Ert þú foreldri eða forráðamaður framhaldsskólanema?

Elsa Lára Arnardóttir

Í störfum þingsins í dag, 7. október, ræddi ég ný lög um húsnæðisbætur sem taka gildi þann 1. janúar 2017.

Ég vakti athygli á mikilvægum þætti þeirra laga. Hann er sá að við gildistöku laganna, þá verður sveitarfélögum skylt að greiða húsnæðisbætur til þeirra foreldra og forráðamanna sem eiga börn á aldrinum 15 – 17 ára. Börn sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir sína heimabyggð og búa á námsgörðum og heimavist. Þessi stuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forráðarmanna. Stuðningurinn getur numið allt að 75 % af húsnæðiskostnaði vegna leigunnar.

Hér er um að ræða mikilvæga breytingu sem gerð var á málinu þegar það kom til þingsins. Það var mikill stuðningur við málið innan nefndar. Nefndarmönnum fannst mikilvægt að koma á móts við aukinn kostnað þeirra heimila sem þurfa að senda börn sín í framhaldsnám fjarri heimabyggð. Ég sem framsögumaður málsins var ánægð með þennan mikla stuðning við tillöguna.

Í umræðunni hefur ekki farið mikið fyrir þessum rétti foreldra og forráðamanna. Því var tilvalið að minna á þetta í ræðu þingsins og koma skilaboðunum á framfæri.

Foreldrar og forráðamenn þessara barna, geta því upp úr áramótum óskað eftir þessum stuðningu hjá því sveitarfélagi þar sem þau hafa lögheimili.

 

Elsa Lára Arnardóttir

– þingmaður Framsóknarflokksins og skipar 2. sæti á lista flokksins í NV kjördæmi.