Falsfréttir flóna gera illt verra

Geir Konráð Theódórsson

Þessi vírus var búinn til í rannsóknarstofu til að eyða fátæku fólki. Nei, nei, þetta er sjúkdómur hvíta fólksins, eða Kínverja, að minnsta kosti er þetta útlendingum að kenna. Bill Gates bjó til þennan vírus til að nota Afríku sem tilraunastofu fyrir bóluefni og bóluefni valda einhverfu og gerir fólk ófrjótt! Ég heyrði að þetta sé ekki einu sinni vírus, þetta er af því að 5G-sendar nota bylgjur sem eitra frumur í mannslíkamanum. Bíddu, Vandana Shiva sagði að vírusinn væri afleiðing erfðrabreyttra matvæla!

Hérna í Níger í Vestur-Afríku er komið útgöngubann eftir myrkur og líklega verður hér algjört samgöngubann fljótlega. Allur heimurinn berst nú við vírusinn og vanþróaðasta land í heimi er þar ekki undanskilið. Tölfræðilega heima á Íslandi er um það bil einn læknir fyrir hverja 276 íbúa í samfélaginu, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin reiknar út að hérna í Níger sé einn læknir fyrir hverja 20.000 íbúa. Ég hef komið á besta sjúkrahúsið hérna í höfuðborginni Niamey og þó að þar sé ótrúlega duglegt fólk sem gerir sitt allra besta, þá er ástandinu þar kannski best lýst með því að segja að hvert sem ég fór á sjúkrahúsinu þá var engin sápa við neinn vask.

Vanþróað heilbrigðiskerfi veldur mér og auðvitað mörgum hérna í landinu miklum áhyggjum, en ég hef einnig áhyggjur af afleiðingum þess hve vanþróað menntakerfið er hérna. Um 70% af fullorðnu fólki í Níger kann ekki að lesa og því erfitt fyrir almenning að afla sér réttra upplýsinga um heilbrigðismál, sem og öll önnur mál. Upplýsingaskortur er eitt, og svo er það annað sem gerir illt verra, og það eru árans flónin sem búa til, deila og breiða út falsfréttir. Á hverjum degi virðast ný skilaboð fara eins og eldur um sinu yfir Internetið og þó að netsamband sé mjög takmarkað hérna í Níger þá nær vitleysan samt að brenna hug og hjörtu fólks. Falsfréttir ala á ótta og andúð milli ólíks fólks, þær skapa vantraust á vísindi og stofnanir, og þjóna gjörsamlega engum jákvæðum tilgangi.

Af hverju trúir fólk falsfréttum? Ég veit að ég hef fallið fyrir falsfréttum og samsæriskenningum, sérstaklega þegar ég var á menntaskólaaldrinum. Mig grunar að það hafi verið af því að ég var svo góðu vanur og óvart ofdekraður. Ég varð einfaldlega latur og kærulaus í neyslu minni á upplýsingum, á svipaðan hátt og ég var, og er stundum enn, latur og kærulaus í neyslu minni á matvælum. Móðir mín, og síðar fólkið í mötuneytinu á heimavistinni á Akureyri, eldaði góðan og hollan mat sem ég tók sem sjálfsögðum hlut. Foreldrar mínir og kennarar menntuðu mig með vel völdum upplýsingum sem ég aftur tók sem sjálfsögðum hlut. En þegar ég gat farið að stýra neyslu minni sjálfur, án ábyrgðar frá öðrum, þá kom í ljós að ég var of góðu vanur og hreinlega bara latur og kærulaus. Ég borðaði óhollustu án þess að hugsa um hitaeiningar og næringarefni, og ég las bækur og blogg án þess að hugsa um heimildir og trúverðugleika. Útkoman varð byltingasinnaður 120 kg sveittur „kommúnisti“ sem var staðráðinn í að berjast gegn samsæri kapítalismans, og mögulega geimvera líka!

Þegar við lesum fréttir eða athugasemdir af sveittum síðum Internetsins, þá vitum við innst inni að við ættum ekki bara að trúa þessu án þess að skoða heimildirnar. Alveg eins og við vitum innst inni að við ættum að hugsa um næringarefni og hitaeiningar þegar við tökum upp símtólið til að panta enn aðra sveitta pizzu. Það tók mig tíma að læra þessa lexíu, en við erum öll læs og það er í raun bara leti að lesa sér ekki til um það sem við troðum í okkur, hvort sem það er matur eða upplýsingar.

Samt, við erum ekki öll læs, og það er þess vegna sem ég hef sérstakar áhyggjur af falsfréttunum hérna í Níger. Við á Íslandi lærðum í skóla að finna og nota heimildir í bókum og í dag er sú leit jafnvel enn auðveldari. Það tekur enga stund að skreppa á til dæmis Snopes.com, eða nota leitarvélarnar til að finna og lesa upprunalegu heimildirnar á bakvið staðreyndir á netinu. Maður verður bara að passa sig smá og ég mæli með Potholer54 rásinni á Youtube ef þú þarft að rifja upp hvernig maður leitar að og metur trúverðugleika heimilda. Það tekur smá stund, en það er hægt að lesa sér til um allt. En hinsvegar ef þú ert ólæs manneskja í Níger og heyrir bara hljóðskilaboð í gegnum snjallsímann þinn um að bóluefni, ákveðnir hópar útlendinga eða farsímasendar séu raunverulega orsök veikindanna sem þú sérð í kringum þig, hvernig í ósköpunum áttu að komast að því hvað er rétt og hvað er rangt?

Þegar loksins finnst bóluefni til að berjast gegn þessum vírus, hversu mikil óþarfa þjáning mun halda áfram í heiminum vegna falsfrétta frá bóluefnisandstæðingum? Mikið af falsfréttum hérna í Níger eiga uppruna sinn í Evrópu og Ameríku, og því miður sé ég vott af þeim í kommentakerfum og á Fésbókinni heima á Íslandi. Þetta er okkur til skammar. Látum ekki leti okkar leiða til þess að falsfréttir flóna fari eins og eldur um sinu internetsins á Íslandi og geri illt verra um heim allan. Ef það virðast vera glæður í því sem þú lest á netinu, skoðaðu þá heimildirnar og gerðu þitt besta til að koma í veg fyrir að eldurinn breiðist út.

 

Geir Konráð Theódórsson í Níger.

Fleiri aðsendar greinar