Er útivist útundan?

Jens B Baldursson

Stefnuleysi í útivistarmálum?

 

Ég var að leita á vefnum að stefnu stjórnmálaflokkanna vegna bæjarstjórnarkosninganna á Akranesi. Ég hef áhuga á að auka útiveru almennings og bæta aðstöðu fólks til göngu- og hjólreiða í heilnæmu umhverfi, ekki síst í skóglendi. Ég leitaði því sérstaklega eftir stefnu flokkanna í þeim málum en fann lítið. Raunar reyndist erfitt að finna framboðslista og enn erfiðara að finna stefnu flokkanna fyrir kosningarnar þegar framkvæmd er einföld leit á vefnum. Við leit koma upp framboðslistar flokkanna fyrir kosningarnar 2014 og lítið um framboðin í dag.

 

Þurfum við göngu- og hjólreiðastíga?

Eftir að ég hætti sem stjórnandi í framhaldsskóla hef ég helgað mig skógrækt á Akranesi og að byggja upp útivistarskóg fólki til yndisauka og heilsubótar. Áhugann á skógrækt hef ég frá afa mínum, sauðfjárbóndanum, og áhuginn á að auka útiveru almennings er tilkominn eftir áralöng störf í framhaldsskóla þar sem mér og fleirum hefur sýnst vera sívaxandi þörf á að koma ungu fólki út í náttúruna (og raunar eldra fólki líka). Of margir eru inni mestan hluta sólarhringsins, ferðast um í bíl í stað þess að ganga eða hjóla og hreyfa sig allt of lítið. Fjölmargt ungt fólk unir sér ekki innan íþróttafélaganna því það hefur engan áhuga á keppnisíþróttum. Ég held að það myndi leysa mörg vandamál fólks, ungra sem aldinna, að fara út í náttúruna í góðan göngu- eða hjólreiðatúr. Það hefur sýnt sig að skóglendi bætir líðan fólks og svo dregur skógurinn stórlega úr vindi sem oft er mikill í okkar ágæta landi. Það hef ég reynt á skógræktarsvæðinu í Slögu í Akrafjalli. Næstum fokinn um koll utan skógræktarinnar en gott skjól í skóginum. M.a. þess vegna legg ég áherslu á að tengja saman skóglendi og göngu- og hjólreiðastíga.

 

Styðjum skógræktina

Ég hvet bæði núverandi og væntanlega bæjarfulltrúa til að leggja aukna áherslu á útiveru fólks með því að rækta skóg og byggja upp göngu- og hjólreiðastíga. Þetta er miklu ódýrara en margt annað sem gert er til að bæta heilsu fólks. Kostnaðurinn við skógræktina hefur ekki verið mikill því við skógræktarfólkið höfum gróðursett í sjálfboðavinnu. Helsti kostnaðurinn hefur verið í stígagerð og þar þarf að gera miklu betur. Framlög til reiðstíga hafa verið 5 milljónir á ári og tími til kominn að ekki verði verr gert við gangandi og hjólandi fólk. Það er m.a. þörf á göngu- og hjólreiðastígum meðfram þjóðveginum í Garðaflóa þannig að fólk þurfi ekki að leggja sig í stórhættu á þjóðveginum þegar það hjólar sér til heilsubótar. Ásamt stígum í þéttbýli þá þarf að lengja stígakerfið upp að Akrafjalli.

Skógræktarfélag Akraness fær nú loksins meira land til skógræktar í Slögu og við þjóðveginn. Nokkuð sem við höfum barist fyrir árum saman. Hugur er í fólki að rækta upp skóg. Í sumar fáum við sjálfboðaliða til að aðstoða okkur við skógræktina. Það tekur 15 – 20 ár að rækta upp sæmilega stór tré og oftast mun lengri tíma í kafaldsgrasi eins og verið hefur á okkar svæðum. Við viljum auka vaxtarhraðann með því að vinna landið undir ræktun. Auk þess gerir jarðvinnslan landið þægilegra yfirferðar fyrir almenning í framtíðinni því landið sem við fáum er afar þýft og leiðinlegt eftir langvarandi hrossa- og sauðfjárbeit. Ég vona svo sannarlega að bæjarstjórnin taki vel í beiðni okkar um stuðning. Við förum ekki fram á háar fjárhæðir. Við sækjum ekki sérstaklega um stuðning við gerð göngu- og hjólreiðastígs meðfram þjóðveginum þar sem sá stígur hefur verið á vegum bæjarins. En við getum tekið að okkur fyrstu vinnu við slíkan stíg ef við fáum til þess stuðning. Mikilvægt er að byrja á verkefninu.

 

Vill almenningur skógrækt?

93% landsmanna telja að skógar hafi almennt mjög eða frekar jákvæð áhrif fyrir landið skv. könnun sem gerð var í mars. Hlutfall þeirra sem voru hlutlausir, frekar neikvæðir eða mjög neikvæðir er svo lágt að hér verður ekki reynt að túlka það (neikvæð 1,6%, hlutlausir 5,4%).  Helst munar milli hópanna mjög jákvæð og frekar jákvæð. Þar vekur athygli feykimikill stuðningur í aldurshópunum 18 til 34 ára en 73-74% svarenda eru mjög jákvæð. Einnig var spurt hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum. Tæp 87% töldu það frekar eða mjög mikilvægt. Stuðningurinn ótvíræður og því þarf bara að hefjast handa í skógræktinni.

Sannarlega tilefni til bjartsýni fyrir okkur skógræktarfólk ef þetta skilar sér í aukinni skógrækt. Sem er alls ekki víst því framlög til skógræktar hafa minnkað svo mikið, sérstaklega eftir 2008, að ræktunarstöðvarnar eru meira eða minna farnar á hausinn eða í andaslitrunum.  Ef stjórnmálamenn á landsvísu mönnuðu sig upp í að stórauka framlög til skógræktar þá tæki mörg ár að framkvæma það. Í okkar veiðimanna- og hirðingjasamfélagi, þar sem lítil áhersla er á uppbyggingu til framtíðar, þá skortir mjög á skilning á hvers konar ræktun. Ræktun skóga er eins og ræktun heilbrigðs mannlífs, þolinmæðisverk þar sem töfralausnir skila sjaldnast árangri en geta stundum spillt fyrir. En orð eru til alls fyrst og því mikilvægt að styðja við skógræktina í samræmi við eindreginn vilja almennings.

 

Skógræktarfélag Akraness í vor og sumar

Undirbúningur fyrir starfið í vor og sumar er nú á fullu. Mikilvægast núna er að girða af skógræktarlandið í Slögu neðan Akrafjalls fyrir sauðkindinni sem getur valdið miklu tjóni, sérstaklega í nýskógrækt. Ræsi þarf í skurði og leggja stíga sem verða fyrst og fremst grasstígar enda kostar lítið að tæta þúfurnar miðað við að leggja malarstíga. Störfin eru mörg og allir sem geta og vilja aðstoða okkur eru hvattir til að hafa samband. Það munar um alla aðstoð og ég get lofað fólki því að það frískast upp í útiverunni, hreint loft bætir heilsuna. Hjá okkur er engin keppni í vinnu þannig að þeir sem ekki treysta sér í puð, geta gert fjölmargt sem hæfir heilsu og getu hvers og eins. Hafið samband við jensbb@internet.is eða í síma 897 5148. Nánari upplýsingar á http://www.skog.is/akranes/ og Facebook.

 

Jens B. Baldursson