Hinn heilagi friður

Arnaldur Máni Finnsson

Fimmti pistill #sjöfimmtudagar

Það verður stundum heldur vandasamt að finna orð sem ná yfir það sem er okkur heilagt, þegar við vísum til tilfinningarinnar frekar en þess sem er frátekið eða upphafið; eins og „það sem er heilagt“ stendur fyrir. Einhver staður eða hlutur er heilagur, jafnvel sérstakt atferli og í hugum sumra persónur, lifandi eða liðnar.

En rými og virðing fyrir tíma sem er helgaður sérstöku hlutverki minnkar stöðugt og litbrigði mannlífsins dofna að sama skapi, þegar allur tími virðist jafngildur orðinn og virðingin fyrir „helgum stöðum“ markast af breyttu viðhorfi til siðvenja og gildismats.

Þegar við tökum þátt í að breyta siðvenju þá er mikilvægt að virða hlutverk siðarins og leitast við að fanga kjarna hans og gildi. Að leita hins heilaga og virða það mun alltaf fylgja manneskjunni því við erum andlegar verur. Hvort við nálgumst það í kirkjunni, kyrrðinni eða kvöldhimninum, uppá fjöllum eða útvið strönd, í bjöllutóni eða hljómkviðu synfóníunnar, skiptir í raun ekki mestu máli, heldur það að við njótum þess að vera snert af kjarna hins heilaga; friðinum sjálfum. Í helgidómi hjartans.

Þeim fjölgar orðunum sem færri og færri skilja. Friðþæging er eitt. Að friðmælast við náungann hljómar eins og menn séu að metast. Við missum hægt og hljótt tengsl við merkingu hugtakanna, rætur friðarins og ávexti andans. Tíminn leysist upp, ekki við það eitt að allt sé skráð, heldur það að ný kynslóð elst upp við tímaflakk snjalltækja og ofgnótt undra. Það hættir nokkur skapaður hlutur að vera merkilegri en annar. Rétt svo að „nýtt líf“ nær máli, enda þarf að hafa fyrir því, en dauðinn sjálfur er deyjandi fyrirbæri. Og hvað er þá svo merkilegt við að sigra dauðann? Hvað er eilíft líf?

Þjónusta eða skortur

Grundvöllur allrar neyslu er skortur, og ef meginmarkið neyslusamfélagsins er að vaxa þá byggir vöxturinn á að styrkja tilfinninguna fyrir skorti. Þetta er jafn öfugsnúið og það hljómar. Rétt eins og einfaldasta lækningin við kvíða og vanlíðan er að kaupa sér eitthvað, þá er rót vandans vöntunin sem er innbyggð í andlegri heimsmynd okkar. Sjúkdómseinkennið „skortstilfinning“ vísar á meinið sjálft, sem er ófullnægja. Ótti og virðingarleysi ríkja ofar samkennd og trausti. Umhyggjan raungerist ekki í lífi manneskju með því að fá læk eða hjarta á netinu, ekki með milljón áhorfum á jútjúb.

Í frómri bók stendur að andstæða kærleikans sé ekki hatrið heldur afskiptaleysið. Elskan felur í sér þjónustu, hvort sem er við dýr, náttúru eða menn, og umhyggja okkar fyrir umhverfinu er birtingarmynd þess. En þjónustan á ekki að byggja á skyldurækni eða framkvæmdasemi, þó það séu kallaðar dyggðir í sjálfu sér, heldur á virkri virðingu okkar fyrir öðrum. Slík samskipti eru á forsendum æðri gilda, þeirra sem ekki er krafist endurgjalds fyrir. Alúð er andleg iðja og hún nærir og fæðir nýjan skilning hjá manni sjálfum. Hún eflir tilfinninguna fyrir hinu heilaga og verðmætamat manns verður auðugra þegar við erum ekki ónæm eða dofin. Það að meðtaka veröldina eins og sjálfvirkan vélbúnað efnahagslegra ferla er andleg leti og firring.

Hin heilaga sátt

Andleg heilsa felur í sér upplifa sátt án þess að bæta vanlíðan með neyslu, að hið heilaga fylli tómarúmið sem annars veldur tilfinningu fyrir skorti. Þannig felur það í sér meðvitund um að fylla ekki bara uppí tómið af hugsunarlaust með „einhverju“.

Það að hugsa um hlutinn er það sem framkallar merkingu og heilagleika hans. Þannig verður það sem er úthugsað af alúð, heilagt á sérstakan hátt – hvort sem gjörðin er ofureinföld eða krefst mikillar yfirlegu. Tómarúmið verður þannig „hreint“ af því að takast á við það; í stað óttans vex virðing. Það gefur manni vald að geta höndlað það sem viðkvæmt og magnað í senn án þess að reyna sölsa það undir sig.

Þannig er það fyrir mér með trúnna, föstuna og helgidóminn. Þegar við getum neitað okkur um vald yfir hlutum þá getum við fundið friðsæla fullnægju í þjónustu við þá.  Þannig verður fasta á lögmál heimsins opnun fyrir fagnaðarerindi friðarins.

Sumum finnst það ekkert tiltökumál að „ekkert“ sé nokkrum manni heilagt lengur. Kannski er því rétti tíminn til að rifja það upp fyrir sér í hverju helgin er falinn? Hvað fyllir þig lotningu og friði? Hefur hið heilaga tíma og pláss?

 

Arnaldur Máni Finnsson

Höf. er sóknarprestur á Staðastað.

Fleiri aðsendar greinar