Eru mögulega tengsl á milli lágs loftþrýstings og mannlegs harmleiks?
Svavar Garðarsson
Það hefur lengi verið þekkt sem munnmælasögur að sumt fólk finni það á sér með ýmsum en breytilegum hætti þegar lágur loftþrýstingur er yfir því landssvæði sem það dvelur á hverju sinni. Fólkið hefur lýst tilfinningunni sem sléni, leti, þreytu og þróttleysi, orðin yfir tilfinninguna eru öll mikið skyld og eru huglægt mat á andlegri upplifun við aðsteðjandi óútskýrðri tilfinningu sem þó þetta fólk hefur rakið til þess að hellist yfir það þegar lágur loftþrýstingur er yfir þeirra dvalarstað.
Ég velti því fyrir mér með hliðsjón af framansögðu nú þegar gefið hefur verið út af Veðurstofu Íslands að loftþrýstingur yfir landinu hefur aldrei verið eins lágur og þetta ár síðan mælingar hófust árið 1820. Nú á þessu sama ári eru mannlegar hörmungar í hinum ýmsu birtingarmyndum alveg með ólíkindum algengar hvort heldur það séu dauðaslys í umferðinni, morð eða maður ræðst á annan með illann ásetning og fólk sem tekur eigið líf. Er mögulegt að lágur loftþrýstingur geti haft slævandi áhrif á meðfædda dómgreind og valdið sinnuleysi og skertri skynsemi?
Það gæti verið gagnlegt ef þar til bærir aðilar settust yfir fyrirliggjandi gögn til langs tímabils um alvarleg umferðarslys, ofbeldisverk og sjálfsvíg, tekið saman eftir svæðum og tíma annarsvegar og lágan loftþrýsting eftir svæðum og tíma hinsvegar. Samkeyrt svo gögnin til að sjá hvort þar finnist fylgni sem væri ástæða að skoða nánar.
Svavar Garðarsson, Búðardal