Ertu að hlusta?

Liv Åse Skarstad

Hvenær settistu síðast niður, án allra tækja og truflana, og gafst þér virkilegan tíma, og athygli í að hlusta? Hvort sem það var að hlusta á börnin þín, maka, foreldra eða vinnufélaga, þá skiptir miklu máli að hlusta af einlægni. Það er grundvallarmunur á því að heyra og að hlusta, og þetta getur verið áskorun fyrir marga. Ein dýrmætasta gjöfin sem þú getur gefið sjálfum þér og öðrum er tími og athygli, og hún kostar ekkert. Það eina sem þarf er áhugi og viljinn til að gefa öðrum þessa verðmætu gjöf. Oft þarf ekki langa stund; nokkrar mínútur af óskiptri athygli geta skipt sköpum fyrir þann sem fær hana. Hins vegar getur það verið krefjandi að kunna að hlusta án þess að grípa fram í og trufla frásögnina. Ef við hlustum af athygli og með það að markmiði að skilja, þá skoðum við tjáninguna, horfum á viðmælandann, bíðum, meltum og truflum ekki frásögnina. Oft má lesa mikið úr öðru en orðum, svo sem tónfalli, hljómfalli og orðavali, en við getum ekki skynjað og túlkað þetta án þess að veita fulla athygli.

Virk hlustun felst ekki aðeins í því að hlusta á orðin sem eru sögð, heldur einnig að skilja tilfinningarnar og merkinguna á bak við þau. Þetta krefst þess að við séum til staðar í augnablikinu, án þess að hugsa um hvað við ætlum að segja næst eða hvernig við getum svarað. Það krefst þess að við séum opin fyrir því sem viðmælandinn er að deila, án þess að leggja dóm á það eða reyna að breyta því.

Hvort sem það er í faglegu samhengi eða í persónulegum samböndum, þá hefur það gríðarlega jákvæð áhrif að staldra við og hlusta af athygli. Þegar við hlustum af einlægni þá sýnum við viðmælanda okkar, hvort sem það er yfirmaður, undirmaður, maki eða barn, að við metum og virðum það sem þau hafa að segja. Þetta getur skipt sköpum fyrir samskipti og árangur og leiðir til betra samstarfs. Þannig getum við komið í veg fyrir misskilning og leyst ágreining.

Það er mikilvægt að muna að virk hlustun er ekki meðfædd, hún er ekki hæfileiki sem við fæðumst með og við erum misvel í stakk búin til að hlusta á aðra. Virk hlustun er færni sem vel er hægt að þróa og bæta með æfingu.

Við skulum gæta þess að leggja ekki dóm á það sem sagt er við okkur eða gefa óumbeðin ráð. Ef óskað er eftir því að þú viðrir skoðanir þínar, þá verður beðið um það. Ekki reyna að troða skoðunum þínum og lífsviðhorfum á aðra nema sérstaklega er óskað eftir því. Stundum er best að þegja bara og HLUSTA! Þá geta einstök undur gerst.

 

Liv Åse Skarstad