Í fararbroddi fyrir börnin okkar

Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir

Borgarbyggð er sannkallað menntahérað og státar af skólum á öllum skólastigum. Á könnu sveitastjórnar eru leik- og grunnskólar sveitafélagsins. Skóli án aðgreiningar er við lýði en þrátt fyrir það hefur fjármagn aldrei fylgt verkefninu sem skyldi. Samkvæmt lögum um grunnskóla (Nr. 91/2008, 17. gr) er sveitafélögum skylt að veita nemendum með sérþarfir og fötlun viðeigandi úrræði og aðstoð í námi. Í öðrum lið þessara laga segir:

„Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni [fatlaðs fólks], 1) nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.“

En hvernig höfum við komið til móts við nemendur okkar? Á síðustu árum hefur margt áunnist. Þjónusta við nemendur og kennara hefur verið styrkt með tilkomu teymis sem kallast skólaþjónusta Borgarbyggðar. Þar eiga sæti kennsluráðgjafi, talmeinafræðingar, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og barnageðlæknir. Einnig hafa verið ráðnir inn þroskaþjálfar í skólana sem gegna mikilvægu hlutverki þar sem þeir geta tekið á öðrum þáttum en kennarar hafa menntun til. Biðlisti eftir þeim greiningum sem sveitafélagið getur sjálft innt af hendi er að verða tæmdur og nú ætti að vera lag að taka næsta skref. Við þurfum að huga líðan barna okkar.

Í skýrslu OECD frá síðasta ári kemur fram að bæði dvalartími og fjöldi skóladaga á leikskólum er einna mestur hjá íslenskum börnum í samanburði við önnur lönd innan OECD. Ekki nóg með það heldur erum við einnig með einna flest börn undir þriggja ára aldri í leikskólum. Á þessum árum er heilinn hvað viðkvæmastur og í hvað mestri framför, tilfinningalegur þroski, tungumálið, félagshæfni og taugalífeðlifræðilegur þroski er hvað mestur fram á þessum árum. Þá þurfa börn að fá örvun en ekki áreiti og of lítil rými og slæm hljóðvist geta því beinlínis verið börnum skaðleg. Börn þurfa mikla nánd og þurfa að geta myndað sterk tengsl við aðila í kringum sig til að þroskast vel og eðlilega. Miklar mannabreytingar á leikskólum eru því ekki af hinu góða.

Leikskólar hér eins og svo víða voru stofnaðir með það í huga að börn væru þar í fjóra til fimm tíma á dag. Þá voru skýr viðmið um bæði fjölda starfsmanna miðað við aldur barna og það pláss sem hvert barn var talið þurfa. Þannig var viðmiðið 7 m2 brúttó á hvert barn samkvæmt lögum um leikskóla nr.  225/1995. Þau lög hafa verið felld úr gildi og opinberlega var hætt var að miða við fermetra töluna árið 2008 (Lög nr. 90/2008). Ekki hafa komið ný viðmið í staðinn heldur loðin og teygjanleg reglugerð sem segir að öllum eigi að líða vel og að rýmið eigi að vera gott og með góðri hljóðvist. Enn í dag er þó unnið með þessa fermetratölu þó að það eigi ekki að vera gert.

Hafnafjarðarbær gerði nýlega úttekt á leikskólum sínum vegna þess hve mikill órói var í fyrstu bekkjum grunnskólanna. Í úttektinni kom í ljós að börn sem höfðu hvað minnst rými í leikskóla og upplifðu þar af leiðandi meiri hávaða og læti allan daginn í skólanum voru mest truflandi inni í skólastofum að leikskóla loknum og leið verr.

Það er mín von að við sem sveitafélag og við sem þjóð hættum að horfa á börn sem tölur í Excel skjali. Börn eru ólík og þurfa mismunandi nálgun. Við þurfum að hlusta á fagfólkið í kringum okkur og við eigum að stíga skref sem önnur sveitafélög hafa ekki þorað að gera. Við þurfum að gera áætlun sem miðar að því að við minnkum álag á umsjónarkennara og aukum undirbúningstíma leikskólakennara að norrænni fyrirmynd svo að þeir hafi svigrúm til að mæta börnunum okkar á þeim stað sem þau eru. Við þurfum að endurmeta skólarýmin út frá þeim tíma sem börn verja í skólum í dag. Við eigum að tryggja börnum með sérþarfir þá aðstoð sem þau þurfa til að blómstra. Við eigum að fara fram á að ríkið sjái sóma sinn í því að klára innleiðingu stefnunnar um skóla án aðgreiningar og gera skólum og sveitarfélögum kleift að mæta börnum eins og lög segja til um. Við eigum að nota þá þekkingu sem við höfum til að bæta aðstæður í skólunum þannig að nemendum líði vel og eigi þannig meiri möguleika á að blómstra í skólakerfinu okkar. Borgarbyggð á að þora að vera í fararbroddi þegar kemur að líðan barna og námsárangri þeirra í skólum. Því ef við  gerum leik- og grunnskólakennurum okkar það kleift að mæta nemendum bæði með bættri aðstöðu og með betri undirbúningstíma þá mun börnunum líða betur og skila sér út úr skólanum sterkari, glaðari og betur undirbúin fyrir það sem á móti þeim tekur.

 

Halldóra Lóa Þorvalsdóttir

Höf. er oddviti VG í Borgarbyggð.

 

 

Fleiri aðsendar greinar