Erum við virk?

Flemming Jessen

Þar sem ég ligg í rúminu mínu – öklinn brotinn – og hugur minn reikar m.a. um starfsemi eldri borgara, þá kemur eitt og annað upp. En einmitt þá hefst morgunleikfimin á Rás 1 og ég reyni eins og undanfarin ár að vera með. Þessi tími 10 – 12 mínútur fimm morgna í viku er allra meina bót og kemur hreyfingu á blóðið, öndunina, teygjur og fettur sem eflir og styrkir. Tekur þú þátt í morgunleikfimi Rásar 1?

Það eru ekki mörg ár síðan að Alþingi samþykkti að í öllum sveitarfélögum skuli starfa eldriborgararáð, sem komi saman ekki sjaldnar en tvisvar á ári og sem er sveitarstjórn til ráðgjafar og samráðs um málefni eldri borgara. Þessu hefur verið sinnt ágætlega og vonandi verður enn meiri kraftur í starfi ráðanna um land allt.

Í Borgarbyggð starfa tvö félög aldraðra; Félag aldraðra í Borgarnesi – FEBBN – og Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum – FAB. Starfsemi félaganna er mjög blómleg, því auk þess sem tafla hér að neðan sýnir standa þau fyrir ferðum á ýmsa menningarviðburði ásamt vor- eða sumarferðum.

Dagskráin á veturna:

Boccía             laugardaga kl. 11.00                          Íþróttahúsið Borgarnesi

Dans             miðvikudaga                                          Borgarbraut 65A

Pútt             þriðju- og fimmtudaga kl. 14.00          Eyjan/Brákarey

Ringó                        sunnudaga kl. 10.00                Íþróttahúsið Borgarnesi

Sund                     föstudaga                                           Sundlaugin Borgarnesi

Sundleikfimi   þriðju-, fimmtu- og föstudaga           Sundlaugin Borgarnesi

Söngur            miðvikudaga kl 17.00                           Félagsbæ

Yoga              fimmtudaga kl 13.00                          Borgarbraut 65 A

Samverustundir:

FAB – í félagsheimilinu Brún miðvikudaga kl. 13.30 – 16.30.  Lestur, ljóð, spil og leikir + kaffi

FEBBN – félagsstarf að Borgarbraut 65 a alla daga kl. 13.00 – 16.00. Bridge, félagsvist, föndur + kaffi

 

Veðrið er hvorki vont né gott,

varla kalt og ekki heitt.

Það er hvorki þurrt né vott,

það er svo sem ekki neitt.

 

Svo kvað Jónas Hallgrímsson. Besta hreyfingin er að fara út og ganga, anda að sér fersku lofti, skoða náttúruna og dýralífið, sama hvernig veðrið er. Það er auðvelt að finna gönguleiðir; upp til fjalla, inn í skóg, milli bæja, um götur að ekki sé minnst á íþróttavellina. Hér geta menn og konur sammælst um að hittast og eiga stund saman. „Það er ekkert veður vont heldur mismunandi gott. Það sem máli skiptir er að klæða sig eftir veðurlagi.“ Þannig orðaði sá mikli íþróttaleiðtogi Þorsteinn Einarsson það. Útivera styrkir, hressir, bætir og kætir.

Undanfarin tíu ár hef ég verið svo lánsamur að starfa innan samtaka sem nefnist Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra – FÁÍA. Félagsskapur þessi hefur starfað í rúmlega 30 ár og hefur á þessum árum staðið fyrir fjölbreytum námskeiðum, íþróttamótum og gleðilegum samverustundum. Öll sú vinna sem þar hefur verið innt af hendi er unnin í sjálfboðavinnu. Því miður hefur okkur ekki tekist síðustu ár að afla fjár til starfseminnar og því er svo komið að ákveðið hefur verið að staldra við um stund og sjá til. Fyrr á árum fengum við styrki t.d. frá ríki og ýmsum góðviljuðum fyrirtækjum, sem dekkuðu kostnað af námskeiða- og mótahaldi okkar vítt og breitt um landið þátttakendum að kostnaðarlausu. Segja verður þó söguna eins og hún er, því Reykjavíkurborg hefur stutt okkur gegnum árin og gerir enn. En nú er öldin önnur. Ódýrasta leið ríkis og sveitarfélaga er að styrkja starfsemi sem þessa. Með því móti gætu félög eldri borgara innan hvers sveitarfélags leitað til FÁÍA um aðstoð vegna námskeiða eða annarra viðburða. Er sveitarfélagið Borgarbyggð tilbúið að leggja okkur lið? Vinstri græn eru tilbúin til þess.

Að lokum lesandi góður. Í Borgarbyggð er vel staðið að starfsemi eldri borgara – félög eldri borgara – sveitarfélagið. Við höfum aðgang að íþróttahúsum, sundlaugum, þreksölum og jafnframt að góðri félagsaðstöðu, þar sem við föndrum, segjum frá og skemmtum okkur saman. Við þurfum hins vegar að vera miklu duglegri að stunda það sem í boði er og munum – það er aldrei of seint.

Það sem mestu máli skiptir er að finna sér áhugamál

hitta vini og kunningja, gleðjast saman

 

Flemming Jessen.

Höf. er eldri borgari sem skipar 11. sæti á lista VG í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar