Eyðilegging friðlandsins í Einkunnum!

Guðsteinn Einarsson

Á síðasta kjörtímabili var samþykkt og auglýstar breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Borgarbyggðar sem fól í sér möguleika á að setja niður skotæfingasvæði rétt við friðlandið í Einkunnum og á helsta útivistarsvæði hestamanna í Borgarbyggð.

Er skemmst frá því að segja að verkefnið fékk slæmar viðtökur og m.a. munu 123 íbúar hafa gert formlegar athugasemdir, sem mun vera fáheyrður fjöldi athugasemda við tillögur um breytingar á skipulagi. Niðurstaðan varð því sú að þáverandi meirihluti í Borgarbyggð lagði málið til hliðar.

En rétt fyrir síðustu bæjarstjórnakosningar þann 9. maí 2018 var þessi vanhugsaða tillaga um eyðileggingu þessara útivistasvæða lögð aftur fyrir umhverfis,- skipulags- og landbúnaðarnefnd. Á viðkomandi nefndarfundi virðast aðeins hafa verið mættir 3 af 5 nefndarmönnum. Tillögur um breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Borgarbyggðar var síðan samþykkt með 2 atkvæðum gegn 1. Það má því með réttu segja að efasemdir geta verið um réttmæti og lögmæti þessara samþykktar.

Þessi gjörningur var síðan staðfestur af bæjarstjórn þann 14 maí, á einum af síðustu fundum þáverandi sveitarstjórnar.  Síðan gerist ekkert í málinu fyrr en 19. nóvember s.l. að þessar skipulagstillögur eru auglýsingar með fresti til þess að gera athugasemdir við þær til 21. janúar 2019.

Það er læðst með þetta í auglýsingu þegar jólaundirbúningur er að hefjast á mörgum heimilum, jól og áramót að koma, tími sem flestir hafa um eitthvað annað að hugsa en skipulagmál.  Þetta er gert með einföldum látlausum auglýsingum, væntalega til þess að koma málinu í gegn án mikillar eftirtektar.

Alveg er gleymd klausan í samstarfssamningi núverandi meirihluta í Borgarbyggð; „Farið verði í frekari kynningu a skotæfingarsvæði í landi Einkunna áður en tekin er endanleg ákvörðn um leyfsveitingu fyrir starfsemina.“

En eins og þessi klausa ber með sér var gert ráð fyrir samráði um næstu skref og að auki þá virðist vera til staðar sami skilningur og hjá flestu hugsandi fólki, að verið sé að setja niður skotæfingasvæði í friðlandi Einkunna!

E.t.v. er rétt að minnast þess að meirihluti Sjálfstæðismanna og Samfylkingar á síðasta kjörtímabili var með allt niður um sig þegar kom að skipulagsmálum í Borgarbyggð, eins og dæmin sýna. Eftirspurn eftir óbreyttu verklagi var ekki meiri en svo að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 25% af fylgi sínu og Samfylkingin galt afhroð og tapað 40% af sínu fylgi í bæjarstjórnarkosningum í vor, sem ætti að sýna núverandi meirihluta að takmörkuð eftirspurn er eftir óbreyttu verklagi og vinnubrögðum innan sveitarstjórnar.

Ef Umhverfisskýrsla um verkefnið er lesin þá má sjá fjölda vafasamra fullyrðinga um takmörkuð áhrif þess að setja niður skotæfingasvæði í útvistarsvæði hestamanna og við hlið friðlandsins í Einkunnum.

Í umhverfismati áætlunar segir í niðurstöðum um hávaðamælingar á útivistarsvæðinu:

„Áætlað hljóðstig við Lækjarkot liggur þó yfir neðri mörkum og má út frá því búast við að hljóðstig frá 5 skotbrautum geti mögulega verið yfir viðmiðunarmörkum fyrir Álatjörn og önnur svæði sem liggja í um 1 km fjarlægð frá fyrirhuguðu skotsvæði.  Meta þarf því hvort eitthvað af því svæði sem liggur í nálægð við 1 km jaðarinn frá skotsvæðinu eigi að skilgreinast sem útivistarsvæði samkvæmt sænsku viðmiðunarreglum og þá sérstaklega hvort eitthvað af þeim svæðum sé ætlað til reiðmennsku þar sem skyndilegir hvellir geta fælt hesta.“

Rétt er að hafa það í huga að Álatjörn mun vera 800 metra frá skotsvæðinu þannig að áhrif frá því gætir langt inn í friðland Einkunna.

Ein rökin í umhverfismatinu fyrir því að setja niður skotæfingarsvæði í mitt útivistarsvæði hestamanna og við friðlandið í Einkunnum er að skotíþróttin sé í vexti og það eitt muni efla byggð.

Það er alveg horft framhjá þeirri staðreynd að vaxandi eftirspurn er eftir ósnortnum útivistasvæðum eins og Einkunnum, þar sem fólk getur sótt á vit nátturunnar, til afslöppunar og afþreyingar, fjarri skarkala þéttbýlisins. Mun líklegra er að ósnortin náttura muni hafa jákvæð áhrif á frekari uppbyggingu byggðar í Borgarnesi heldur en skotæfingasvæði við bæjarmörkin.

Einkunnir og svæðið umhverfis eru náttúruperla sem verður verðmætari og verðmætari eftir því sem árin líða. Látum ekki skammsýna og/eða þröngsýna stjórnmálamenn eyðileggja svæðið, mótmælum þessum óábyrga og óheiðarlega gerningi.

Borgarnesi, 6. janúar 2019.

Guðsteinn Einarsson.