Eru Borgnesingar ginkeyptir?

Jón Pétursson

Út í Brákarey stendur reisulegt og fallegt hús. Hús þetta heitir Grímshús. Það var farið að láta á sjá fyrir nokkrum árum og stóð jafnvel til að rífa það. Hópur manna stofnaði félag sem hafði það hlutverk að gera húsið upp og koma því í notkun.

Mér skilst að hugmyndin hafi upphaflega verið sú að hýsa safn um útgerðarsögu Borgarness auk annarrar starfsemi. Húsið hefur tekið miklum stakkaskiptum og er orðin hin mesta prýði. Vonandi er það byrjun á að taka til í Brákarey og sýna þessari perlu sem Brákarey og Borgnesingum öllum þá virðingu sem eyjan á skilið. Í eynni er mikið af húsum í niðurníðslu, þau þarf að laga og koma í notkun. Eitt er víst að möguleikarnir eru óþrjótandi.  Það er til dæmið einn möguleikinn að flytja þangað gömul hús úr Borgarnesi til varðveislu.

Það er óumdeilt að Grímshús er í eigu sveitarfélagsinns. Sveitafélagið ræður að sjálfsögðu á endanum hvað gert verður við húsið. Því ber samt að upplýsa bæjarbúa og sérstaklega félaga í Grímshúsfélaginu hvað stendur til.

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar þann 2. ágúst 2018 voru lögð fram drög að leigusamningi um að leigja Martins Millers Gin Grímshúsið til lengri tíma. Bæjarráðið lýsti ánægju sinni með málið.

Umræður um leigu Grímshússinns voru einnig á stjórnarfundi Grímshússfélagsinns en þann fund sátu sjö manns. Lítið samráð eða kynningar virðast hafa verið við þá fjölmörgu sem greiða félagsgjöld í Grímshúsfélagið.

Á fundi byggðarráðs þann 26. september 2018 var mál Grímshússins tekið fyrir og samkvæmt fundargerðinni sem er löng virðist vera tekið jákvætt í erindi Martins Millers gin.

Það er því ljóst að framtíð hússins er hugsanlega að skýrast og þær fyrirætlanir um að húsið myndi hýsa minjar eða minningar um útgerðarsögu Borgarfjarðar getur vissulega farið saman með aðstöðu áengisframleiðanda. Eftir stendur spurningin; á að minnast Borgarness fyrir ginframleiðslu eða eitthvað annað?

Mín skoðun er sú að ginframleiðandi á ekkert erindi í sögufrægt hús í Borgarnesi. Nær væri að halda áfram uppbyggingu í Brákarey, mynda heildarmynd húsa í eynni sem gætu hýst ýmis konar starfsemi. Af nógu er að taka.

Innan einhverra ára mun eftirspurn eftir því að búa í Borgarnesi aukast. Má þar nefna að verði Sundabraut lögð styttist leiðin til Borgarfjarðar. Borgarnes á því að vera viðbúið fólksfjölgun og þarf að vera búið að mynda sér heilstæða stefnu í skipulagsmálum og skýra sín. Gamli hlutinn í Borarnesi er einstaklega fallegur og yrði eflaust mikið aðdráttarafl væri tekið hraustlega til hendinni.

 

Jón Pétursson

Höf. er áhugamaður um Borgarnes og velferð bæjarins.