsingar um málefni sem snúa að eldri borgurum í Hvalfjarðarsveit.

 

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar