Eru stjórnvöld viljandi að skerða samkeppni íslenskra fyrirtækja?

Kristján Rafn Sigurðsson

Síðan að EES samningurinn komst á árið 1992 hefur verið mikill ójöfnuður í tollmeðferð á mörgum vörutegundum úr sjávarfangi. Mestur munurinn liggur í reyktum laxi. Kerfið, eins og það er uppsett núna, leggur 13% innflutningstolla á allan Atlantshafslax sem reyktur er á Íslandi.  Hinsvegar geta lönd innan ESB, t.d. Pólland, flutt reyktan lax til Íslands og þurfa ekkert að greiða í innflutningsgjöld, þ.e.a.s. 0%. Þannig geta verslanir hér á Íslandi keypt skoskan, norskan (sem reyktur er í Póllandi) lax í samkeppni við innlenda framleiðslu.

Nokkur fyrirtæki í reykingu á sjávarfangi á Íslandi, hafa tekið sig saman til að reyna að þrýsta á um að þessi tollamunur sé jafnaður, þannig að fyrirtæki í sömu grein á sama efnahagssvæði njóti sama umhverfis frá hinu opinbera, þ.m.t. tollaaðgang.  Allt frá árinu 2007 hefur ráðamönnum verið ljós þessi mikli aðstöðumunur íslenskra reykhúsa og undirritaður margítrekað bent á leiðir til að jafna þennan aðstöðumun. Eyru stjórnvalda virðast lokuð.

Litið til þeirrar fyrirsjáanlegu aukningar, sem mun verða í eldi, og þá sérstaklega laxeldi á Íslandi á komandi misserum, er ljóst að neðangreind reykhús munu reyna í auknum mæli að kaupa, vinna og markaðssetja reyktan íslenskan lax.  Sérstaklega inná þau lönd sem eru meðlimir í ESB, þar sem að neysla á reyktu sjávarfangi er komin yfir 100 þúsund tonn á ársgrundvelli.  Þetta er því langstærsti markaðurinn með meiri dýpt og breidd í neyslumynstri, sem gerir aðgang fyrir íslenska framleiðendur auðveldari en inná aðra markaði ef ekki væri fyrir þessar tollahindranir.

Á fundi með Utanríkisráðherra, og í bréfaskriftum við ráðuneytið, þá höfum við framleiðendur á reyktum laxi, bent nokkrum sinnum á þennan ójöfnuð. Þá er ekkert langt í það að íslenskum fyrirtækjum í greininni verði úthýst af eigin heimamarkaði, með innflutningi frá, t.d. pólskum fyrirtækjum, sem nota að uppistöðu til norskan lax, án þess að íslensku fyrirtækin eigi nokkra möguleika á að keppa á þeirra mörkuðum.

 

Kristján Rafn Sigurðsson

Höf. er framkvæmdastjóri Eðalfisks.