Er þörf á að fjölga? – Óþurftar verkefni!

Guðsteinn Einarsson

Samkvæmt frétt í DV á dögunum var ungri konu, sem hafði dvalið hér á landi í sjö ár, fylgt úr landi af fjórum lögreglumönnum. Unga konan hafði getið sér gott orð hér og ekki verið til neinna vandræða að séð verður. Hún var handtekin og höfð í haldi klukkutímum saman og síðan fylgt til Tiblísi, ekki til síns heimalands Rússlands, heldur Georgíu, því sem næst allslaus.

Nú berast fréttir af því að enn eigi að vísa úr landi með valdi ungri konu, skv. frétt á Vísi. Konu sem hefur getið sér gott orð hér á landi eins og hin að sagt er. Allavega er falleg mynd af henni með forseta vorum með fréttinni.

Líklega fagnar öfga hægrið í Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum, og þá ekki síst Klaustursdónarnir þessum aðgerðum.

Það eru óskiljanleg vinnubrögð Útlendingastofnunar og lögreglu að verið sé að senda ungar konur sem þessar í fylgd fjögurra lögreglumanna út í óvissuna. Nær væri að þær fengju landvistarleyfi og kennitölu og gætu þá farið að vinna fyrir sér.

Ef lögreglan hefur ekkert annað og betra að gera en þetta þá er óþarft að fjölga lögreglumönnum fyrst hægt er að fórna nokkurra daga vinnu í óþurftar verkefni sem þessi.

Er ekki rétt að endurskoða verklag og vinnubrögð Útlendingastofnunar? Eitt er að endursenda fólk sem talið er að tengist glæpalýð úr landi, en þetta verklag er eitthvað allt annað og ósiðlegt.

En þetta verklag og vinnubrögð eru með öllu óskiljanleg siðuðu fólki og þjóðinni til skammar.

 

Borgarnesi, 10. desember

Guðsteinn Einarsson