
Fáránleikinn allur, eða mestallur
Einar Óskarsson
Ég er þeirrar hamingju aðnjótandi að búa í dreifbýlinu og telst í dag bóndi þó ekki sé bústofn um að ræða nema ef trjástofnar sem vonandi verða til á landi mínu teljist bústofnar. Við hjónin ákváðum að hafa skógrækt sem tómstundamál í ellinni og erum búin að planta góðum slatta af ýmsum trjám á landi okkar á Tungulæk. Þetta stefnir í að geta orðið býsna vöxtulegur skógur og ættu loftslagspálmar nútímans að gleðjast mjög yfir komandi kolefnisbindingu sem er þó ekki beint okkar markmið þó öll góð aukamarkmið séu fín.
Hamingja mín yfir góðu verki er að sjálfsögðu veruleg en fleiri kunna vel að meta framtakið og þar koma til skepnur nokkrar sem teljast á svipuðu verndarstigi og kýr á Indlandi. Tungulækur er þannig í sveit settur að þar koma að jarðir sem ekki er fjáreign á nema sem sérlega afgirt sauðasvæði þannig að ég hef ekki verið að sóa fjármunum í að girða landið. Enda væri það sannkölluð hermdarför á hendur granna minna sem ekki eiga sauðfé en þyrftu samkvæmt landslögum að punga út með fjármuni til móts við mig sem væri þó bara að girða mig af frá annarra fé sem þó búa æði langt frá. Þeirra fé þarf semsagt að ferðast æðiveg og yfir og framhjá nokkrum jörðum jafnvel áður en mitt gósenland kemst í augsýn með mínum afar bragðgóðu trjáplöntum.
Svo ég geti semsagt girt frá mér sauðfé fjarlægra eigenda gæti ég níðst á grönnum mínum með girðingakostnað til að draga úr mínum kostnaði sem yrði æði mikill og sár því ellibelgir þessa lands eru sjaldnast mjög fjáðir nema þá að ágangsfé annarra. Þessi kostur hugnast mér afar illa og mínir grannar eiga það alls ekki skilið af mér að ég ofsæki þá á þennan hátt. Girðing í kringum minn part af Tungulæk væri u.þ.b. 4 km að lengd og mér telst til að bara efnið í hvern kílómetra geti verið um 750.000 og þá er vinnan og tækjanotkun eftir. En heimskan sem felst í því að girða fyrir 5-6 milljónir króna (sem ég á hvort´eð er ekki) til að verjast örfáum sauðkindum sem leggja það á sig að ferðast um langan veg til að éta hjá mér trjáplöntur er eiginlega of mikil til að ég vilji taka þátt í henni.
Því er ég í dag að velta fyrir mér öðrum mun beinskeyttari kosti sem er að verja mig með skotvopni sem beina má aðeins að þeirri ullarpöddu sem ásælist mitt land og plöntur. Er nú að reyna að finna upplýsingar um hve háar sektir og bótagjöld gætu orðið fyrir hverja skotna kind á landi mínu. Það er að segja ef upp kemst því svona aðgerð gæti einnig orðið í skjóli rökkurs og með fullri leynd. Að vísu kæmi til enn eitt reglugerðarbrotið ef ég husla hræin á landareigninni því slíkt er víst með öllu bannað þó svo að við huslum okkur sjálf í jörð sem kallast þó kirkjugarður. Það er víst annað innihald í mannskepnunni en rolluræflunum. Því yrði ég að láta hræin liggja því ef ég nýtti skrokkana væri það þjófnaður, ef ég græfi þá er það reglugerðarbrot og ef ég baslaði þeim til eigenda sinna gæti það hreinlega þýtt árekstra svo fáir kostir eru góðir.
Hér áður fyrr voru til mismunandi aðferðir við förgun óvina sinna og sumt taldist bara vig, annað launvíg, og svo voru einnig morð en skilgreining hverrar aðgerðar er ekki alveg á hreinu. Ég hallast að því að launvíg væri einfaldasti kosturinn og sennilega ólíklegastur til að sanna mætti á mig að vígið hafi verið skipulagt og gert af ásetningi en ekki bara af því að ég er klaufi í meðferð skotvopna! Slysaskot er nefnilega alveg mögulegt ef skepnur eru að þvælast þar sem þær ættu alls ekki að vera og setja má upp æfingaskotmörk þar sem ég vil á minni landareign svo fremi að ekki séu eignir eða ferðir annarra í bakgrunni. Að ein og ein rolla sé að þvælast í skotlínunni yrði afar óheppilegt slys. Ég hef komist að því eftir nokkra eftirgrennslan að kaup á þokkalegum riffli eru ekki ýkja kostnaðarsöm og tel einnig víst að ég nái að fella æði margar ágangsskepnur áður en sektakostnaður komist í nánd við girðingarkostnað sem eins og áður sagði myndu kosta a.m.k. mig (ef ekki granna minna líka til helminga) stórfé.
Reyndar er það svo merkilegt að komast má upp með allskonar glæpi og brot gagnvart meðbræðrum sínum á okkar ágæta landi sem nánast fellur refsilaust. Jafnvel manndráp sem lögmenn finna gjarna einhverja vörn fyrir og eitursala ýmiskonar og ofbeldi sem iðulega virðist lítið eða ekkert unnið gegn. En sem jarðareigandi er ég býsna illa varinn fyrir ágangsfé annarra og til að bíta höfuðið af skömminni er mér gerð sú skylda að hreinsmala mitt land hvert haust til að skila megi eigendum þessa ágangsfjár eign sinni. Og að halda því fram að þetta sé réttlætanlegt vegna þess að svona hafi það ætið verið er svona álíka og að segja að faðir geti enn gift dóttur sína án þess að spyrja hana.
Reyndar man ég það að í Egilssögu er sagt frá deilum granna vegna ágangsbeitar búfjár. Þær deilur fóru í það að mannsblóði var úthellt og það góðum slatta af því. Því er það alls ekki fordæmalaust að land sé varið með vopnum. Þessi pistill er reyndar ekki skrifaður til að æsa upp í illdeilur heldur sem tilraun til að hrista upp í gömlum og fáránlegum reglum eða hefðum sem í raun mismuna fólki stórlega og troða fótum reglu um eignarrétt sem þó er víst varinn af Stjórnarskrá lýðveldisins. Kannski eitt af þeim atriðum sem breytingapostular í stjórnarskrármálum vilja taka fyrir. En ég semsagt er að hugsa minn gang og það alvarlega um framhald landvarna á Tungulæk og er jafnvel að spá í að komast aðeins í styrki þá sem Þorgerður ætlar að moka í landvarnir annarra sem eru þó verulega fjarri mínu landi. Ekki falleg hugsun atarna eða hvað? Ég telst þá genginn í raðir þeirra sem vilja halda rétti sínum til eigin lands og ekki þurfa að beygja sig eftir afgömlum úreltum reglum sem í dag verða held ég að teljast fáránlegar.
Með bestu kveðjum frá Tungulæk,
Einar Óskarsson